- Blogg
Hvað er í matinn í Marrakesh?
Hvað er í matinn í Marrakesh?
Maturinn í Marrakesh er einstök og litrík kryddblanda úr réttum frá Miðausturlöndum, Afríku og Miðjarðarhafinu sem þú finnur hvergi annars staðar í heiminum. En hvað á að borða í Marrakesh snýst um fleira en bara það sem er sett á diskinn. Matarmenningin er oft lykill að þjóðarmenningunni og hér má læra margt og mikið um Marokkó með því að ráfa um matarmarkaðina og borða alvörumat heimamanna við hvert tækifæri.
Matargerðarlist Marokkó endurspeglar ríkulega íbúaflóru landsins og dregur einkenni sín frá frumbyggjunum berbum, Aröbum, Spánverjum og Frökkum. Mikið af því sem fyrirfinnst á matseðlum veitingastaðanna á rætur sínar að rekja til aldagamallar hefðbundinnar matargerðarlistar. Helstu réttir eru kjötréttir með lambi eða kjúklingi eða nýveitt sjávarfang en flestir eru þeir afar litríkir og ilma af þessum einkennandi kryddum Marokkó. Brauðið er svo alveg sérstakur kafli sem fylgir nánast öllum réttum og er ávallt nýbakað. Grænmetisætur finna ávallt skjól í hinum sívinsælu „tagine“ og kúskús réttunum sem oftar en ekki eru í boði án dýraprótíns.
Margir réttir í Marokkó eru tengdir ákveðnum svæðum en í ferðamannavænu borginni Marrakesh má finna það allra besta frá hverjum landshluta. Matur er líka einstaklega ódýr hér svo það margborgar sig að bragða á öllu sem hugurinn girnist.
Hér förum við yfir nokkra gómsæta marokkóska rétti sem við mælum eindregið með því að fólk smakki í næstu ferð til Marrakesh.
Tagine - Marokkóskir pottréttir
Ef þú prófar bara einn hefðbundinn marokkóskan rétt skaltu velja „tagine“. Þessi bragðmikli pottréttur er nefndur eftir leirílátinu sem hann er eldaður og borinn fram í. Keilulaga leirlokið er jafntáknrænt fyrir Marokkó og Fez-hatturinn.
Algengustu tagine-réttirnir eru kjöt eða fiskur með grænmeti og ávöxtum eins og apríkósum, sveskjum, sítrónu og ólífum. Grænmetisútgáfur með sætum kartöflum og kjúklingabaunum eru líka vinsælir valkostir. Alvöru tagine er soðinn yfir viðarkolum og tekur sinn tíma því hvelfingin fangar gufuna og heldur bragðmiklum vökvanum í pottinum, en þessi tækni var þróuð á svæðum þar sem vatnsbirgðir voru (og eru) takmarkaðar. Ef þú pantar þér tagine og rétturinn er mættur á borðið augnabliki síðar var hann annaðhvort tilbúinn áður en þú mættir eða bara settur í tagine til sýnis!
Kúskús
Kúskús er svo mikilvægt menningarfyrirbæri í Norður-Afríku að það er á lista UNESCO yfir „óáþreifanlegan menningararf“ ásamt franska snittubrauðinu. Kúskús er í raun símiljugrjón (já, það er íslenska orðið yfir semolina) og er yfirleitt gufusoðið og borið fram með grænmeti, oftast kartöflur eða gulrætur, í mildu soði. Þetta er einfaldur en seðjandi réttur sem er oft listilega fallega borinn fram.
Pastilla-bakan
Þessi marokkóski réttur kemur stöðugt á óvart. Þetta er baka með kjöti eða sjávarfangi sem er pakkað inn í deig og þakin flórsykri. Upprunalega var ávallt dúfa í bökunni en í dag er rifinn kjúklingur líklegasta hráefni (sem getur verið sætur) eða sjávarfang. Þetta er frábær réttur til að deila í forrétt.
Harira
Hver vill ekki verða saddur af gómsætum mat fyrir klink? Þessi bragðmikla rauða súpa er gerð úr tómötum, linsubaunum, kjúklingabaunum, hrísgrjónum og harðsoðnum eggjum ásamt ferskum kryddjurtum. Þetta er seðjandi og bragðmikil máltíð sem fæst yfirleitt á kaffihúsum og götustöndum fyrir um það bil evru. Harira er oft máltíðin sem múslímar borða eftir föstu í Ramadan og hver fjölskylda á sína eigin sérstöku leyniuppskrift.
Mezze
Á mörgum veitingastöðum er boðið upp á marga litla salatdiska á meðan beðið er eftir matnum sem var pantaður en einnig er oft hægt að panta slíkt úrval til að deila. Þetta eru gómsætar grænmetissalatblöndur sem eru bornar fram með fersku brauði (khobz). Við mælum sérstaklega með öllu sem gert er úr eggaldini í þessum réttum og ólífur úr nærsveitum eru að sjálfsögðu ómissandi. Mezze-salöt eru í flestum tilfellum veganfæði og frábær valkostur fyrir grænkera.
M’smen
Þetta er marokkóska útgáfan af crepe-pönnukökunni en þetta smjörkennda flatbrauð er sérstaklega gómsætt þegar það er löðrandi í hunangi. Þetta er mjög ofarlega á listanum yfir það allra besta sem hægt er að fá í morgunmat í Marakkesh og er yfirleitt í boði í morgunverðarhlaðborðum á hótelum og gistiheimilum.
Berber-egg
Þessi gómsæti gufusoðni eggjaréttur með steiktum tómat og papriku er oftast kallaður „shakshuka“ og borinn fram með spínati. Þarftu að vita meira? Já, kannski að þetta er frábær valkostur í síðbúinn morgunverð.
Kofta kebab
Kjötætur á flandri seint að kvöldi á mörkuðunum ættu að grípa eitt (eða fleiri) svona kjötspjót með kryddjurtum því þau bragðast hvergi betur. Það er eins og einhver hafi tekið frábæra kjöthleifsuppskrift og sagt: „Þetta er frábært en hvernig get ég gengið með þetta í höndunum?“ Svarið er kebab. Það mætti jafnvel færa rök fyrir því að svarið við flestum spurningum sé kebab.
Klhea
Þetta dásamlega gamla kjöt sem er eldað sérstaklega upp úr fitu á rætur sínar að rekja til Fez og þykir mesta lostæti. Því er oft bætt við súpur og eggjakökur og er ómissandi upplifun fyrir kjötætur og lengra komna.
Kjammar og sniglasúpa
Er metnaður í mannskapnum? Leitið að matarstöndum við Jemaa el-Fna markaðinn sem selja sniglasúpu en það er afar vinsælt snarl á þessum slóðum. Þá geta Íslendingar sem sakna sviðakjammanna heima prófað að leita að þeim á þessum slóðum en hér eru þeir yfirleitt bornir fram með salti og broddkúmeni. Á meðan flestum þjóðum hryllir við tilhugsuninni ættu Íslendingarnir að una sér vel við að naga utan af hauskúpunum með heimamönnum.
Heimsins bestu appelsínur og döðlur!
Þótt réttirnir séu margir og kryddblöndurnar framandi skal ekki litið fram hjá grundvallaratriðum eins og appelsínum, tangerínum eða döðlunum því þessi unaðslegu hráefni gerast vart betri en hér. Þetta er líka hið fullkomna snarl, fullt af steinefnum, andoxunarefnum og vítamínum!
Myntute
Ekki láta blekkjast ef einhver býður þér marokkóskt viskí. Hér eru múslímar í miklum meirihluta og áfengi er ekki víða haft um hönd. En þær eru fáar máltíðirnar, samkomurnar eða bara aðstæðurnar sem ekki eru innsiglaðar með heitu te. Þegar þú mætir á hótelið? Te. Þegar þú gengur inn í verslun? Te. Hvíld í miðri fjallgöngu? Te. Fersk myntulauf og eiginlega fáránlegt magn af hvítum sykri munu fylgja athöfninni. Hafðu myndavélina tilbúna því oft er framsetningin leikræn og dramatísk þegar hellt er úr mikilli hæð til að láta teið freyða almennilega fyrir virðulegan gestinn.
Að snæða samkvæmt marokkóskum siðum
Þeir sem eru svo heppnir að fá heimboð í mat í Marrakesh ættu ekki að láta það koma sér á óvart þótt engin hnífapör séu á borðum. Oftast er hefðbundin máltíð í Marokkó borðuð með höndunum.
Gestgjafinn lætur þá brauð ganga sem ætti að taka við með hægri hendi og rífa munnbita af brauði til að nota sem eins konar skeið til að fá sér af réttinum sem er borinn á borð. Reynið að nota aðeins þumal og tvo fingur. Það þykir græðgi að nota alla höndina og haldið ykkur við þann hluta réttarins sem snýr að ykkur.
Á veitingastöðum og kaffihúsum þarf fólk mögulega að vera ákveðnara við þjóninn en það á að venjast heima þar sem þeir láta fólk yfirleitt í friði nema kallað sé í þá til að panta eða borga. Það er engin skylda að gefa þjórfé en það er algengt að gestir skilji eftir nokkur dírhöm í þjórfé og það er alltaf vel þegið.
Góða ferð og verði ykkur að góðu!