- Fréttir
89% nýting, 185 þúsund farþegar og tvær nýjar þotur bætast í flotann
89% nýting, 185 þúsund farþegar og tvær nýjar þotur bætast í flotann
Flugfélagið PLAY flutti 184.926 farþega í ágúst mánuði, sem er 70% aukning frá ágúst í fyrra þegar félagið flutti 108.622 farþega. Sætanýtingin í ágúst 2023 var 88,9%, samanborið við 86,9% í ágúst árið 2022. Stundvísi PLAY í liðnum ágúst var 90,1%.
Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í ágúst 2023 voru 22,1% að ferðast frá Íslandi, 35% til Íslands og 42,9% voru tengifarþegar (VIA).
Margir áfangastaðir í leiðakerfi PLAY voru með yfir 90% sætanýtingu í ágústmánuði en þar af voru Prag, Toronto og Barcelona með yfir 95% sætanýtingu.
Meðal hliðartekjur á hvern farþega hafa haldið áfram að aukast, en þær voru 33% hærri í ágúst 2023, samanborið við ágúst 2022. PLAY sér fram á áframhaldandi vöxt hliðartekna á komandi mánuðum.
PLAY tilnefnt sem besta áhöfnin
PLAY hefur hlotið tilnefningu frá bandaríska miðlinum USA Today sem besta áhöfnin. Það er mikill heiður fyrir PLAY að hljóta slíka tilnefningu, aðeins tveimur árum frá fyrsta farþegaflugi félagsins í júní árið 2021. Á meðal þeirra sem hljóta tilnefningu eru flugfélög sem eru þekkt um víða veröld. Þess vegna er tilnefningin mikil viðurkenning á því frábæra starfi sem flugliðar PLAY sinna á hverjum degi við að veita farþegum frábæra þjónustu og gera ferð þeirra bæði örugga og ánægjulega.
PLAY er einnig tilnefnt sem besta lággjaldaflugfélagið af dönsku ferðaverðlaununum Danish Travel Awards. Aftur er PLAY þar tilnefnt ásamt heimsþekktum flugfélögum en dönsku ferðaverðlaunin hafa verið afhent frá árinu 1996.
Fleiri flugvélar og horfur í rekstri
PLAY sér áfram mörg tækifæri á vexti og vinnur að því að stækka flota sinn á næstu árum. PLAY hefur þegar skrifað undir viljayfirlýsingu sem tryggir félaginu tvær nýjar Airbus A320neo farþegaþotur fyrir sumarið 2025. Frekari viðræður standa yfir um stækkun flotans fyrir 2024 og 2025 og verður greint frá niðurstöðu þeirra þegar þeim lýkur.
PLAY er í góðri stöðu nú þegar hausta tekur og veturinn nálgast. Sætanýting er umtalsvert hærri sem og tekjur á hvern farþega frá fyrra ári og eftirspurnin á lykilmörkuðum er sterk. Félagið er hins vegar með augun á hugsanlegum áhrifum verðbólgu og hækkandi framfærslukostnaðar á eftirspurnina yfir veturinn. Það þýðir að erfiðara mun reynast að spá fyrir um horfur á fjórða ársfjórðungi og lengra fram í veturinn, líkt og önnur flugfélög víða um veröld hafa nýverið verið að greina frá.
Eins og fram hefur komið í uppgjörskynningum á undanförnum ársfjórðungum hefur rekstrarafkoma (EBIT) það sem af er ári verið til samræmis við áætlanir stjórnenda sem gerðu ráð fyrir að EBIT afkoma félagsins yrði lítillega jákvæð fyrir árið í heild sinni (FY23).
Rekstrarafkoma (EBIT) það sem af er þessum ársfjórðungi hefur verið mjög góð og umtalsverður rekstrarbati hefur átt sér stað, hvort sem horft er til sama tímabils í fyrra eða síðasta ársfjórðungs. Frá lokum síðasta ársfjórðungs (Q2) hefur flugvélaeldsneyti, sem er langstærsti einstaki kostnaðarliður félagsins, hækkað um fjórðung. Ein af lykilforsendum fyrir afkomuspá ársins var stöðugt eldsneytisverð og mun þessi mikla hækkun, ásamt öðrum almennum kostnaðarhækkunum vegna verðbólgu í heiminum, hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins seinni hluta ársins 2023. Því gerum við ekki ráð fyrir að EBIT afkoma ársins 2023 verði jákvæð eins og áður hafði verið spáð en þó er ljóst að um mjög umtalsverðan viðsnúning í rekstri verður að ræða frá fyrra ári og að lausafjárstaða félagsins verði áfram heilbrigð.
Birgir Jónsson, forstjóri:
„Ágúst gekk mjög vel í flugrekstri PLAY þar sem sætanýting var 89% og stundvísi upp á 90% sem er með því besta sem finnst í fluggeiranum. Við nálgumst nú sumarlok og það er þegar ljóst að við erum mjög stolt af frammistöðunni það sem af er ári. Við sjáum enn tækifæri á markaðiog höfum þess vegna hafið skipulagningu á frekari vexti á komandi árum. Við höfum staðfest tvær nýjar A320neo farþegaþotur sem bætast við flotann árið 2025 og erum í viðræðum um frekari stækkun í nálægri framtíð. Það er jákvætt að við sjáum enn hærri tekjur á farþega samanborið við fyrra ár og betri sætanýtingu nú þegar veturinn nálgast og eftirspurnin er fremur kröftug á flestum lykilmörkuðum. Við leggjum áfram áherslu á að halda kostnaðargrunninum eins lágum og unnt er og að vera sveigjanleg í leiðakerfinu til aðlagast síbreytilegu umhverfi. Okkar frábæra teymi sem starfar hjá PLAY hefur skilað framúrskarandi starfi og þess vegna er ánægjulegt að sjá áhöfnina okkar hljóta tilnefningu frá USA Today. Þegar þetta er ritað var áhöfnin í fyrsta sæti í kosningu á vegum þessa stóra bandaríska miðils. Þetta er glæsilegt afrek fyrir áhöfnina sem hefur aðeins verið að störfum í tvö ár hjá okkar unga flugfélagi.“