- Fréttir
Öflugur tekjuvöxtur, heilbrigð lausafjárstaða og sterk bókunarstaða
Öflugur tekjuvöxtur, heilbrigð lausafjárstaða og sterk bókunarstaða
● PLAY flutti 212 þúsund farþega á fyrsta ársfjórðungi 2023 og sætanýting var 78,4%.
● Flugreksturinn gekk mjög vel á fyrsta ársfjórðungi og stundvísi mældist 85,5%, talsvert betri en tíðkast hjá samkeppnisaðilum.
● Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 32,7 milljónum bandaríkjadala, samanborið við 9,6 milljónir bandaríkjadala á sama tímabili í fyrra.
● Áframhaldandi vöxtur var í hliðartekjum á fyrsta ársfjórðungi. Meðalhliðartekjur á hvern farþega hafa aukist um 25% síðan PLAY hóf að bjóða upp á ólíka pakka við bókun flugmiða í febrúar.
● Metsala og skýr sýn félagsins um að halda rekstrarkostnaði í lágmarki hefur leitt af sér mjög heilbrigða lausafjárstöðu félagsins í lok fjórðungsins og hækkun miðað við lok árs 2022.
● Handbært fé PLAY jókst á ársfjórðungnum. Handbært og bundið fé þann 31. mars var 37,6 milljónir bandaríkjadala. Félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.
● Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á fjórðungnum var í takt við væntingar félagsins sem gerir ráð fyrir að EBIT verði jákvæð á árinu. EBIT á fyrsta ársfjórðungi var neikvæð um 17,7 milljónir bandaríkjadala samanborið við 13,3 milljónir bandaríkjadala á sama tímabili árið 2022. Kostnaður við uppbyggingu og stækkun leiðakerfis PLAY fyrir sumarið 2023 hafði meiri áhrif á þessum ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra.
● Tap á fyrsta ársfjórðungi 2023 nam 17,2 milljónum bandaríkjadala samanborið við 11,2 milljónir á fyrsta ársfjórðungi árið 2022.
● Miðasölumet var slegið á fyrsta ársfjórðungi sem leiðir til hækkunar á einingatekjum til framtíðar.
● Bókunarstaðan er áfram sterk og er til muna betri ef horft er á sama tíma á síðasta ári.
● Vegna mikillar eftirspurnar hefur PLAY bætt í tíðni flugferða til vinsælla áfangastaða í Suður-Evrópu. Nú er flogið allt árið um kring til Lissabon, Barcelona og til Madrídar og flugáætlun félagsins til Aþenu hefur verið framlengd.
PLAY mun fljúga til 37 áfangastaða á árinu og þar af eru þrettán nýir.
Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:
„Okkur er mikil ánægja að skýra frá því að árangur fyrsta ársfjórðungs var í fullu samræmi við væntingar okkar. Við sáum heilbrigðan vöxt og jákvæða þróun á lykilsviðum rekstrarins. Fyrsti ársfjórðungur er alltaf krefjandi í flugrekstri enda eftirspurnin og tekjurnar minni á meðan kostnaður er enn tiltölulega hár vegna margvíslegs undirbúnings fyrir sumarið sem er okkar mikilvægasta tímabil.
Við sjáum mjög jákvæð teikn á lofti og bókunarstaðan er mjög góð. Kostnaður er í góðum skorðum og veigamiklir ytri þættir hafa verið að þróast í rétta átt, svo sem olíuverð. Til vitnis um þessa þróun er sú ánægjulega staðreynd að við státum nú af aukinni lausafjárstöðu eftir fyrsta ársfjórðung, sem er umtalsvert afrek fyrir ungt flugfélag í vaxtarfasa. Nú höfum við ágæta innsýn í árið fram undan og sjáum næstu ársfjórðunga safnast saman í rekstrarhagnað (EBIT) fyrir árið í heild sinni. Vitaskuld er rekstrarumhverfi okkar síbreytilegt og berskjaldað fyrir fjölda ytri þátta, en að svo komnu máli er sannarlega ástæða til bjartsýni. Sætanýting okkar nam 78,4%, sem er mjög viðunandi á þessum árstíma. Við fluttum 212 þúsund farþega, sem er fjórfaldur fjöldi farþega frá sama tíma í fyrra. Við erum hreykin af stundvísi okkar sem nam 85,5% á fjórðungnum. Hliðartekjurnar hafa vaxið kröftuglega á fjórðungnum og sömuleiðis meðalverðið á farþega. Allt rennir þetta stoðum undir trú okkar á viðskiptamódel félagsins og sannfærir okkur um að gott sumar sé í vændum. Á fyrsta ársfjórðungi sló félagið sölumet. Við sáum jákvæða þróun á handbæru fé frá rekstri sem skilaði okkur aukningu á handbæru og bundnu fé en það endaði í 37,6 milljónum bandaríkjadala í lok fjórðungsins. Rekstrarhagnaður (EBIT) fjórðungsins var í samræmi við væntingar okkar í þeim vaxtarfasa sem við erum í. Þar ber að hafa í huga að PLAY stefnir á að tuttugufalda árstekjurnar á þessu ári á við það sem var árið 2021. Lokatakmarkið eru heildartekjur upp á 280-320 milljónir bandaríkjadala á árinu 2023. Bókunarstaðan er umtalsvert sterkari nú en á sama tíma á síðasta ári, sem er til marks um sífellt betri stöðu félagsins. Við erum síðan spennt að halda áfram að vaxa. Árið 2023 stefnum við á að starfrækja flug til 37 áfangastaða, þar af eru þrettán nýir. Við erum að sigla inn í mest spennandi tíma ársins hjá félaginu, þar sem við tökum við um það bil 200 nýjum samstarfsmönnum, komum fjórum nýjum flugvélum í gagnið og bætum við fjölda áfangastaða í leiðakerfið. Markaðurinn tekur okkur opnum örmum, eins og sjá má á þeirri staðreynd að þrátt fyrir að hafa tvöfaldað umsvif okkar, hafa meðaltekjurnar aukist. Ég vil tjá innilegt þakklæti mitt til allra í kraftmiklu starfsliði PLAY, en án þeirra væri ekkert af þessu hægt. Þeirra mikla og góða vinna og áhersla á að bjóða viðskiptavinum okkar upp á framúrskarandi þjónustu hefur skipt sköpum fyrir vöxt félagsins. Við erum sannfærð um getu félagsins til að skila glæsilegum árangri og erum spennt að halda áfram þessu góða flugi – og gefa enn frekar í.“
Farþegafjöldi fjórfaldast á milli ára og góður vöxtur í sætanýtingu
PLAY flutti 212.408 farþega á fyrsta ársfjórðungi 2023. Þetta eru næstum fjórfalt fleiri farþegar miðað við sama tímabil í fyrra. Þessi mikli vöxtur endurspeglast einnig í sætanýtingu félagsins sem var 78,4% á fyrsta ársfjórðungi 2023 miðað við 63,5% á sama tíma í fyrra. Þessi bæting í sætanýtingu stafar af endurnýjaðri eftirspurn í flugsamgöngum og þeirri staðreynd að leiðakerfinu var breytt í tengiflugsleiðakerfi vorið 2022.
PLAY spáir því að farþegar verði á bilinu 1,5 til 1,7 milljónir á árinu 2023 og að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á árinu. Þá gerir félagið ráð fyrir tekjum á bilinu 280 til 320 milljónir bandaríkjadala í ár. Spáin helst óbreytt frá þeirri sem gefin var út í uppgjöri félagsins á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og byggir á fjölþættum grunni; sterkri bókunarstöðu fram undan; auknum hliðartekjum í hverjum mánuði og stöðugu olíuverði.
Af þeim sem flugu með PLAY á fyrsta ársfjórðungi 2023 voru 29% að ferðast frá Íslandi, 42% til Íslands og 30% voru tengifarþegar (VIA farþegar). Miðað við sömu mánuði í fyrra hefur orðið gríðarleg aukning í fjölda farþega á leið til Íslands. Þessi aukna markaðshlutdeild undirstrikar sífellt sterkari stöðu félagsins á alþjóðamörkuðum. Af öllum þeim farþegum sem flugu til Íslands á fyrsta ársfjórðungi 2023 flugu 9% með PLAY en árið 2022 voru það 4%. Á sama tíma hafa bókanir frá erlendum ferðaskrifstofum sem skipuleggja ferðir til Íslands aukist til muna fyrir árið 2023 miðað við árið á undan. Bæði er til marks um það að vitund um og traust til vörumerkisins PLAY hefur aukist.
Stundvísi PLAY var 85,5% á fyrsta ársfjórðungi 2023 sem er talsvert betri stundvísi en hjá helstu samkeppnisaðilum. Þetta þýðir að PLAY er eitt áreiðanlegasta flugfélagið á markaðnum.
Þá var miðasölumet slegið á fyrsta ársfjórðungi sem leiðir til hækkunar á einingatekjum til framtíðar.
Fjárhagsniðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2023
Metsala og skýr sýn félagsins um að halda rekstrarkostnaði lágum hefur leitt af sér mjög heilbrigða lausafjárstöðu félagsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2023. Árstíðarsveifla flugiðnaðarins gerir það að verkum að fyrsti og fjórði ársfjórðungur eru mest krefjandi fjárhagslega og er heilbrigð lausafjárstaða félagsins klárt merki um að það séu mjög jákvæð teikn á lofti fyrir tvo mikilvægustu ársfjórðungana sem fram undan eru.
Jákvæður tekjuvöxtur félagsins hefur haldið áfram á fyrsta ársfjórðungi 2023. Tekjur á fjórðungnum námu 32,7 milljónum bandaríkjadala, samanborið við 9,6 milljónir dala á sama ársfjórðungi 2022.
Heildartekjur af vöruflutningum PLAY á fyrsta ársfjórðungi námu 893 þúsund bandaríkjadölum og jukust tekjurnar með hverjum mánuði sem leið. Gera má ráð fyrir frekari tækifærum á þessu sviði á næstu mánuðum eftir því sem félagið hefur innreið á nýja markaði og fjölgar flugferðum.
Heildartekjur PLAY á hvern sætiskílómetra (TRASK) á fyrsta ársfjórðungi 2023 jukust um 2% samanborið við sama ársfjórðung í fyrra, þrátt fyrir 229% vöxt í sætiskílómetrum. Þetta sýnir styrk undirliggjandi eftirspurnar ásamt kostum tengiflugsleiðakerfisins.
Meðalhliðartekjur á hvern farþega hafa aukist um 25% frá því PLAY hóf að bjóða upp á ólíka pakka við bókun flugmiða í febrúar 2023. Vænta má að sú þróun haldi áfram sem mun hafa áhrif á langtímavöxt tekna félagsins. Á sama tíma kynnti PLAY fleiri vörur til leiks, t.d. 23 kílóa tösku en þetta er aðeins fyrsta skref í auknu vöruframboði félagsins. Heildarrekstrargjöld, ásamt afskriftum, námu 50,4 milljónum bandaríkjadala á ársfjórðungnum sem leiddi til þess að CASK án eldsneytiskostnaðar var upp á 4,5 dollarasent og 6,4 dollarasent með eldsneytiskostnaði. Heildar CASK lækkaði um 34% samanborið við sama tímabil í fyrra og var í takt við árið 2022 í heild. Lægra CASK er einn kostur tengiflugsleiðakerfis þar sem aukin nýting á eignum félagsins er möguleg. Dagleg meðalnýting flugvéla félagsins jókst frá rétt yfir sex tímum á dag á fyrsta ársfjórðungi 2022 í yfir 11 tíma á dag á fyrsta ársfjórðungi 2023. PLAY gerir ráð fyrir að einingakostnaður haldi áfram að lækka samhliða auknum umsvifum.
Eldsneytisverð hefur lækkað frá hæsta punkti en er þó enn stór hluti af heildarkostnaði eða 29,3% af heildarrekstrarkostnaði. Fjármagnstekjur og -gjöld voru neikvæð á ársfjórðungnum um 3,8 milljón dollara, þar af voru 2,6 milljónir dollara vegna vaxtagjalda af leiguskuldbindingum. Tap ársfjórðungsins nam 17,2 milljónum dollara.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var neikvæð á fyrsta ársfjórðungi 2023 um 17,7 milljónir bandaríkjadala, samanborið við 13,3 milljónir dala á sama tíma á síðasta ári. Þetta er í samræmi við áætlanir og spár og skýrist af vexti fyrirtækisins og undirbúningi fyrir háannatímann sem í vændum er. PLAY gerir ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu fyrir allt árið 2023.
Heildareignir PLAY námu 435,1 milljón bandaríkjadala í lok tímabilsins samanborið við 331,5 milljón dala í lok árs 2022. Félagið tók á móti og hóf rekstur á tveimur flugvélum á tímabilinu og var þá með átta flugvélar í rekstri í lok ársfjórðungsins. Í apríl tók félagið á móti nýrri flugvél sem fór í rekstur í sama mánuði og önnur er væntanleg á fyrri hluta árs 2023. Vænt aukning leigueigna og leiguskuldbindinga vegna þessara tveggja véla á öðrum ársfjórðungi 2023 eru 80-90 milljónir bandaríkjadala. Viðskiptakröfur og aðrar kröfur námu 40,6 milljónum dala og eru að mestu leyti kröfur á færsluhirði félagsins vegna sölu flugmiða. Í lok ársfjórðungsins var handbært og bundið fé félagsins 37,6 milljónir bandaríkjadala. Eigið fé í lok tímabilsins var 18,9 milljónir dala. Félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.
Félagið vel í stakk búið til að ná markmiðum sínum fyrir árið 2023
Á fyrsta ársfjórðungi 2023 flaug PLAY til 18 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku og notaðist við átta flugvélar. Áfangastaðir félagsins verða 37 á árinu og félagið verður með tíu flugvélar í notkun í sumar.
Nú þegar tengiflugsleiðakerfi PLAY hefur lokið við sinn fyrsta vetur í fullri virkni er full ástæða til að líta björtum augum á framhaldið enda fyrirtækið séð sætaframboð (ASK) aukast um 229% á fyrsta ársfjórðungi 2023, samanborið við fyrsta ársfjórðung 2022.
Hluti af langtímauppbyggingu leiðakerfisins er að auka framboð enn frekar en veturinn 2023-24 mun PLAY meðal annars bjóða upp á:
· Síðdegisbrottfarir til Kaupmannahafnar og London.
· Aukna tíðni flugferða til vinsælla áfangastaða í Suður-Evrópu, t.d. flug allt árið um kring til Lissabon, Barcelona og Madrídar. Þá hefur flugáætlun félagsins til Aþenu hefur verið framlengd.
· Fleiri áfangastaði í Suður-Evrópu sem verða fljótlega kynntir til leiks.
· Áframhaldandi flug til Salzburg og Genfar á næstu skíðavertíð og nýr skíðaáfangastaður verður fljótlega kynntur til leiks.
PLAY er vel í stakk búið til að halda jákvæðum tekjuvexti á lofti og ná markmiðum fyrir árið 2023. Flugmiðasala hefur verið einstaklega góð á fyrstu mánuðum ársins og bókunarstaðan til framtíðar er til muna betri en á sama tíma í fyrra.
Frekari upplýsingar:
Streymi frá fjárfestakynningu, 27. apríl 2023
PLAY mun kynna uppgjör sitt klukkan 16:15 þann 27. apríl 2023. Birgir Jónsson, forstjóri, og Ólafur Þór Jóhannesson, fjármálastjóri, kynna uppgjörið. Kynningunni verður streymt hér: https://www.flyplay.com/financial-reports-and-presentations.
Fjárhagsdagatal
· Annar ársfjórðungur 2023 27. júlí 2023
· Þriðji ársfjórðungur 2023 26. október 2023
· Ársreikningur 2023 8. febrúar 2024