- Blogg
Ódýra leiðin til Toronto
Ódýra leiðin til Toronto
Toronto á það sameiginlegt með mörgum stórborgum Norður-Ameríku að það er auðvelt að missa sig í úrvalinu og eyða um efni fram þegar allt er spennandi og bókstaflega allt er í boði. Og úrvalið í Toronto er einstaklega spennandi því hér ræður fjölmenningin ríkjum enda um það bil helmingur íbúa af erlendu bergi brotinn. Fyrir vikið er fátt sem ekki má finna í Toronto, stærstu borg Kanada og fjórðu stærstu borg Norður-Ameríku en á stórborgarsvæðinu búa um 6,3 milljónir.
Þessi litríka heimsborg með glæsileg háhýsin, ævintýralegt næturlífið, heimsfrægu söfnin og endalausa útivistarmöguleika er sívinsæll áfangastaður fólks frá öllum heimshornum. Þótt það sé auðvelt að eyða hér aleigunni í geggjaðan lúxus og spennandi afþreyingu er ekkert mál að taka ódýrari nálgun á Toronto og skemmta sér konunglega fyrir miklu minna.
1. Skoðaðu High Park
Sumrin í Toronto eru yfirleitt sólrík og veðráttan frábær og þótt veturnir séu kaldari er samt hægt að njóta útivistar í almenningsgörðum borgarinnar sem eru að sjálfsögðu ókeypis. Sá frægasti er High Park, en þangað er um 15 mínútna akstur frá miðbæ Toronto. Þetta er risastór útivistarparadís þar sem er að finna ræktaða garða og skóglendi, íþróttavelli og aðstöðu til að fara í sólbað, lautarferðir og allt þar á milli.
Í High Park er líka að finna tjörn, dýragarð, veitingastað, völundarhús og frábærar göngu- og hjólaleiðir. Það er vinsælt að hlaupa í garðinum á sumrin og skíða á veturna en á haustin mæta allir með myndavélina á lofti til að ná litríkum laufskrúðanum á mynd.
Heimilisfang: 1873 Bloor St W, Toronto, ON M6R 2Z3, Kanada
Vefsíða: https://www.highparktoronto.com/
2. Kíktu á St. Lawrence-markaðinn
Toronto er ekki bara fallegir skýjakljúfar og nútímahönnun því það er líka hægt að finna gullfalleg söguleg svæði hér. St. Lawrence-markaðurinn er einn slíkur staður en hér er að finna antíkmarkað, opið svæði með yfir 120 sölubásum og gríðarlega flóru af matsölu.
Aðgangur að St. Lawrence-markaði er að sjálfsögðu ókeypis en gestir ættu ekki að láta efri hæðina fram hjá sér fara þar sem er að hægt að fræðast um menningu og sögu borgarinnar. Útisvæðið er síðan sérstaklega sjarmerandi og frábær staður til að grípa ódýran og gómsætan götumat.
Heimilisfang: 93 Front St E, Toronto, ON M5E 1C3, Kanada
Vefsíða: http://www.stlawrencemarket.com/
3. Röltu um Distillery District
Þeir sem eru á ferðinni um miðborg Toronto ættu að koma við í hverfinu Distillery District. Þetta er frábært hverfi sem áður hýsti bruggverksmiðju borgarinnar en í þessum hlöðnu og sjarmerandi 19. aldar byggingum er nú að finna eitt mest spennandi svæði Toronto sem er oft nefnt helsta lista- og menningarhverfi Kanada.
Í Distillery District er að finna mikinn fjölda sérverslana sem selja m.a. kanadíska hönnun og tísku, frábær kaffihús, bakarí, leikhús og gallerí. Það er æðisleg stemning að rölta um þessar götur og hún er í þokkabót alveg ókeypis.
Heimilisfang: Distillery DistrictToronto, ON, Kanada
4. Kíktu á ókeypis tónleika í óperunni
Kanadíska Óperan á aðsetur í Toronto, nánar tiltekið í tilkomumikilli byggingu Four Seasons Centre for the Performing Arts. Toronto er þekkt fyrir lista- og menningarlífið en óperan er einn af hápunktum þess og hún býður reglulega upp á ókeypis tónleika.
Að loknum framúrskarandi tónleikum sem kostuðu ekki neitt er síðan tilvalið að rölta um Kínahverfi Toronto, almenningsgarðinn Queen‘s Park eða verslunarmiðstöðina Eaton Centre, allt eftir smekk, matarlyst og stemningu.
Heimilisfang: 145 Queen St W, Toronto, ON M5H 4G1, Kanada
Vefsíða: https://www.coc.ca/
5. Skoðaðu þig um í Kensington Market
Kensington Market er ekki markaður eins og nafnið gefur til kynna heldur hreinræktan hipsterahverfi við hliðina á vinsæla Kínahverfi Toronto. Þetta er tilvalinn staður til að leita að gamaldags húsgögnum, gömlum og notuðum fötum og æðislegum götumat. Hér blómstrar að sjálfsögðu listasenan eins og annars staðar í Toronto og hér er urmull af kaffihúsum, bakaríum, ostabúðum, alþjóðlegum veitingastöðum, fallegum húsum og öðru sem hipstera halda almennt upp á.
Eitt helsta aðdráttarafl Kensington Market er líklega dýrlegur götumaturinn og úrvalið af honum en við mælum líka sérstaklega með lifandi tónlist á Poetry Jazz Cafe og götulistamönnunum sem fylla götuhornin alla sunnudaga frá maí fram í október.
Heimilisfang: Kensington MarketToronto, ON, Kanada
Vefsíða: http://www.kensington-market.ca/
6. Sigldu út í Centre Island
Centre Island eða „Miðjueyjan“ er ein af þremur eyjum Toronto og frábær áfangastaður fyrir alla sem vilja upplifa sem mest í Toronto fyrir minna. Það sakar ekki að þetta er frábær útivistarstaður, útsýnið yfir borgina er stórfenglegt og það kostar ekkert að verja deginum hér nema smávægilegt gjald í almenningsferju. Á eyjunni er að finna stórt útivistarsvæði, lítinn skemmtigarð, veitingastaði og þægilega aðstöðu fyrir lautarferðina ef þú vilt frekar maula á nesti á blíðviðrisdögum.
Heimilisfang: Centre Island, Toronto, ON, Kanada
Vefsíða: https://www.centreisland.ca/
7. Slakaðu á á „Ströndum“
Toronto er alvöru heimsborg og stórborg í stærri kantinum en hún leynir líka á sér. Eitt eftirsóttasta hverfi borgarinnar er hverfi sem kallast The Beaches sem mætti þýða sem „Strandir“ á íslensku og alveg eins og íslensku Strandirnar ræður hér ríkjum vinalegur smábæjarfílingur og afslappað andrúmsloft í náttúrufegurð við fallegar strendur. Þetta er æðislegt svæði til að slaka á og hvíla sig á stórborginni á sumardögum og hér er úrval veitingastaða, verslana og kráa til að njóta lífsins.
Almenningssamgöngur í Toronto eru sérstaklega þægilegar og ódýrar og t.d. er hægt að fara með sporvagni 501 úr miðbænum út á Strandir og njóta útsýnisins á leiðinni.
Heimilisfang: The Beaches, Toronto, ON, Kanada
Vefsíða: https://www.destinationtoronto.com/neighbourhoods/eastside/the-beaches/
8. Skoðaðu þig um á Royal Ontario Museum
Royal Ontario Museum er stærsta safn Kanada og eitt af stærstu söfnum heimsálfunnar og ómissandi viðkomustaður allra sem heimsækja Toronto. Aðgangur að safninu kostar á bilinu 1.500 – 2.500 krónur sem er vel þess virði enda fær safnið rúmlega milljón gesti árlega.
Heimilisfang: 100 Queens Park, Toronto, ON M5S 2C6, Kanada
Vefsíða: https://www.rom.on.ca/en
Toronto er frábær áfangastaður í öllum verðflokkum
Heimsins stærstu og bestu borgir bjóða oftar en ekki upp á rándýran lúxus í hæsta gæðaflokki en á sama tíma er hvergi jafnauðvelt að finna ódýrari leiðir til að upplifa eitthvað stórkostlegt, eitthvað glænýtt og eitthvað alveg einstakt. Þetta á að sjálfsögðu við um Toronto, eina mest spennandi stórborg Norður-Ameríku og frábæran áfangastað fyrir alla ferðalanga sama í hvaða verðflokki þeir vilja ferðast. Borgaðu minna og njóttu meira í Toronto í Kanada í ár.