Skoða efni
The turquoise waters off the shore of a beautiful Adriatic beach near Split in Croatia
17. Jan 2024

Stórfenglegar strendur Split í Króatíu

Strandborgin Split í Króatíu hefur marga ómótstæðilega kosti, s.s. gullfallegan sögulegan miðbæinn, litríkt næturlífið, afslappaða menninguna og dásamlegt veðurfarið. En líklega ber þó helst að nefna náttúrufegurðina, sjávarútsýnið og fjölmargar og fjölbreyttar strendurnar. Borgin liggur við austurströnd Adríahafs í Miðjarðarhafi, og aðstæður til strand- og sjóferða eru því eins og best verður á kosið.

Hér förum við yfir helstu strendur borgarinnar ásamt nokkrum skemmtilegum ströndum á nærliggjandi paradísareyjum undan ströndum Króatíu.

Þægindi, náttúrufegurð og fjölbreytileiki

Það er sérstaklega þægilegt að ferðast um Split á fæti og hér má eyða heilu dögunum á rólegu rölti án þess að láta sér leiðast. Á göngu um sólkysst stræti Split enda flestir niðri á strönd enda kallar sjávarútsýnið á mann hvert sem litið er og strendurnar eru mjög aðgengilegar. Þær eru þó mjög fjölbreyttar og hafa allar sinn einstaka karakter og sjarma. Eitt eiga þær allar sameiginlegt en það er kristaltær sjórinn sem laðar til sín alla, hvort sem það eru smábörn á leið í buslið, miðaldra yndissnorklarar eða adrenalínfíklar í yngri kantinum.

People bathing at the famous Croatian beach Kasuni (Croatian: Plaa Kasjuni), by the Adriatic Sea, in Split, Croatia.

1. Miðborgarströndin Bacvice

Frægasta ströndin í Split er án efa Bacvice-strönd. Það tekur aðeins nokkrar mínútur að ganga niður á Bacvice frá Höll Díókletíanusar en þessi stutti göngutúr úr forna rómverska meistarastykkinu er gott dæmi um þetta rúmlega 2.000 ára tímaferðalag sem borgin býður upp á.  

Bacvice býður allt sem hugurinn girnist á sólarströnd, hvítan sand, veitingahús, bari, sólbekki, þjónustu og afþreyingu og þar er alltaf líf og fjör. Vatnið er líka grunnt og því er hún tilvalin fyrir fjölskyldufólk með unga buslara í för. Ef kútarnir, skóflan og sólarvörnin gleymast má alltaf kaupa það við ströndina og hér þarf ekkert að pakka nesti, það fæst allt á Bacvice-strönd. Fyrir þá sem leiðist að liggja í sólbaði er auðvelt að finna sér skemmtilega afþreyingu í sjónum, svo sem að snorkla, leigja sækött eða skoða sig um á hjólabát. En ef sjórinn heillar ekki heldur má alltaf slást í hópinn í eina umferð af leiknum picigin í flæðarmálinu, en það er nánast alltaf einhver að spila picigin á ströndinni í Split. Líklega er eini ókostur Bacvice vinsældir hennar en hér getur verið töluvert af fólki á miðjum degi yfir sumarmánuðina. Góðu fréttirnar eru að fyrir þá sem vilja frið, ró og fámenni er úrval annarra stranda í boði við Split.

Aerial view of the famous Zlatni Rat beach in Bol, on the island Brac off the coast of Croatia

Spennandi?

Skoða flug til Split

Finna flug

2. Znjan-strönd

Znjan-strönd er stærsta strönd Split en hún er bæði gullfalleg og sjórinn lokkandi. Ströndin sjálf er blanda af grjóti, smásteinum og möl og því er hægt að finna fjölbreytta strandastemningu á Znjan. Fín mölin er mjúk og þægileg fyrir þá sem vilja liggja í sólbaði eða láta sig þorna á milli sundspretta. Grófari hlutar strandarinnar eru síðan fullkomnir fyrir afþreyinguna, sérstaklega snorklið, því hér er vatnið kristaltært og lífríkið ríkulegt. Á ströndinni er öryggisgæsla með strandvörðum, sturtur, salerni og allar mögulegar veitingar og þjónusta.

3. Friðsæl fegurð við Kasuni-strönd

Þeir sem vilja endurnærandi kyrrð og afslöppun ættu að halda rakleiðis niður á Kasuni-strönd. Það verða vissulega aðrir á ströndinni í sömu erindagjörðum en hér ræður fyrst og fremst fegurðin ríkjum. Ströndin er umkringd skógi vöxnum hlíðum og minnir einna helst á dæmigerða eyðieyju í ævintýramynd. Umhverfið er stórfenglegt og það er engin tilviljun að Kasuni er oft nefnd fegursta strönd Split. Hér er tilvalið að eyða eftirmiðdegi í að slaka á, synda, ganga og umfram allt njóta.

 

Aerial view at town Trogir, a small tourist town in a suburb of Split, Dalmatia region in Croatia.

4. Bene, strönd sögu og náttúrufegurðar

Helsta útivistarsvæði Split er almenningsgarðurinn og skóglendið Marjan og í Marjan er að finna ströndina Bene. Þetta er fullkominn áfangastaður til að láta líða úr sér í fallegu umhverfi í þægilegri en góðri göngufjarlægð frá miðbænum. Hér má finna sér dúnmjúkan stein að liggja á, skemmtileg kaffihús til að fá sér hressingu og stinga sér til sunds og kæla sig niður á heitum dögum. Fyrir þá sem kjósa sand og sæþotur er Bene ekki besti staðurinn en fyrir þá sem elska náttúrufegurð, kyrrð og ró, sjó og skóg, er varla til betri staður í heiminum.

5. Firule, strönd heimamanna

Ef ferðamennirnir eru orðnir þreytandi á Bacvice má alltaf kíkja á Firule-strönd en hún er vinsælli meðal heimamanna í Split og aðeins í 15 mínútna göngufjarlægð. Hér má finna mjúkan sand, grunnan sjó og gott skjól enda er ströndin vinsæll áfangastaður fyrir barnafólk og þá sem vilja synda í þægilegum sjó og sleppa við mestu öldurnar.

Hér er að sjálfsögðu líka verið að spila picigin í flæðarmálinu öllum stundum. Þótt ströndin sé vinsæl er ekki jafnmikið um þjónustu hér eins og á Bacvice en þó má finna allar helstu nauðsynjar eins og sturtu og salerni og andrúmsloftið er afslappað og þægilegt.

Beautiful beach in Brela near the mountain (Makarska Riviera, Dalmatia, Croatia)

Paradísareyjur undan ströndum Króatíu

Þótt strendur Split séu mun fleiri en þær sem við förum yfir hér eru þær bara byrjunin því skammt frá borginni, undan ströndum Króatíu, er gríðarlegt úrval gullfallegra eyja með löngum lista af ómótstæðilegum ströndum. Þessar eyjur eru oftar en ekki algjör sjarmatröll, fullar af vingjarnlegum heimamönnum, menningarverðmætum og frábærri matargerð. Ferjur ganga reglulega frá höfninni í Split og eru bæði þægilegur, ódýr og öruggur ferðamáti. Hvort sem hugmyndin er að kíkja í dagsferð út í eina eyjuna eða gefa sér lengri tíma í margra daga eyjahopp mælum við sérstaklega með því að fólk láti ekki þessa ævintýralegu eyjar fram hjá sér fara.

Aerial view of the famous Zlatni Rat beach in Bol, on the island Brac off the coast of Croatia

Eyjan Brac - Hvítar strendur og blár sjór

Ferjan frá Split til Brac tekur rétt rúman klukkutíma og tímakaupið gerist vart betra. Brac sjálf er gullfalleg en hún er frægust fyrir ströndina Zlatni Rat eða „Gulltangann“ eins og nafnið myndi útleggjast á íslensku. Þessi einstaka v-laga strönd sem skagar út í fagurbláan sjóinn þykir ein fegursta strönd Miðjarðarhafsins. Hún er svo fögur að hún hefur verið valin sem forsíðustúlkan þegar verið er að selja öðrum heimsálfum ferðir til Evrópu. Ströndin sjálf er úr hvítri, fínni möl, og í bakgrunni er furuskógur af fallegustu gerð. Þótt Zlatni Rat sé stjarnan í sýningunni er Brac sjálf verðugur áfangastaður heim að sækja. Hér er meðal annars að finna rómverskar fornminjar, spennandi veitingastaði og útsýnið er að sjálfsögðu guðdómlegt.

Eyjan Hvar - Sólríkur lúxus og lafnarblóm

Aðeins lengra en Brac er að finna eyjuna Hvar. Ferjan frá Split til Hvar tekur um einn og hálfan klukkutíma en Hvar er einn af þessum áfangastöðum sem gleymist aldrei. Á þessari unaðslegu eyju er að finna frábærar vínekrur, glæsilegar strendur og heilu akrana af lavender eða lofnarblómum. Það mætti segja að Hvar sé hápunktur fyrir öll skynfærin því ilmurinn, bragðið, útsýnið og hitinn mætast hér í einhverri fullkominni sviðsmynd fyrir fríið. Þessum lúxus er líklega sóað á smábörn en hann er tilvalinn fyrir lífskúnstnera í leit að rómantík og afslöppun. Ströndin Dubovica á suðurströnd Hvar er rómuð fyrir fegurð og rómantíska stemningu.

 

 

People swimming off the shore of a beautiful Adriatic beach and lagoon with turquoise water near Split, Croatia

Að lokum

Strendur Split og nágrennis eru jafnólíkar og þær eru margar en þær eiga það þó allar sameiginlegt að liggja við kristaltæran sjó og líkur á fullkomnu veðri eru yfirgnæfandi yfir sumarmánuðina. Pakkaðu sólarvörninni, sundgleraugunum og sæluvímunni, því við spáum því að Split muni heilla þig upp úr sandölunum.

Spennandi?

Skoða flug til Split

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Úrvalsafþreying á Fuerteventura