- Fréttir
Fjórði hver farþegi frá Íslandi árið 2022 flaug út með PLAY og félagið skaraði fram úr í sætanýtingu í desember
Fjórði hver farþegi frá Íslandi árið 2022 flaug út með PLAY og félagið skaraði fram úr í sætanýtingu í desember
Flugfélagið PLAY flutti 74.620 farþega í desember 2022 sem eru fjórum sinnum fleiri farþegar en í desember 2021. Sætanýting félagsins í desember var 82,8% miðað við 79,1% í nóvember. London, París og Kanaríeyjar nutu sérstaklega mikilla vinsælda í mánuðinum og var sætanýting á þeim áfangastöðum um 90%.
PLAY getur státað sig af því að hafa verið með bestu sætanýtingu í desember á meðal allra skráðra flugfélaga í Skandinavíu. Það er ótvírætt til marks um skilvirkt leiðakerfi og góðan árangur í sölu- og markaðsmálum.
29% af farþegum PLAY í desember ferðuðust frá Íslandi, 31% til Íslands og 40% voru tengifarþegar.
Stundvísi PLAY í desember var 79,1% en vont veður í mánuðinum setti strik í reikninginn í flugrekstrinum. Félagið varð fyrir fjárhagslegu tjóni af völdum lokunar Keflavíkurflugvallar sem varð til þess að ferðaáætlanir þúsunda farþega félagsins fóru úr skorðum. Starfsfólk PLAY á miklar þakkir skildar fyrir að hafa lagt nótt við dag við að leysa úr þessum vandamálum til þess að koma farþegunum á sína áfangastaði í tæka tíð fyrir jól.
800 þúsund farþegar árið 2022 og 80% sætanýting
Árið 2022 hófst ferðalag 36% farþega PLAY á Íslandi og hafa viðtökurnar á heimamarkaði verið félaginu sérstakt ánægjuefni. Frá janúar 2022 hefur markaðshlutdeild félagsins á meðal farþega á leið til útlanda frá Íslandi verið um 25% samkvæmt tölfræði Ferðamálastofu. Suma mánuði var þetta hlutfall mun hærra. Í hörðu samkeppnisumhverfi er félagið sigri hrósandi yfir þessum góða árangri á meðal Íslendinga. Tölfræðin varpar skýru ljósi á þörfina fyrir lággjalda flugfélag hér á landi. PLAY stefnir á að auka markaðshlutdeildina á Íslandi enn frekar á nýju ári með ferðum til spennandi áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku og með framúrskarandi þjónustu.
Árið 2022 flutti PLAY 789.151 farþega í fleiri en 5.400 flugferðum. Þessar tölur eru í samræmi við upphafleg markmið okkar á árinu og eru einkar jákvæðar í ljósi þess að PLAY hóf tengiflugsleiðakerfið sitt ekki fyrr en um mitt árið. Það sama má segja um sætanýtingu félagsins árið 2022 sem var 79,9% en hún jókst um 50% á milli ára.
Stundvísi PLAY árið 2022 nam 87%, sem er með því besta sem þekkist á hinum alþjóðlega markaði.
Áfangastaðir PLAY árið 2022 voru 25 talsins en verða hátt í 40 árið 2023, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Félagið mun nota 10 flugvélar í starfseminni árið 2023 og veita rúmlega 500 manns atvinnu á árinu.
Stundvísi á heimsmælikvarða
„Við kveðjum vægast sagt viðburðaríkt ár með sannfærandi farþegatölfræði í höndunum sem sýnir að félagið hefur fest sig rækilega í sessi á lykilmörkuðum sínum. Þessi staðreynd hvetur mig til dáða og fyllir mig bjartsýni fyrir framtíðina. Í desember fór sætanýting okkar til að mynda fram úr því sem var hjá félögunum sem við berum okkur gjarnan saman við á Norðurlöndunum. Um leið er stundvísi okkar á heimsmælikvarða. Allt sýnir þetta hve vel hefur tekist að laga leiðakerfið og umfang rekstrarins að þörfum markaðarins. Þetta sýnir um leið fagmennsku og fumlaus vinnubrögð starfsfólks okkar við að tryggja ávallt að viðskiptavinir komist á leiðarenda með bros á vör. Sjálfur gleðst ég sérstaklega yfir árangri okkar á Íslandsmarkaði þar sem samkeppnin er hörð og barist er um hvern farþega. Fjórðungur allra Íslendinga á leið erlendis árið 2022 völdu að ferðast með PLAY fram yfir keppinauta okkar. Við lítum á það sem mikla stuðningsyfirlýsingu frá almenningi og fyrir það erum við innilega auðmjúk og þakklát. Við förum inn í 2023 full af orku, metnaði og einbeittari en nokkru sinni að ná markmiðum okkar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.
Operational Statistics - December 2022Hlekkur opnast í nýjum flipa