- Fréttir
Jóhann Pétur Harðarson ráðinn lögfræðingur PLAY
Jóhann Pétur Harðarson ráðinn lögfræðingur PLAY
Jóhann Pétur Harðarson hefur verið ráðinn lögfræðingur PLAY. Hann mun bera ábyrgð á greiningu og úrlausn lögfræðilegra álitamála og sinna ráðgjöf og upplýsingagjöf til stjórnenda og stoðsviða. Þá verður hann regluvörður félagsins. Hann hóf störf í júlí.
Jóhann Pétur hefur víðtæka alþjóðlega reynslu úr atvinnulífi og hefur starfað í Bandaríkjunum, Ástralíu og Evrópu. Nú síðast starfaði Jóhann Pétur í Ástralíu við ráðgjöf til frumkvöðla. Þar áður var hann starfsmaður í fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance.
Á árunum 2006 til 2012 var Jóhann Pétur lögfræðingur hjá Össuri hf., fyrst staðsettur á Íslandi og síðar í Bandaríkjunum. Hjá Össuri sinnti hann víðtækri lögfræðiráðgjöf þvert á stoðsvið í flestum starfslöndum félagsins.
„Ég er afar ánægður að vera orðinn starfsmaður PLAY og það er spennandi tækifæri að taka þátt í markvissri uppbyggingu félagsins. PLAY nýtur góðs af reynslu starfsmanna og skýrri stefnu stjórnenda og hefur meðbyr á óvissutímum. Fyrstu vikurnar hafa verið einstaklega ánægjulegar í nýju starfi,“ segir Jóhann Pétur.
„Við erum stolt af því að fá Jóhann Pétur í liðið okkar enda hefur hann mjög sterkan og breiðan bakgrunn og mikla reynslu úr alþjóðlegu rekstrarumhverfi í viðbót við lögfræðiþekkinguna. PLAY stækkar hratt þessa dagana og við leggjum mikla áherslu á að skapa öflugt teymi sem getur unnið þétt saman í því kvika umhverfi sem flugrekstur er. Jóhann Pétur kemur svo sannarlega inn sem öflugur liðsmaður á sama tíma og það er stutt í leikgleðina hjá honum. Ég býð hann velkominn á leikvöllinn og hlakka til að vinna með honum í framtíðinni,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.
Jóhann Pétur er með Cand. Jur. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá NYU, Stern School of Business.c