Skoða efni
Útsýni yfir safnaeyjuna í Berlín
22. Apr 2022

Ólík andlit Berlínar

Berlín er einn vinsælasti áfangastaður Þýskalands og Evrópu allrar. Borgin er þekkt fyrir menninguna, arkitektúrinn, fjölbreytileikann og á köflum hrikalega söguna.

En Berlín hefur líka einstakan karakter sem á sér engan líkan í heiminum. Það sem fæstir átta sig á er hversu mörg ólík andlit Berlín hefur. Í Berlín eru nýmóðins borgarhverfi í bland við eldgömul steini lögð stræti, risastórir og gullfallegir almenningsgarðar og goðsagnarkenndir næturklúbbar. Þín upplifun í Berlín getur orðið alveg einstök, eftir því hvaða hverfi þú velur að skoða.

Berlín er risastór borg sem telur 12 svæði eða Bezirk sem skiptast síðan niður í hverfi sem kallast Kiez og hafa hvert sinn einstaka karakter. Eftirfarandi er yfirlit yfir svæðin 12 sem getur hjálpað þegar ákveða á hvar á að gista og hvað á að sjá í Berlín.

Miðsvæðis í Berlín

Mitte

Mitte er hjarta höfuðborgarinnar og hér er mikið um ferðamenn en það er líka mjög góð ástæða fyrir því. Hér er að finna flest af frægustu kennileitum Þýskalands og sögufræga staði, þ.m.t. Brandenburgar-hliðið, Reichstag-ráðhúsið, minnisvarða um Berlínarmúrinn, Checkpoint Charlie landamærastöðina, sjónvarpsturninn, dómkirkjuna, safnaeyjuna og margt, margt fleira. Í Mitte er líka að finna stjórnsýsluhverfið þar sem hægt er að sjá og skoða staðina þar sem einhverjir hrikalegustu atburðir 20. aldarinnar áttu sér stað. Þeir sem þurfa að hvíla sig á stórborgarstemningunni geta alltaf farið í göngutúr eða lautarferð í gullfallegum Tiergarten almenningsgarðinum. Ferðalangar í sinni fyrstu heimsókn til Berlínar vilja eflaust gefa sér góðan tíma í Mitte.

Matarmenningin í Mitte endurspeglar sérkenni þessa svæðis og er því bæði dæmigerð fyrir Berlín og hefur hrífandi úrval stórborgar. Hér má finna hefðbundna þjóðarrétti Þýskalands í bland við rétti frá öllum heimshornum í hæsta gæðaflokki. Við mælum svo sérstaklega með götumat á borð við currywurst og doner kebab í Mitte.

Charlottenburg-Wilmersdorf

Charlottenburg-Wilmersdorf er eitt ríkasta hverfi Berlínar og frábært svæði fyrir þá sem vilja gera vel við sig með dýrri merkjavöru og fáguðum veitingastöðum. Hverfið er þekkt sem eitt fínasta svæði borgarinnar og því er vel við hæfi að hér sé að finna Schloss Charlottenburg, höll í barokkstíl frá 17. öld. Frægasta kennileiti þessa svæðis er þó án efa minnisvarðinn og kirkjan Kaiser Wilhelm.

Neukölln

Neukölln er þekkt fyrir að vera eitt fjölbreyttasta hverfi Berlínar. Þessi fjölþjóðlega stemning er áþreifanlegust í matarmenningunni og hér borgar sig að vera með opinn huga, góða matarlyst og hreina putta fyrir gríðarlegt úrval af nýstárlegum og framandi götumat. Neukölln hefur lengi laðað að sér innflytjendur, listamenn og stúdenta og fyrir vikið er einhvern veginn opnara og afslappaðra andrúmsloft í hverfinu en í Mitte sjálfri og hér er aragrúi af litlum og skemmtilegum búðum, kaffihúsum, börum og galleríum.

Friedrichshain-Kreuzberg

Friedrichshain og Kreuzberg eru af flestum talin bóhemahverfi Berlínar þar sem pönk, listir og allt sem býr á jaðrinum blómstrar. Hverfið er í raun tákn borgarinnar fyrir sögulegan uppreisnaranda og framsækni en með auknum fasteignaáhuga í hverfinu hafa hvössustu brúnirnar vissulega mýkst. Þar sem Berlínarbúar háðu einu sinni öflug mótmæli gegn yfirvöldum við fall Berlínarmúrsins standa nú fínustu gallerí, sprotafyrirtæki í tæknigeiranum og hugguleg kaffihús. Hér má þó enn finna öfluga skemmtistaðamenningu sem kallar sannarlega ekki allt ömmu sína en Berlín er þekkt fyrir goðsagnakennda næturklúbba og klúbbastandið er hálfgerð þjóðaríþrótt hér. Árið 2016 var úrskurðað fyrir dómstólum að hinn heimsfrægi skemmtistaður Berghain mætti borga lægri skatta (á pari við söfn og leikhús) vegna þess að hér væri ekki einfaldlega verið að bjóða upp á skemmtun heldur mikilvæga menningarupplifun.

Fánar blakta yfir litlum strætum í Mitte í Berlín
Brú yfir Tegeler See í Berlín

Vestur-Berlín

Steglitz-Zehlendorf

Steglitz-Zehlendorf er best þekkt fyrir náttúrulegt umhverfið, þá sérstaklega Grunewald-skóg og Wannsee vatn. Hér er líka að finna Brucke-safnið sem er smekkfullt af myndlist expressjónista og höllina Schloss Glienicke. Brúin Glienicke Brücke yfir ána Havel var eitt sinn helsti staðurinn þar sem Austur- og Vestur-Þýskaland skiptust á handsömuðum njósnurum sínum og í dag er brúin því þekkt sem „Njósnarabrúin“.

Spandau

Hinum megin við ána Havel frá Steglitz-Zehlendorf  liggur Spandau, annað hverfi með mikið af grænum svæðum og útivistarmöguleikum. Hér er tilvalið að stunda hjólreiðar, siglingar, sund og fleira. Spandau er líka þekkt fyrir gamla bæinn Kolk og Zitadelle Berlin sem er gamalt og sjarmerandi virki.

Reinickendorf

Eins og önnur hverfi í Vestur-Berlín er Reinickendorf rólegra og að mörgu leyti huggulegra en miðborgin. Greenwich Promenade er dásamleg göngugata meðfram Tegeler See vatni og þar er hægt að fara í bátsferðir, siglingar og jafnvel á seglbretti. Það er tilvalið að nota tímann í Reinickendorf til að skoða söguleg þorp og söguminjasöfn en mesta aðdráttarafl þessa svæðis er án efa Buddhistisches Haus, elsta búddamusteri í Evrópu.

Tempelhof-Schöneberg

Tempelhof-Schöneberg er lifandi minnisvarði um umbreytingu Berlínar á síðustu áratugum. Regnbogafánar skreyta hér göturnar en hér fer árleg gleðiganga Berlínarbúa fram. Vinsælan flóamarkað er að finna hverja helgi fyrir framan ráðhúsið þar sem John F. Kennedy flutti frægu ræðuna sína og sagði meðal annars: „Ich bin ein Berliner“.

En stærsta og mögulega skemmtilegasta aðdráttarafl Tempelhof-Schöneberg er að sjálfsögðu Tempelhofer Field, fyrrverandi flugvöllur sem nú er orðinn að gríðarstórum almenningsgarði, með flugbrautum! Þessum sögufræga flugvelli var lokað eftir 90 ára þjónustu og honum breytt í almenningsgarð árið 2008. Á þessu svæði sem var eitt sinn mikilvægur staður fyrir nasista hanga nú íbúar og ferðamenn og leika útileiki, grilla og rækta grænmeti.

Inngönguhlið í dýragarðinn Tierpark í Berlín
Veitingastaður við árbakka í Berlín

Austur-Berlín

Pankow

Pankow, og þá helst hverfið Prenzlauer Berg, er talið fjölskylduvænsta hverfi Berlínar en hér er mikið af grænum svæðum, barnasöfnum og verslunum. Í Pankow er líka að finna Schönhausen-höll og stærsta gyðingakirkjugarð Evrópu. Ein vinsælasta afþreyingin í Pankow er að kíkja í Mauerpark-garðinn, þá sérstaklega á sunnudögum þegar hann breytist í gríðarstóran flóamarkað þar sem má gera frábær kaup og finna alls kyns gersemar.

Treptow-Köpenick

Treptow-Köpenick er í sérstöku uppáhaldi meðal náttúruunnenda í Berlín en hér er að finna stærsta svæði skóga og vatna í borginni. Á bökkum ánar Spree er að finna hinn dásamlega Treptower Park og þar er tilvalið að fara í lautarferð, hjóla meðfram ánni eða fara í bátsferð um ána og eyjar hennar. Gamla Köpenick-hverfið er síðan fallegt, gamalt hverfi með sjarmerandi uppgerðum 19. aldar byggingum og steini lögðum strætum og göngutúrarnir gerast varla betri.

Lichtenberg

Í Lichtenberg er að finna Tierpark Berlin, stærsta dýragarð í Evrópu og þann elsta í Þýskalandi og þetta er frábær áfangastaður fyrir alla fjölskylduna.

Lichtenberg er stundum kallað asíska eða kínverska hverfi Berlínar því hér er mikill fjöldi innflytjenda frá Asíu. Við mælum sérstaklega með Dong Xuan markaðnum þar sem er að finna fleiri en 150 sölubása sem sérhæfa sig í vörum frá Asíu og alvöru víetnömskum mat.

Í Lichtenberg er svo að finna sum af bestu söfnum Berlínar og þá er mikið sagt en þar ber helst að nefna Stasi-safnið og Þýsk-rússneska safnið.

Marzahn-Hellersdorf

Marzahn-Hellersdorf er dæmigert fyrir þessa sérstöku blöndu Berlínar af gömlu og nýju. Háhýsin setja tóninn á yfirborð hverfisin en skammt undan er að finna Alt-Marzahn, fullkomlega varðveitt gamalt þorp með vindmyllu og búgarði. Krúnudjásn Marzahn-Hellersdorf svæðisins er Heimsgarðarnir (Gärten der Welt) sem er safn af 10 alþjóðlegum görðum. Heimsgarðarnir opnuðu 1987 en þar er m.a. að finna plöntur, læki, hof og tehús frá menningarheimum Kína, Japan, Kóreu, Balí, Miðausturlöndum og Ítalíu.

Að lokum...

Berlín hefur upp á svo margt að bjóða. Skoðaðu sem flest hverfi til að upplifa fleiri en eina hlið á þessari sjarmerandi og stórkostlegu borg sem leynir á sér.

Spennandi?

Skoða flug til Berlínar

Finna flug
Aerial View of Duesseldorf in Germany
NÆST Á DAGSKRÁ

Dásamlega Düsseldorf


Afþreying í Berlín