- Fréttir
1,5 milljónir farþega árið 2023 og stundvísi á heimsmælikvarða
1,5 milljónir farþega árið 2023 og stundvísi á heimsmælikvarða
Flugfélagið PLAY flutti 114.265 farþega í desember 2023, sem er 53% aukning frá desember 2022 þegar félagið flutti 74.620 farþega. PLAY var með sætanýtingu upp á 76,2% í desember 2023 og af þeim farþegum sem ferðuðust með PLAY í mánuðinum voru 24,5% á leið frá Íslandi, 28% voru á leið til Íslands og 47,6% voru tengifarþegar (VIA).
Verkfallshrinur flugumferðarstjóra í liðnum desember höfðu áhrif á stundvísi PLAY í mánuðinum. PLAY var með 59% stundvísi í desember en yfir allt árið var stundvísi PLAY 83%. Það þýðir að af 9.600 flugferðum PLAY yfir árið 2023, voru um átta þúsund þeirra á réttum tíma. Meðal seinkun á flugferðum PLAY var um 5,4 mínútur.
Ef ekki hefði komið til verkfallshrina flugumferðarstjóra hefði stundvísi PLAY verið um 86%.
Hliðartekjur aukast og bókunarstaðan lítur vel út
PLAY flutti 1,5 milljónir farþega árið 2023 og var með sætanýtingu upp á 83,4%. Af þeim farþegum sem flugu með PLAY á árinu voru 26,7% á leið frá Ísland, 32,3% voru á leið til Íslands og 41% voru tengifarþegar (VIA).
Meðal hliðartekjur hafa haldið áfram að aukast hjá PLAY. Meðal hliðartekjur voru 29% hærri í desember 2023, samanborið við desember 2022.
PLAY hafði áður tilkynnt að jarðhræringarnar á Reykjanesskaga myndu hafa neikvæð áhrif á farþegatölur í desember, janúar og febrúar. Nú má sjá sterkar vísbendingar um að félagið muni ekki finna fyrir þessum neikvæðu áhrifum til lengri tíma því eftirspurnin hefur á fyrstu dögum ársins tekið hraustlega við sér sem er afar jákvætt fyrir bókunarstöðu félagsins fyrir sumarið og komandi misseri.
Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:
„Við erum stolt af því að hafa náð markmiði okkar um að flytja 1,5 milljónir farþega á árinu 2023. Það er nærri því tvöföldun á farþegafjölda okkar árið 2022. Sætanýtingin okkar á árinu var mjög ásættanleg, eða 83%, sér í lagi ef litið er til krefjandi aðstæðna sem sköpuðust á seinustu tveimur mánuðum ársins.
Stundvísi félagsins var 83% á árinu 2023, sem er með því betra sem fyrirfinnst í fluggeiranum og er staðfesting á þeirri fagmennsku og elju sem starfsmenn PLAY búa yfir.
Sætanýtingin okkar var lægri í desember 2023 samanborið við desember 2022. Þessi niðurstaða var bein afleiðing af jarðhræringum á Reykjanesskaga sem hafði áhrif á eftirspurn eftir ferðum til Íslands. Slæmum fregnum af þessum jarðhræringum var gert hátt undir höfði í erlendum fjölmiðlum og í ofanálag var Bláa lóninu, einu helsta kennileiti Íslands, lokað tímabundið vegna þessara atburða. Við þetta ástand bættust síðan verkfallshrinur flugumferðarstjóra í desember 2023. Þeim aðgerðum var sérstaklega beint gegn íslensku flugfélögunum og ferðaþjónustunni á Íslandi á viðkvæmum tíma.
Þrátt fyrir að þetta hafi haft neikvæð áhrif á farþegatölur fyrir nóvember, desember og janúar, þá erum við að sjá eftirspurnina taka við sér á ný og við höfum því enga ástæðu til að halda að þessara áhrifa muni gæta til lengri tíma litið.
Fyrstu vikur nýs árs eru afar mikilvægar upp á bókanir fyrir vorið og sumarið og það er traustvekjandi að sjá aukna eftirspurn skila okkur sterkri bókunarstöðu. Við höfum fullt tilefni til að horfa björtum augum á árið sem byrjar svona vel.
Ég vil þakka öllum þeim sem völdu að fljúga með PLAY á árinu 2023. Það var okkur sönn ánægja að fá ykkur um borð. Ég vil einnig fá að þakka mínu öfluga samstarfsfólki fyrir frábært framlag og að hafa náð svo góðri niðurstöðu í flugrekstrinum. Ég er handviss um að saman munum við ná enn hærra á komandi ári.“