Skoða efni
Beautiful harbour in Pula Croatia

Pula

Ódýrt flug til Pula í Króatíu

Pula Croatia

Sjóðheitur áfangastaður við Adríahaf

Pula er sjöunda stærsta borg Króatíu og sú stærsta á Istríuskaga. Þar búa um það bil 60.000 manns í miklu návígi við gullfallegt Adríahafið með tilheyrandi strandlengju, tærum sjó og sjarmerandi klettavíkum. Það mætta færi rök fyrir því að þessi hafnarborg sé einn eftirsóknarverðasti áfangastaður Evrópu því hér er ekki bara hægt að njóta sólarinnar og baða sig í hlýjum sjónum á sumrin, heldur er borgin eins sögufræg og þær gerast með heimsfrægum byggingum frá tímum Rómverja og sannkölluð matarkista fyrir vandláta. Þá sakar ekki að verðlagið er með besta móti, þjónustan er mikil en fjöldi ferðamanna mun minni en í stærri og frægari borgum með sambærilegt aðdráttarafl. Það eru fjölmargar, mjög góðar ástæður fyrir því að fólk ætti að skoða beint flug til Pula með PLAY fyrir næsta frí.

Miðjarðarhafsloftslag og gullfallegur strendur

Þeir sem þrá sól, sjó og sand finna þetta allt í Pula. Þessi sjarmerandi borg á Istríuskaga er frábær sólaráfangastaður við Miðjarðarhafið og veðurfarið yfir sumarið er eins og best verður á kosið. Sumarið er langt og sólríkt og meðalhiti á daginn um 30°C og því er kjörið að flatmaga á strönd í Pula.

Strendur Pula eru fjölmargar en margar þeirra skarta tærum sjó og eru rammaðar inn af fallegum litlum klettavíkum. Ein frægasta ströndin er Verudela strönd en umhverfis hana er grænt skógi vaxið svæði sem gerir hana einstaklega fallega. Þar má eyða dásamlegum degi í að synda, snorkla eða bara slaka á og láta Adríahafið endurnæra sig. Þeir sem vilja aðeins afviknari stað ættu að skoða Gortanova Uvala strönd sem er í sérstöku uppáhaldi meðal heimamanna en þar er að finna kristaltæran sjó og einstaklega falleg sólsetur. Grunnt og tært vatnið er sérstaklega heppilegt fyrir fjölskyldur með börn.

Rómaveldi og sögufrægar byggingar

Sögunördar geta látið drauminn um að komast í snertingu við sögu Rómaveldis rætast í Pula. Sú vegferð ætti að byrja í rómverska hringleikahúsinu sem er eitt af sex stærstu sinnar tegundar í heiminum og það eina hvers hliðarturnar standa allir enn. Enn eru haldnir stórir og spennandi viðburðir í hringleikahúsinu svo sem tónleikar, hátíðir og meira að segja útibíó svo við mælum sérstaklega með því að fólk fylgist með dagskránni þá daga sem dvalið er í Pula.

Þá skyldi enginn láta Ágústusarhof fram hjá sér fara sem er ekki bara dæmi um stórfenglega byggingarlist heldur beyglar það tímaskyn hins hefðbundna Íslendings þegar hann veltir því fyrir sér að hofið var byggt til heiðurs fyrsta Rómakeisara, á valdatíma hans, og er því u.þ.b. 2.000 ára gamalt. Sergii-sigurboginn er annað tímalaust meistaraverk sem eykur á þennan sögulega sjarma þegar gengið erum götur Pula.

a beautiful beach in Pula Croatia

Skemmtileg afþreying fyrir minna

Pula er full af afþreyingu sem kostar ekki neitt eða lítið sem ekkert. Gönguferðir um gamla bæinn þar sem sögufrægar byggingarnar blasa við, sjávarsíðan og rómverskar rústirnar þurfa til dæmis ekki að kosta neitt nema athygli og aðdáun.

Þeir sem vilja sjá meira, ættu að skoða þjóðgarðinn Brijuni en þetta er ómissandi viðkomustaður fyrir náttúruunnendur. Brijuni er í raun eyjaklasi sem er aðgengilegur frá borginni með stuttri bátsferð en þegar þangað er komið er um að gera að njóta umhverfisins með hjólaferð, á göngu eða fugla- og dýraskoðun. Þar er líka að finna safarígarð, grasagarða og fleiri fornar rústir en aðgangseyrir er í lægri kantinum og vel viðráðanlegur fyrir flesta.

Þá mælum við sérstaklega með Kvikmyndahátíð Pula sem haldin er árlega í hringleikahúsinu. Alþjóðlegar kvikmyndir spila stóran sess á þessari hátíð og hér má upplifa þær á einstakan hátt í þessari stórbrotnu umgjörð undir stjörnunum. Miðaverðið er síðan mjög hóflegt ef miðað er við kvikmyndahátíðir erlendis og þetta er frábær leið til að fá einstaka menningarupplifun út úr ferðalaginu fyrir minna.

Þá er tilvalið að nota tækifærið og skoða meira af Króatíu og jafnvel Ítalíu þegar til Pula er komið. Höfuðborgin Zagreb er til dæmis skammt frá og margir nota tækifærið og taka ferjuna til Feneyja sem er mjög verðug dagsferð.

Matarkista við Miðjarðarhaf

Einn af mörgum kostum Pula er gómsæt matarmenning borgarinnar. Hér má finna óviðjafnanlega blöndu af matargerð Miðjarðarhafsins og Króatíu. Istríaskagi, sem Pula stendur á, er þekktur fyrir framúrskarandi hráefni eins og trufflur, ólífuolíu og vín að ógleymdu fersku sjávarfanginu. Þá ættu Íslendingar að reka upp stór augu þegar þeir fá reikninginn eftir vel útilátna máltíð á frábærum veitingastað því verðlagið hér er sérstaklega hagstætt.  

Við mælum sérstaklega með litlum króatískum veitingastöðum sem bjóða upp á ferska sjávarrétti og þjóðlegan króatískan mat. Þeir fyrirfinnast í öllum verðflokkum en eru oftast ógleymanleg matarupplifun. Fyrir þá sem ætla að spara við sig í mat til að eyða í fjörið er tilvalið að finna sér „pekara“ eða bakarí og smakka gómsætt króatískt „burek“ en það eins konar baka með osta-, kjöt- eða grænmetisfyllingu.

Svo eru markaðirnir í Pula upplifun út af fyrir sig. Allir ættu að kíkja á „Græna markaðinn“ í Pula þar sem bragða má á afurðum úr nærsveitum; ostum, kjöti og olíu. Hér má kynnast svæðinu á einstaklega gómsætan hátt og spara í leiðinni við sig veitingastaðakostnaðinn.

Ævintýrin bíða í útivistarparadís

Pula er ekki eintómar strendur, sólskin og sagnfræðileg undur. Hér má líka finna fullt af ævintýralegum útivistarsvæðum. Adrenalínfíklar og rólegir göngugarpar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því úrvalið er einfaldlega svo mikið.

Fyrir þá sem vilja hamast í sjónum er Kamenjak-tangi frábær staður en hann er í aðeins um hálftíma akstursfjarlægð frá borginni. Þegar þangað er komið blasa við dramatískir klettar, tær sjór og afviknar víkur til að synda og snorkla. Hér má til dæmis fara í ógleymanlegar kajakferðir og kanna fallega strandlengjuna á skemmtilegan hátt. Svæðið er friðað og því er landslagið ósnortið og fullkomið fyrir göngu- og/eða hjólaferðir.

Þeir kjósa frekar að halda til á landi ættu að skoða uppsveitir Pula og þá sérstaklega hjólaleiðirnar því margar þeirra leiða hjólreiðamenn á milli vínekranna og ólífugarðanna í nágrenninu.

A white sailboat by the coast of Pula in Croatia

Lifandi menningar- og næturlíf Pula

Þegar sólin sest yfir Adríahafinu breytist Pula í lifandi borg með skemmtilegri kvöldstemningu. Hér má djamma eins og enginn sé morgundagurinn en hér má líka njóta lífsins í rólegheitunum með gott vínglas undir berum himni við sjóinn.

Gamli bærinn er vinsæll staður á kvöldin þar sem finna má fjölda bara og kráa og strandbarirnir við sjávarsíðuna eru heimur út af fyrir sig. Þá er nóg af tónleikum og hátíðum í boði yfir sumarmánuðina, s.s. Outlook Origins hátíðin sem trekkir að tónlistarunnendur og flytjendur hvaðanæva að.

Falinn fjársjóður í Króatíu

Pula er í raun svona staður sem býður upp á broti af því besta af öllu sem Evrópa gerir best því hér er að finna sólríkar strendur, sögufrægar byggingar, dásamlega matarmenningu og útivistarparadís en í Pula er flest á mjög viðráðanlegu verði og ferðamannafjöldinn mun þægilegri en í flestum stórborgum Evrópu. Hvort sem hugmyndin er að komast í rómantíska paraferð, fjölskyldufrí eða bara ráfa um á eigin vegum, er alltaf góð hugmynd að pæla í Pula.