Skoða efni
A beach and blue ocean, Antalya Turkey

Antalya

Ævintýraborgin Antalya í Tyrklandi

Dreymir þig um frí á sólríkri strönd í borg sem er svo sneisafull af sögu og menningu að það er óhjákvæmilegt að snúa aftur og líklega aftur og aftur? Þá er strandborgin Antalya á suðurströnd Tyrklands eitthvað fyrir þig. Strandlengjan á sunnanverðu Tyrklandi sem snýr að Miðjarðarhafinu er oft kölluð „tyrkneska rivíeran“ og hér er sannarlega gott að lifa. Svæðið er þekkt fyrir frábæra blöndu af náttúrufegurð, spennandi afþreyingu, sól, hita, menningu og einhverjum besta mat sem völ er á. Kynntu þér áfangastaðinn Antalya og gríptu svo beint flug á frábæru verði fyrir fríið.

Af hverju Antalya?

Gullfallegar strendur og kristaltær sjór tyrknesu rivíerunar

Antalya er fyrst og fremst fræg fyrir guðdómlegar strendurnar. Borgin státar af rúmlega 300 sólardögum að meðaltali á ári og hér er því sólarvörn og sandalar staðalbúnaður fyrir Íslendinga. Hvort sem þú vilt lifandi strandmenningu með alla mögulega þjónustu eins og á Konyaalti-strönd eða kyrrðina og friðinn á Lara-strönd finna allir strönd við sitt hæfi til að slaka á, synda, sofna undir sólhlíf yfir góðri bók eða hamast í sjónum í skemmtilegu vatnasporti.

Menningarundrið Antalya

Antalya er ekki bara sól og sandur. Þessi heillandi borg er full af sögu og hér er allt morandi í merkilegum minjum og spennandi söfnum. Ekki missa af rómverska hringleikahúsinu í Aspendos sem er skammt frá borginni eða fornu borginni Perga sem á rætur sínar að rekja til bronsaldar. Þá ættu fosselskandi Íslendingar að fara í samanburðarkönnun að Düden-fossum sem falla tilkomumiklir beint út í Miðjarðarhaf.

Allar sögufrægar borgir toppa sig í elsta borgarhlutanum sem í Antalya kallast Kaleiçi-hverfið. Hér má verja heilu dögunum í að ráfa um steinlögð stræti, skoða fallegt handverk og kíkja í krúttlegar búðir.

Instagramið mun líklega fyllast af myndum af hverju götuhorni því stemningin í þessu tímaferðalagi er áþreifanleg.

Framúrskarandi matarmenning Tyrklands

Í tyrknesku borginni Antalya ættu matgæðingar að vera í essinu sínu því það er engin tilviljun að tyrknesk matargerð nýtur vinsælda um allan heim. Borgin stendur auk þess við Miðjarðarhafið sem er rómuð matarkista og ferskt sjávarfangið er hér allsráðandi. Matarmenningin er fjölbreytt en við mælum sérstaklega með meze (tyrkneskt tapas), safaríkum kebab og að sjálfsögðu sjávarfanginu á litlu veitingastöðunum. Ekki missa af „pide“ sem er tyrknesk pítsa og svo er baklava augljósi valkosturinn í eftirrétt á þessum slóðum.

Útivistarævintýri í nágrenni Antalya

Ævintýrafólkið ætti ekki að þurfa að láta sér leiðast í Antalya. Hér má finna gullfallegt landslag og gönguleiðir í Taurus-fjöllum og hægt að finna úrval dagsferða með leiðsögn frá Antalya. Gönguleiðin Likya Yolu er mögnuð leið með fram tyrknesku strandlengjunni sem fer um framandi landslag og fornar minjar. Hvað með að sjá landið úr loftbelg eða skella sér loksins á köfunarnámskeið? Siglingar, jeppaferðar og allt fyrir adrenalínfíkla er líka mjög vinsælt og aðgengilegt í Antalya. Og svo er það golfið...

Golfvellir á heimsmælikvarða

Í og við Antalya er að finna ótrúlegt úrval af mögnuðum golfvöllum og hér hafa verið haldin mörg alþjóðleg golfmót. Bærinn Belek er í um hálftíma akstursfjarlægð frá Antalya og þar er úrvalið af fallegum og framúrskarandi golfvöllum lygilegt enda hefur bærinn verið nefndur besta golfsvæði Evrópu af alþjóðlegu golfsamtökunum IAGTO. Í rauninni geta kylfingar á öllum getustigum fundið eitthvað við sitt hæfi á svæðinu og í öllum verðflokkum, allt frá ódýrum tíma á þægilegum byrjendavelli við gullfallegt útsýni í fullkomnu veðri yfir í ógleymanlega upplifun á heimsmælikvarða sem verður seint metin til fjár.

Besti tíminn til að heimsækja Antalya

Antalya er þurr, heit og sólrík og fullkominn áfangastaður frá apríl fram í fyrri hluta nóvember fyrir sólþyrsta Íslendinga með viðvarandi hroll. Við mælum þó sérstaklega með vorum og haustum fyrir þá sem vilja mildari útgáfu af hitanum og sleppa í leiðinni við helsta mannfjöldann yfir vinsælustu sumarmánuðina.

A beach and blue ocean, Antalya Turkey

Gistimöguleikar í öllum verðflokkum

Antalya nýtur sívaxandi vinsælda sem ferðamannaparadís og því er úrvalið af gistingu mikið og hægt að finna góða valkosti í öllum verðflokkum. Hvort sem hugmyndin er að dekra við sig á lúxushóteli með heilsulind og herbergisþjónustu eða sleppa ódýrt frá fríinu með heimagistingu eða huggulegum bústað ætti verðmiðinn að koma skemmtilega á óvart.

Einstök og ómissandi upplifun í Antalya

Sædýrasafnið

Sædýrasafnið í Antalya er eitt það stærsta sinnar tegundar í heimi og hingað er nánast skyldumætinga fyrir alla ferðamenn í borginni. Þetta er að sjálfsögðu frábær áfangastaður fyrir alla fjölskylduna en hér má stíga inn í ævintýralegan og töfrandi heima, fullan af framandi sædýrategundum. Ekki missa af einstakri upplifun í sérstaklegan löngum útsýnisgöngum þar sem hægt er að komast í ótrúlegt návígi við fjöldan allan af merkilegum sædýrum.

Gamli bærinn Kaleiçi

Öll ættu að hafa gaman af göngutúr um Kaleiçi þar sem fornar minjar og nútímasjarmi mætast í einu dásamlegu hverfi. Hér er tilvalið að láta sig týnast í þröngum og steini lögðum strætunum og versla sér gullfallegt handverk og fylgjast með mannlífinu yfir góðum kaffibolla á vel völdu torgi. Sagan er áþreifanleg og þetta er eins konar tímaferðalag fyrir öll skynvitin. Ekki missa af hliði Hadrians frá 2. öld sem er eitt frægasta kennileiti borgarinnar.

Tyrknesku böðin

Hvað jafnast á við íslenska sundlaug? Mögulega tyrkneskt bað. Það þýðir ekkert að ferðast til Tyrklands án þess að gefa sér stund í alvöru tyrknesku baðhúsi. Hér snýst allt um að slaka á, gufa sig niður og splæsa í eins og eitt heilnudd. Það eru eiginlega engar líkur á að þú sjáir eftir þeirri ákvörðun.

Fullkomið frí

Antalya býður gestum upp á fullkomna blöndu af afslöppun og ævintýrum, sögu, menningu, sól og strönd. Hér er maturinn óviðjafnanlegur, sólin óstöðvandi og verðið hagstætt. Gerðu meira fyrir minna og njóttu betur í fríinu í Antalya í Tyrklandi.

A beach and blue ocean, Antalya Turkey