Skoða efni

Stokkhólmur

Ódýrt flug til Stokkhólms

Feneyjar norðursins

Stokkhólmur er oft kölluð „Feneyjar norðursins“ enda liggur borgin á eyjaklasa sem telur heilar 14 eyjar. Áin sem rennur um og í gegnum borgina gefur henni sérstakan blæ sem minnir einna helst á síkin í Feneyjum. Fáar borgir komast svo með hælana þar sem Stokkhólmur hefur tærnar í byggingalistinni en hér er að finna einstaka blöndu af sögufrægum byggingum og framúrstefnulegum arkitektúr. Gamli bærinn Gamla Stan er söguleg miðja borgarinnar og sneisafull af augnakonfektum og vinsælum ferðamannastöðum. Byggingarnar eru litríkar og virðulegar og hver annarri fallegri. En Stokkhólmur er ekki bara sæt á að líta, þetta er lifandi og litrík stórborg og henni fylgir þessi einstaka afslappaða sænska stemning sem Svíar kalla „fika“.

Með popp og prakt

Það leikur enginn vafi á því að frægasta hljómsveit Svíþjóðar fyrr og síðar er að sjálfsögðu ABBA og Stokkhólmur heiðrar þessa 20. aldar poppmeistara sína með heilu safni sem er tileinkað hljómsveitinni. Sýningarnar eru bæði fræðandi og skemmtilegar og hér er m.a. hægt að dansa með tölvugerðum eftirlíkingum hljómsveitarmeðlima.

Og Stokkhólmur fylgir þessari menningararfleifð sinni eftir með frábæru næturlífi. Hvort sem hugmyndin er að dansa fram á morgun á skemmtistöðunum, sötra á framúrskarandi hanastélum á gullfallegum bar eða slamma við þungarokk á kránni finna allir eitthvað við sitt hæfi hér. Um helgar stendur svo djammið yfir frá eftirmiðdegi fram á næsta morgun hjá þeim allra metnaðarfyllstu og þá borgar sig líka að vera vel nærður. Stokkhólmur skarar einmitt fram úr í matarmenningunni því alþjóðlegt úrval mætir metnaðarfullri matargerð á fjölmörgum veitingahúsum borgarinnar. Poppið og glimmerið á síðan fágaðri hlið í fallegri skandinavískri hönnun og list sem er hvarvetna í Stokkhólmi. Héðan er nánast ómögulegt að fara án þess að hafa fundið a.m.k. einn verðmætan fjársjóð sem mun prýða fötin eða heimilið um ókomna tíð.

Stokkhólmur er verðugur áfangastaður fyrir alla sem vilja skemmtilegt og vinalegt borgarfrí í fallegu og einstöku umhverfi.