Skoða efni

Vilníus

Litrík borg í Litháen

Verið velkomin til Vilníus, litríkrar höfuðborgar Litháen sem þykir sannkallaður gimsteinn í Eystrasaltslöndunum. Vilníus er töfrandi og vinaleg höfuðborg en þar búa um 540.000 manns. Þessi sögufræga borg í Austur-Evrópu er full af sögu, menningu og náttúrufegurð. Ber þar helst að nefna gamla bæ borgarinnar, fallegt borgarumhverfið og dásamlegt andrúmsloftið. Vilníus býður gestum upp á ógleymanlega upplifun, ný ævintýri, þægilega stemningu og allt þar á milli.

Skoðaðu gamla bæ Vilníus

Það er ekki að ástæðulausu sem gamli bær Vilníus er á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta ævintýralega svæði er eins og tímaferðalag um gamla leikmynd, fullt af sjarmerandi steini lögðum strætum, þröngum sundum og eldgömlum húsagörðum. Hvert götuhorn er hlaðið sögu og hvarvetna má finna spennandi litlar búðir og sæt kaffihús. Göngutúr um gamla bæinn er upplifun og best er að týnast í smá stund og leyfa borginni að koma sér skemmtilega á óvart. Við mælum þó með því að fólk láti ekki helstu kennileitin fram hjá sér fara, svo sem kastalaturn Gediminas sem trónir yfir borginni og Kirkju heilagrar Önnu, gullfallegrar kirkju í gotneskum stíl sem hefur heillað gesti og gangandi öldum saman.

Litháensk menning í lifandi höfuðborg

En Vilníus er ekki bara gamlar byggingar og aldagömul saga. Hér er að finna lifandi og litríka menningu í skemmtilegri höfuðborg sem ætti ekki að fara fram hjá neinum. Í Vilníus mætast hefðir og nútíminn á hressandi hátt sem er áþreifanlegt í lista-, tónlistar og matarsenu borgarinnar. Kíktu inn á eitt af fjölmörgum söfnum og galleríum til að fá betri innsýn inn í hvaðan Litháen er að koma og hvert hún er að fara. Láttu eftir þér að bragða á hefðbundnum þjóðarréttum eins og gómsætu bakkelsinu og heitum kartöfluréttunum en kíktu svo líka inn á framsæknari veitingastaði til að upplifa Litháen eins og nútímalífskúnstner. Þá er fátt vinsælla í Vilníus en að fara í loftbelgjaflug yfir borgina sem er alveg jafnævintýralegt og það hljómar. Vilníus er eina höfuðborg Evrópu þar sem hægt er að fara í slíkt útsýnisflug og það er sannarlega ógleymanleg upplifun og einstök leið til að kynnast nýrri borg.

Njóttu náttúrufegurðar Litháen

Þeir sem vilja komast aðeins út í náttúruna þurfa ekki að leita langt. Allt í kring er að finna einstaka náttúrufegurð Litháen. Stöðuvatnið Galvė og umhverfi þess er einn vinsælasti áfangastaður heimamanna sem vilja fylla á hugleiðslutankana í guðsgrænni náttúrunni. Hér má liggja á ströndinni í góðu veðri, fara í bátsferð á vatninu eða ganga einfaldlega eftir einhverjum af fjölmörgum gönguleiðum á svæðinu. Þá er ónefndur einn fallegasti kastali heims en hann stendur á Trakai eyju í vatninu. Þeir sem heimsækja Trakai og nágrenni ættu ekki að láta heimsfræga réttinn „kibinai“ fram hjá sér fara sem á rætur sínar að rekja til svæðisins. Göngugarpar ættu að fara beint í Žalgiris þjóðgarðinn og upplifa ótrúlegt umhverfið og útsýnið frá fjölmörgum gönguleiðum á skógi vöxnu svæðinu. Þeir sem hafa tíma fyrir lengri ferðir ættu að leggja leið sína að Kúrlandseiði (Kuršių nerija) en þetta sandöldurif við Eystrasaltið er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður og einstakt náttúruundur á heimsminjaskrá UNESCO.

Hafðu fríið ógleymanlegt í Vilníus

Þótt Litháar séu vinaleg þjóð og Vilníus full af gestrisni, er sannarlega ekki verra að vera Íslendingur í Litháen. Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og því gleyma Litháar ekki. Hvort sem hugmyndin er að rölta um sögufræg stræti, skoða lifandi listasenuna eða bragða á nýjum upplifunum er úrvalið í Vilníus nánast ótæmandi. Mundu bara að spjalla við heimamennina í leiðinni því þeir eru sannarlega stórmerkileg þjóð með ævintýralega sögu.