Skoða efni
A beach in Valencia with blue sky in the background

Valencia

Taktu flugið til Valencia

Á sólríkri austurströnd Spánar er að finna Valencia, líflega og sögulega borg sem býður ferðalöngum upp á fullkomna blöndu af menningu, náttúru, sól og ævintýralegri afþreyingu. Valencia er þekkt fyrir töfrandi byggingarlist, fallegar strendur og Miðjarðarhafssjarma og er í uppáhaldi hjá mörgum ferðalöngum sem vilja gera meira fyrir minna. Þeir sem vilja frábært frí á viðráðanlegu verði ættu að kynna sér Valencia og umhverfi hennar sem kann að skemmta fólki með dásamlegri matarmenningu, litríku næturlífi og sólkysstum ströndum.

Njóttu lífsins á ströndinni frítt!

Eitt af því allra besta við Valencia eru óviðjafnanleg strandlengjan. Þeir sem kjósa að ferðast fyrir minna ættu að njóta lífsins á ströndum Valencia þar sem hægt er að verja heilu dögunum án þess að eyða krónu. Hér eru nokkrar eftirlætisstrendur í Valencia þar sem má sannarlega slaka á í heitum sandi undir sólinni.

Playa de la Malvarrosa

Þetta er frægasta og vinsælasta ströndin í Valencia enda er hún stutt frá miðbænum. Hér er að finna gylltan sand, tæran sjó og nóg pláss til að flatmaga í sólbaði, synda í sjónum eða jafnvel keppa í strandblaki. Pakkaðu nesti og drykkjum eða kíktu á einhvern af fjölmörgum strandbörunum sem bjóða margir ódýrt tapas yfir daginn.

Playa de las Arenas

Playa de las Arenas er önnur frábær strönd þangað sem er stutt að fara úr miðborginni. Þessi strönd er þó rólegri en Malvarrosa en ekki síður falleg. Hér er tilvalið að rölta í rólegheitunum undir pálmatrjánum á göngugötunni og njóta óviðjafnanlegs útsýnisins yfir Miðjarðarhafið.

Sparnaðarráðið: Margar strendur bjóða ókeypis sturtu- og salernisaðstöðu. Þeir sem pakka nesti og muna eftir handklæðinu sínu ættu því að geta notið dagsins í vellystingum á ströndinni án þess að eyða krónu!

Njóttu borgarnáttúrunnar í Valencia á fæti

Valencia er ekki eintómar gullfallegar strendur. Borgin og nærumhverfi hennar eru frábærir staðir til að fara í lengri eða styttri göngur, í guðsgrænni náttúrunni eða görðum borgarinnar og eins og allir vita eru gönguferðir alltaf ókeypis.

Turia-Garðar (Jardín del Turia)

Turia-Garðar ná yfir níu kílómetra en þessi risastóri almenningsgarður er gamall árfarvegur. Garðurinn liggur í gegnum borgina og hér er að finna gott úrval af stígum til að ganga, skokka og hjóla. Í garðinum má skemmta sér á leikvöllum eða njóta þess að skoða fjölbreytta flóruna, gosbrunna og meira að segja framandi byggingar Lista- og vísindasetursins (Ciudad de las Artes y las Ciencias).

Albufera-friðlandið

Um 10 kílómetra suður af Valencia er að finna Albufera-friðlandið en þetta votlendi er þekkt fyrir risastórt lónið og gríðarlega fjölbreytt lífríki. Þetta er frábær staður fyrir fólk sem vill borga minna fyrir afþreyinguna því hér má fara í ógleymanlega göngu, stunda fuglaskoðun sem allir vita að er besta skemmtun eða bara njóta lífsins í fallegri náttúrunni. Aðgangur að garðinum er ókeypis og hér er að finna mikið úrval gönguleiða. Hér er líka eiginlega skylda að fá sér paellu í hádegismat því rétturinn var bókstaflega fundinn upp á þessum slóðum.

Sparnaðarráðið: Taktu strætó frá miðborginni til Albufera. Það er ódýrt og auðvelt og þú sparar stórfé á því að sleppa bílaleigubílnum.

A valley surrounded by trees in Valencia

Hjólaðu um Valencia: Ódýr og skemmtileg skoðunarferð

Valencia er algjör paradís fyrir hjólreiðafólk því hún er bæði flöt og vel skipulögð fyrir hjólastíga. Hjólreiðar eru auðvitað framúrskarandi ferðamáti innanbæjar því þær eru hagkvæmur kostur, umhverfisvænn og svo er þetta bara fyrsta flokks hreyfing og þægileg leið til að kynnast nýrri borg.

Borgarhjólreiðar

Í Valencia er að finna almenningshjólaleigu sem kallast Valenbisi, en það er ódýr leið til að skoða borgina. Hjólaleigan er ódýr en hægt er að leigja hjól fyrir aðeins nokkrar evrur á dag og hjóla svo á milli vinsælla kennileita eins og Lista- og vísindasetursins, Turia-garða og gamla miðbæjarins.

Via Verde de Ojos Negros

Þeir sem hafa metnað fyrir lengri hjólaferðum ættu að skoða „Via Verde de Ojos Negros“ en þetta er ein lengsta útivistarleið Spánar. Þessi fallega leið fer um ógleymanlegt landslag, gamla lestarteina og sjarmerandi smáþorp. Leiðin í heild sinni er um 160 kílómetra löng en það má auðveldlega skoða þann hluta af henni sem tilheyrir Valencia og nágrenni.

Sparnaðarráðið: Lifðu þig inn í ævintýrið með lautarferð, taktu með þér fjölnota vatnsflösku og snarl í hjólaferðina til að forðast að kaupa allar nauðsynjar á kaffihúsum á leiðinni.

Taktu hringinn á golfvellinum fyrir minna

Valencia er vinsæll áfangastaður kylfinganna en finna má nokkra góða golfvelli steinsnar frá borginni. Á mörgum þeirra má fara hringinn á hagstæðu verði, sérstaklega ef ferðast er utan háannatíma eða fólk bókar með góðum fyrirvara. Hvort sem hópurinn er þaulvanur með æðislega forgjöf eða algjörir byrjendur má finna golf fyrir alla í Valencia.

El Saler golfvöllur

El Saler þykir einn besti golfvöllur á Spáni og þá er mikið sagt. Hann er að finna í Albufera-friðlandinu og hér má spila golf við magnað útsýni yfir Miðjarðarhafið og þetta ævintýralega friðland. Golfvöllurinn er ekki sá ódýrasti en hægt er að finna góða afslætti ef bókað er með fyrirvara eða utan háannatíma.

Foressos golfvöllur

Foressos er hagkvæmari valkostur þegar kemur að golfvöllunum en hann er aðeins 20 mínútum frá miðborginni. Þessi 18-holu völlur býður frábæra aðstöðu og er frægur fyrir hagstætt verðlagið sem gerir hann sérstaklega eftirsóknarverðan fyrir þá sem vilja kannski fara fleiri en einn hring í ferðalaginu án þess að eyða öllu í golfið.

Sparnaðarráðið: Fylgstu með sérstökum afsláttarkjörum á pökkum á golfvöllunum þar sem hægt er að kaupa aðgang að vellinum, leigu á búnaði og jafnvel mat með góðum afslætti.

City sight in Valencia

Skoðaðu kennileiti borgarinnar fyrir minna

Valencia er sögufræg menningarborg og mörg kennileiti hennar eru alveg ókeypis eða rukka mjög hóflegan aðgangseyri.

Dómkirkja Valencia

Dómkirkja borgarinnar hýsir sjálfan heilaga kaleikinn og aðgangur er ókeypis suma daga og mjög hóflegur aðra. Við mælum sérstaklega með kirkjuturninum El Miguelete því útsýnið þaðan er virkilega magnað og vel evranna virði sem kostar að klifra upp.

Lonja de la Seda

Lonja de la Seda eða „Silkikauphöllin“ er ekki á heimsminjaskrá UNESCO að ástæðulausu. Byggingin er magnað dæmi um gotneskan arkitektúr og hingað er hálfgerð skyldumæting því hér mætast fegurð, saga og menning, allt fyrir örfáar evrur.

Ókeypis söfn

Þónokkur söfn í Valencia eru ókeypis á völdum dögum eða á ákveðnum tímum dags. Hér má til dæmis nefna listasafnið Museo de Bellas Artes sem er ókeypis á sunnudögum og nútímalistasafnið IVAM sem er ókeypis á föstudagskvöldum.

Sparnaðarráðið: Kíktu á vefsíður helstu kennileita og áfangastaða borgarinnar til að finna sérstök tilboð, daga sem aðgangur er ókeypis og afsláttarkjör fyrir nemendur, eldri borgara eða hópa.

Borðaðu eins og auðkýfingur fyrir minna

Það þarf alls ekki að vera dýrt að fara út að borða í Valencia. Hér má lifa í vellystingum fyrir klink með því að njóta þess besta sem svæðið hefur upp á að bjóða í mat og drykk. Kíktu á tapas-barina og markaðina, veldu mat úr nærsveitum og verði þér svo bara að góðu.

Mercado Central

Markaðurinn Mercado Central er einn stærsti og elsti markaður Evrópu. Þetta er frábær staður til að bragða á því besta af svæðinu svo sem osta og kjöt en hér má líka finna gómsætan skyndibita á frábæru verði. Við mælum sérstaklega með spænsku samlokunni „bocadillo“ og að sjálfsögðu tapas-réttunum sem margir básar á markaðinum bjóða sem kosta aðeins brot af því sem svipaðir réttir kosta á veitingastöðum.

Tapas-barir

Tapas-barir eru frábær leið til að smakka sem mest af alvörumat af svæðinu í litlum skömmtum svo hægt sé að komast yfir sem mest í einni máltíð. Oft er hægt að fá drykk og smárétt á tapas-bar fyrir aðeins örfáar evrur. Við mælum með El Carmen-hverfinu sem er þekkt fyrir litríkt næturlífið og úrval tapas-bara.

Sparnaðarráðið: Á mörgum tapas-stöðum má fá hádegisverð á sérstökum afslætti eða velja „menu del día,“ eða matseðil dagsins sem er oft sérvalið úrval af smáréttum á betra verði.

Að lokum...

Valencia er draumur allra hagsýnna ferðalanga þar sem er hægt að skemmta sér vel fyrir miklu minna. Ódýr matur og ókeypis afþreying er hér á hverju strái hvort sem fólk vill sóla sig á ströndinni, synda í sjónum, ganga í görðunum eða fara í menningarferð á söfnin. Skelltu þér til Valencia í næsta fríi og mundu bara eftir sólgleraugunum, sandölunum og sólarvörninni!