Skoða efni
9. Aug 2022

Skíðaferð til Barcelona

Fáar borgir í Evrópu státa af jafnfjölbreyttri afþreyingu og Barcelona. Þessi spænska borg á norðausturströnd Spánar er fræg fyrir stórkostlegar strendur, dásamlega matargerð, fótboltamenningu, katalónskan menningararf og sögufrægan arkitektúr.

 En Barcelona er líka frábær áfangastaður fyrir skíðafólk og alla sem elska vetraríþróttir enda er aðgengi að æðislegum skíðasvæðum mjög gott frá Barcelona. Þetta er líka ein af fáum borgum í heiminum þar sem hægt er að fara bæði á skíði í fjöllunum og í sólbað á ströndinni sama daginn.

 Barcelona er nefnilega skammt frá Pýreneafjöllum þar sem er að finna fjölmörg skíðasvæði á heimsmælikvarða. Brekkur Katalóníu og fjallasýn Andorra kóróna þessa stemningu en hér verður farið yfir nokkur helstu skíðasvæðin nærri Barcelona.

La Molina

Byrjum á elsta skíðasvæði bæði Katalóníu og Spánar, La Molina. Fyrsta skíðalyftan hér var opnuð árið 1943 og svæðið er þekkt fyrir frábær skilyrði. Hér er m.a. að finna stærstu hálfpípu Pýreneafjalla og risastór snjógarðurinn býður líka upp á alls konar afþreyingu fyrir þá sem stunda ekki hefðbundið brun í skíðabrekkunum, s.s. gönguskíði, sleðaferðir, snjóþrúgur eða segway-ferðir í snjónum.

 Megnið af La Molina svæðinu tilheyrir Ceranya-svæðinu sem er í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Barcelona eða fjórir og hálfur tími í rútu. Á þessu svæði hafa verið haldin fjölmörg alþjóðleg skíðamót eins og Alpine Skiing World Cup 2008 og heimsmeistaramótið í brettaíþróttum 2011.

  Gestir í La Molina hafa úr gríðarlegu úrvali að velja þegar kemur að veitingastöðum, kaffihúsum og börum til að halda uppi góðu orku- og hitastigi. Niu de l’Aliga Hut býður stórfenglegt útsýni yfir La Cerdanya dal og er frábær staður til að fylgjast með sólsetrinu í Pýreneafjöllum.

 Á svæðinu er að finna mikið af gistimöguleikum fyrir þá sem vilja dvelja yfir nótt í Pýreneafjöllum. Hér er að finna allt frá einföldum og ódýrum kofagistingum yfir í lúxushótel. La Molina er sannarlega staður sem tekur vel á móti öllum.

La Masella

Á norðurhlið La Tosa fjalls er að finna La Masella skíðasvæðið sem horfir yfir sólríkan Cerdanya dal. La Masella er í aðeins þriggja kílómetra fjarlægð frá La Molina skíðagarðinum. Svæðið telur rúma 74 kílómetra með 65 gullfallegar leiðir, 17 lyftur og hér er meira að segja hægt að renna sér á kvöldin.

 La Pleta snjógarðurinn í La Masella er meistaralega vel gerður staður þar sem er að finna skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Í garðinum er meira að segja þráðlaus nettenging á vissum stöðum svo hægt sé að senda sýnishorn af gleðinni beint á samfélagsmiðlana.

 Jafnvel þótt að lítið snjói er það ekkert vandamál í La Masella því á svæðinu eru fleiri en 400 snjóvélar sem tryggja gott færi í brekkunum kvölds og morgna.

 Úrval af gistingu er frábært í La Masella. Hér er að finna hostel, tjaldsvæði, kofa, íbúðir og gullfalleg hótel. Við mælum sérstaklega með Hotel Torre del Remei, fimm stjörnu hóteli með katalónskum veitingastað og dásamlegum görðum.

 Þetta skíðasvæði hentar öllu skíðafólki en aksturinn frá miðborg Barcelona tekur aðeins tvo klukkutíma.

Port del Comte

Um 150 kílómetra frá Barcelona er að finna Port del Comte skíðasvæðið í Pýreneafjöllum en svæðið telur rúma 42 kílómetra af brekkum fyrir öll getustig.

 Port del Comte státar af 16 skíðalyftum og 37 leiðum en flestar þeirra flokkast undir millistig í erfiðleikastigi. Hér er líka að finna skemmtilegan snjógarð fyrir þá sem vilja koma adrenalíninu á hreyfingu með viðeigandi stökkum og pöllum fyrir bretta- og skíðafólk.

 Þeir sem þurfa að hvíla sig á brekkunum geta skemmt sér konunglega á snjóþrúgum og skoðað fimm ólíkar snjúþrúguleiðir í snævi þöktu skóglendinu.

 Í Port del Comte er að finna frábært úrval af gistingu. Hér má gista í gamaldags sveitabæjum, hótelum, hostelum og bústöðum í grenndinni.

 Það tekur innan við tvo tíma að keyra frá flugvellinum í Barcelona til Port del Comte og þetta er fullkomin staðsetning fyrir þá sem vilja fljótlegt og þægilegt skíðaferðalag í grennd við Barcelona.

Grandvalira

Grandvalira er ævintýralegt skíðasvæði í smáríkinu Andorra. Hér er að finna 210 kílómetra af gullfallegum brekkum fyrir alla fjölskylduna.

 Grandvalira var stofnað árið 2003 þegar tvö elstu skíðasvæði Andorra voru sameinuð í þetta stærsta skíðasvæði Pýreneafjalla. Grandvalira er eitt stærsta skíðasvæði í Evrópa og hér er því nóg við að vera fyrir alla.

 Á svæðinu er að finna 74 skíðalyftir, rúmlega 100 kílómetra af auðveldum brekkum og margt, margt fleira. Hér má t.d. fara á gönguskíði, prófa hundasleða, renna sér á dekkjum og fara í vélsleðaferð.

 Hér má líka renna sér á kvöldin fimmtudaga til laugardaga yfir helsta ferðamannatímabilið á veturna. Snjóbrettafólk ætti að elska snjógarðinn hér með frábæru úrvali af stökkum, pípum og pöllum.

 Matgæðingar ættu að njóta lífsins í Grandvalira því þetta skíðasvæði býður upp á rúmlega 40 veitingastaði. Hér má m.a. gæða sér á réttum frá svæðinu, gæða sér á alvörusteik með úrvalsvíni eða finna frábæra spænska og franska veitingastaði.

 Grandvalira er 200 kílómetra frá Barcelona og aksturinn tekur um tvo og hálfan tíma.

 

Spennandi?

Skoða flug til Barcelona

Finna flug

Baquiera Beret

Þetta er eitt frægasta skíðasvæði Spánar. Baquiera Beret er að finna í Val d’Aran héraði, um 178 kílómetra frá Barcelona. Þetta er eitt stærsta og besta skíðasvæði landsins og státar af 160 kílómetrum af brekkum fyrir skíða- og brettafólk.

 Skíðatímabilið hefst yfirleitt í nóvember og nær út apríl. Hér er að finna kláf og 19 stólalyftur sem flytja alsælt skíðafólk á milli brekkna.

 Þetta er tilvalið svæði fyrir byrjendur og þá sem vilja bæta sig í brekkunum. Í Baquier Beret er að finna skíðaskóla þar sem starfa yfir 200 leiðbeinendur sem allir luma á góðum ráðum og betri tækni fyrir nemendur.

 Hafðu augun opin því skíðastjörnurnar í landsliði Spánar æfa reglulega á svæðinu. Snjókoma er ekki helsta áhyggjuefnið hér því á svæðinu er að finna rúmlega 720 snjóbyssur sem tryggja flennifæri.

 Hér er matur tekinn alvarlega og mikið lagt í hann. Við mælum að sjálfsögðu með hefðbundnum tapas-réttum og kampavíni en af hverju ekki að prófa hérakjöt og snigla? Baquiera Beret er síðan frægt fyrir góða stemningu og næturlífið hér hressir og kætir.

Vallnord

Um 225 kílómetra frá flugvellinum í Barcelona er að finna Vallnord-skíðasvæðið í Andorra. Þetta gullfallega svæði er opið frá desember fram í apríl. Svæðið samanstendur af tveimur pörtum sem tengjast, Pal og Arinsal, en saman telja þeir 93 kílómetra af brekkum eða 54 leiðir sem gestir falla yfirleitt í stafi yfir.

 Í Vallnord er að finna 29 lyftur auk kláfa sem auðvelda allt aðgengi að brekkunum. Hér er líka að finna þrjá skíða- og brettaskóla fyrir öll getustig.

 Fyrir þá sem vilja komast í snjógarðana er úrval af stökkpöllum hér enda er Freeride World Tour keppnin reglulega haldin hér. Þeir sem þurfa að hvíla sig á renneríinu hafa úr ýmsu að velja, s.s. útsýnisflugi í þyrlu eða vélsleðaferðum.

 Á skíðasvæðinu er úrval matstaða og við mælum sérstaklega með réttum sem eiga rætur sínar að rekja til Andorra og nærsvæðisins.

Barcelona Vallnord Mountain Town Andorra
Vall de Nuria Barcelona Ski Slopes

Vall de Nuria

Þeir sem forgangsraða guðdómlegu útsýni ættu að skella sér beint til Vall de Nuria. Svæðið er staðsett í austanverðum Pýreneafjöllunum og liggur yfir einn hæsta tind Ribes-dalsins.

 Fjallasýnin hér er stórbrotin og hægt er að skíða opinmynntur og agndofa yfir þessu útsýni um 11 ólíkar brekkur. Vall de Nuria er líka frábær áfangastaður fyrir alla fjölskylduna því hér er nóg annað að gera en að bruna niður brekkurnar. Hér má fara í sleðaferðir með krakkana, kíkja í útsýnisferð í kláfi, fara á gönguskíði eða jafnvel kafa undir ís!

 Ómissandi afþreying á þessu svæði er Rack Railway lestin. Þetta er eina leiðin inn í Nuria-dal og náttúrufegurðin hér og útsýnið er einstakt en líklega ekki fyrir lofthrædda.

 Það er nóg úrval af veitingastöðum og gistingu á svæðinu en Vall de Nuria er í rúmlega tveggja tíma akstursfjarlægð frá Barcelona.

Vetur í Barcelona

Nú er rétti tíminn til að bóka flug til Barcelona og skipuleggja ævintýralegt vetrarfrí. Njóttu alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða og brunaðu svo í brekkunum í vetur. Það ættu allir að finna skíðasvæði við sitt hæfi í nágrenni Barcelona.

 Hvernig hljómar til dæmis að verja deginum á skíðum og ná svona einum fótboltaleik á Nou Camp um kvöldið? Gerðu eitthvað virkilega spennandi í vetur og skelltu þér til Barcelona.

 

Spennandi?

Skoða flug til Barcelona

Finna flug
Salzburg
NÆST Á DAGSKRÁ

Fjögur frábær skíðasvæði í nágrenni Salzburg


Afþreying í Barcelona