- Fréttir
Ný bókunarvél PLAY
Ný bókunarvél PLAY
PLAY hefur sett í loftið nýja bókunarvél sem er fyrsti áfangi í metnaðarfullri stafrænni vegferð félagsins. Þessi fyrsta útgáfa bókunarvélarinnar hefur að mörgu leyti svipaða virkni og fyrri bókunarvél en færir þróun og stjórn á viðmótinu yfir til flugfélagsins ásamt því að tæknilegur búnaður hefur verið bættur, notendaviðmót einfaldað og bókunarvélin hefur fengið einkennandi leikglaðan svip flugfélagsins.
Verkefnið var unnið í samstarfi við upplýsingatæknifyrirtækið AviLabs og vefhönnunarfyrirtækið Mito Digital.
Þægileg notendaupplifun og gagnsæi eru kjarninn í verkefninu en þar er lögð áhersla á einfalda bókunaraðferð og góða og trausta upplýsingagjöf. Stafrænt teymi PLAY vinnur náið með mörgum ólíkum deildum flugfélagsins til að tryggja að nýja bókunarvélin mæti öllum þörfum og kröfum flókinnar alþjóðlegrar starfsemi.
Þetta er þó aðeins byrjunin því næstu skref í stafrænni vegferð eru að endurhanna notendaaðgang og innritunarferli ásamt nýjum viðbótum s.s. tengiflugi, áningarflugi (e. stopover) og fleiri greiðslumöguleikum. Nýja bókunarvélin er áreiðanleg, öflug og leikglöð og veitir notendum trausta og þægilega upplifun við að skipuleggja ferðalög sín og eykur á sama tíma sölumöguleika flugfélagsins.
PLAY vill nota tækifærið og þakka samstarfsaðilum fyrir frábært samstarf í þessu skemmtilega verkefni og hvetja sem flesta til að skoða sig um í nýju bókunarvélinni.