Boston
Ódýrt flug til Boston
Sögulegt smáþorp í hressandi stórborg
Af hverju verða nánast allir ástfangnir af Boston? Kannski eru það dásamlegir almenningsgarðarnir og gullfallegar borgarmyndirnar. Mögulega er það heimspekilega stemningin sem fylgir fjölmörgum skólum borgarinnar og veita henni nafnbótina „Aþena Ameríku“. Eða er það þessi sjarmerandi mótsögn af hressandi stórborg og sögulegu smáþorpi, allt í einum pakka?
Þú finnur þínar eigin uppáhaldshliðar en Boston mun án efa eiga hug þinn og hjarta á mettíma. Eitt það allra besta við Boston er auðvitað fólkið. Þessi einkennandi hreimur og jarðbundna írska-ameríska framkoma gerir Boston-búa að dásamlegum félagsskap. Passaðu bara að halda með Boston Red Sox í nálægð við Fenway Park og þá er þetta allt í góðu.
Það borgar sig að byrja á að kynnast Boston í Beacon Hill, einhverju fallegasta borgarhverfi Bandaríkjanna. Hverfið var byggt upp á 18. og 19. öld og þessi hæð er full af steinlögðum strætum og antíkljósastaurum sem setja fallegan svip á gömul húsin. Svæðið er síðan sneisafullt af sjarmerandi verslunum og galleríum og verður fyrir vikið eins og stórkostleg blanda af sögufrægu þorpi og sætri leikmynd.
Frelsi, saga og stórmerkilegt háskólaumhverfi
Hér er sagan í forgrunni enda hafa einhverjir stærstu viðburðir í sögu Bandaríkjanna átt sér stað í Boston. Fylgdu Freedom Trail eða Frelsisslóðinni sem er merkt slóð í gangstéttum í miðborginni og leiðir gesti og gangandi á milli sögufrægra staða með tilheyrandi skýringum.
Eftir að hafa komið við á goðsagnarkenndum „Cheers“ barnum á Beacon Street er tilvalið að ganga í gegnum Public Garden. Þetta er einhver ævintýralegasti almenningsgarður sem fyrirfinnst í stórborg og hann er í algjöru uppáhaldi hjá heimamönnum, gestum, gangandi og alls kyns krúttlegum öndum og íkornum. Eftir að hafa endurgert góða senu úr gamalli Disney-mynd skal haldið beint í Back Bay hverfið til að fagna efnishyggjunni með alvöru verslunarleiðangri og dýrindis mat. Áður en haldið er heim á leið með troðfullar töskur af alls kyns dýrmætum er skyldumæting á Harvard Square til að drekka í sig sögufrægt og stórmerkilegt háskólaumhverfið.
Boston er gamaldags sjarmör sem kann að meta fágaða nálgun á lífið en ef þig langar bara í kaldan bjór og geggjaða pítsu í afslöppuðum félagsskap lifir sá draumur líka góðu lífi í Boston.