Skoða efni
Paella í pönnu á boðstólnum í Alicante
18. Mar 2022

Matarmenning og munaður í Alicante

Costa Blanca strandlengjan er fullkominn staður til að finna sér eitthvað nýstárlegt og gómsætt að borða hvort sem hugmyndin er að detta inn á lítinn matbar eða panta lúxusupplifun á Michelin-veitingastað.

Þótt þetta landsvæði hafi alltaf verið þekkt fyrir frábæra matarmenningu er Alicante ein skærasta matarstjarna Spánar.

Hinn víðfrægi spænski réttur paella kemur frá svæðinu norður af Alicante og matarkistan sem Miðjarðarhafið er þekkt fyrir er hér á heimavelli í þessum sérstaka strandbæ.

Hrísgrjónaréttir með saffrani, nýveiddur smokkfiskur og turrón-núggat úr möndlum og hunangi eru allt góðgæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara í þessari sólbökuðu borg á suðurströnd Spánar.

Út að borða í Alicante

Þeir sem vilja gott úrval og stuttar vegalengdir ættu að fara beint í sögulega hluta borgarinnar, svæðið í kringum bryggjuna, El Postiguet ströndina, Explanada göngugötuna og dómkirkjuna.

Hér má finna þéttasta úrvalið af krám og veitingastöðum þar sem hægt er að hoppa á milli tapas-staða eða njóta þess að fá sér drykk og snarl á milli mála auk þess að snæða hádegisverð eða kvöldverð á milli skoðunarferða og áfangastaða.

Aukabónus á mörgum stöðum á þessu svæði er magnað útsýni yfir Miðjarðarhafið.

Tapas-réttir á borði í Alicante
Götubás og matsala í Alicante

Bestu veitingastaðirnir í Alicante

Veitingastaðir Alicante bjóða nánast allt milli himins og jarðar hvort sem fólk vill klassíska tapas-rétti eða ítalska matargerð á heimsmælikvarða. Hér eru nokkrir frábærir veitingastaðir sem við mælum sérstaklega með í Alicante.

La Taberna del Gourmet

Tapas-smáréttir eru stórstjörnurnar á matseðli La Taberna del Gourmet en þessi huggulega krá býður líka gestum upp á sérstakt veitingasvæði þar sem hægt er að panta stærri rétti af matseðli. Svæðið er rómað fyrir grænmetisframleiðslu og því mælum við með pönnusteikta grænmetinu, steiktu þistilhjörtunum og aspas í sósu.

Dársena

Það er frábær endir á góðum degi á ströndinni að borða kvöldmat á hafnarsvæðinu. Dársena sérhæfir sig í hrísgrjónum og hrísgrjónaréttum. Forréttirnir eru í anda borgarinnar og við mælum með þorskinum, smokkfisknum og rækjunum. Aðalréttirnir eru ekki síður ljúffengir en þar ber helst að nefna hrísgrjón með fiskisoði, rækjur, smokkfisk og risarauðrækju.

Spennandi?

Skoða flug til Alicante

Finna flug

Nou Manolin

Dæmigerð veitingaupplifun í Alicante er rúmgóður bar sem býður æðislega smárétti og eldhús sem vinnur svo náið með barnum að það má varla á milli sjá hverjir eru barþjónar og hverjir kokkar. Nou Manolin og nýi systurveitingastaðurinn og tapas-staðurinn, Piripi, eru frábær dæmi um þessa stemningu. Við mælum sérstaklega með eggjaréttinum „huevos rotos“ og hrísgrjónameðlætinu sem kemur í þremur útgáfum: rjóma, súpu og þurr.

Tribeca Music Bar

Þeir sem vilja ódýran en ljúffengan valkost ættu að kíkja á Tribeca nærri hinni gullfallegu göngugötu Explanada d'Espanya. Tónlistarbarinn Tribeca (Tribeca Music Bar) býður notalega stemningu, frábæra tónlist og æðislega hamborgara. Það er vel þess virði að kíkja á Tribeca sem á sér meira en 40 ára sögu. Hér er gott úrval af víni og drykkjum og samlokum í alls kyns útfærslum auk gómsætra hamborgaranna.

Götumatur í Alicante

Miðborgarmarkaðurinn (Mercat Central d'Alacant) er frábær valkostur fyrir þá sem vilja borða heilsusamlega og ódýrt á ferðinni í Alicante. Markaðurinn er sneisafullur af sölubásum sem selja ferskar afurðir úr nærsveitum þar sem margir bjóða upp á bita til að smakka og hægt er að smakka sér leið að réttu máltíðinni.

Íslendingar á ferð og flugi þurfa margir að fylla á sína innri pylsu og þá mælum við sérstaklega með La Folie Hot Dog. Pantið Frídu Kahlo pylsuna fyrir mexíkóskt pylsuferðalag eða Jókerinn til að taka Ameríku á þetta.

 Churrera Santa Faz er síðan frábær valkostur fyrir æðislegt churros-bakkelsi enda er Alicante úrvalsstaður fyrir gott churros og það borgar sig að fá stóra skál af heitri súkkulaðisósu með.

 

Góð ráð fyrir sælkera í Alicante

  • Smakkið á einhverjum af úrvalsvínum svæðisins á Bernardino. Svæðið umhverfis Alicante er rómað fyrir víngerð og í Parcent, norður af borginni, framleiðir Bodegas Gutiérrez de la Vega vín úr muscat- og monastrell-vínberjum. Vínbúðin Bernardino selur flöskur af Casta Diva Rojo y Negro og Casta Diva Moscatel Blanco Seco, tvö vinsælustu vín þessa framleiðanda.
  • Þeir sem ferðast með hund (sem er að sjálfsögðu draumur allra ferðalanga) eða sakna bara hundsins síns heima á Íslandi ættu að fara beint á Sip & Wonder sem er kósí kaffihús og pönnukökustaður og eina kaffihúsið í Alicante þar sem hundar eru velkomnir. 
  • Besta paella í bænum að okkar mati er ekki að finna á vinsælustu og mest áberandi ferðamannastöðunum heldur á Casa Ibarra. Þótt staðurinn sé falinn flestum ferðamönnum er oft löng röð af heimamönnum hér en biðin er vel þess virði.
  • Ekki gleyma að smakka turrón sem er sérstakt núggat sem er talið hafa verið fundið upp í Jijona af Márum. Jijona er þekkt um allan heim fyrir mjúkt núggatið sem fæst með mörgum bragðtegundum, s.s. möndlum, þurrkuðum ávöxtum og súkkulaði. Núggatið frá Alicante er stífara og gert úr hunangi og möndlum. Það er vinsælt jólakonfekt en það er líka frábært í rjómaís.

 

Að lokum

Mættu með góða matarlyst og opinn huga og smakkaðu á sem flestum réttum á rápinu um Alicante.

Spennandi?

Skoða flug til Alicante

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Ódýra leiðin til Feneyja


Afþreying í Alicante