Skoða efni
27. Jul 2023

Rekstrarhagnaður á öðrum ársfjórðungi, tekjuvöxtur, og heilbrigð lausafjárstaða

  • PLAY flutti 392 þúsund farþega á fyrsta ársfjórðungi 2023 og sætanýting var 84,6%.
  • Flugreksturinn var farsæll á öðrum ársfjórðungi. Stundvísi mældist 84,3% sem er talsvert betra en hjá helstu samkeppnisaðilum.
  • Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 73,1 milljón bandaríkjadala (9,7 milljarðar íslenskra króna), samanborið við 32,5 milljónir bandaríkjadala (4,3 milljarðar íslenskra króna) á sama tímabili í fyrra. Tekjur hafa því meira en tvöfaldast á milli ára.
  • Handbært fé PLAY jókst á ársfjórðungnum. Handbært og bundið fé þann 30. júní var 54,5 milljónir bandaríkjadala (7,2 milljarðar íslenskra króna). Félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.
  • Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á fjórðungnum var umfram væntingar félagsins sem gera ráð fyrir að EBIT verði jákvæð á árinu.
  • EBIT á öðrum ársfjórðungi var jákvæð um 0,4 milljónir bandaríkjadala (53 milljónir króna) samanborið við neikvæða EBIT upp á 14,4 milljónir bandaríkjadala (1,9 milljarðar króna) á sama tímabili árið 2022.
  • Tap á öðrum ársfjórðungi 2023 nam 4,1 milljón bandaríkjadala samanborið við 14,3 milljónir á öðrum ársfjórðungi árið 2022.
  • Áframhaldandi vöxtur var í hliðartekjum á öðrum ársfjórðungi. Eftir að PLAY hóf sölu á fargjaldapökkum hefur orðið 19% aukning á meðalhliðartekjum á hvern farþega.
  • CASK (kostnaður á hvern sætiskílómetra) nam 3,5 dollarasentum án eldsneytiskostnaðar. CASK lækkaði um 22% samanborið við sama tímabil í fyrra (lækkaði um 12,5% án eldsneytiskostnaðar) og var í takt við væntingar. Lægri CASK er afrakstur af kostum tengiflugsleiðakerfis, m.a. aukinni nýtingu á eignum félagsins, fjölgun sæta og lægra eldsneytisverði. Metsala og skýr sýn félagsins um að halda rekstrarkostnaði í lágmarki hefur leitt af sér heilbrigða lausafjárstöðu félagsins í lok fjórðungsins.
  • PLAY sló eigið met þegar kemur að fjölda farþega í einum mánuði, bæði í maí og júní. Bókunarstaðan er áfram sterk og er til muna betri ef horft er á sama tíma á síðasta ári.
  • PLAY hóf miðasölu á ferðum til Fuerteventura og Verona á ársfjórðungnum. Þýska borgin Frankfurt var fyrr í dag tilkynnt sem nýjasti áfangastaður PLAY.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Annar ársfjórðungur markaði þáttaskil í rekstri PLAY því við lukum við að stækka flota okkar upp í tíu farþegaþotur snemma í júní þegar við tókum við spánnýrri Airbus A321neo. Nú þegar við höfum náð nauðsynlegri stærðarhagkvæmni eftir að hafa stækkað hratt á síðustu tveimur árum, erum við afar stolt af því að tilkynna rekstrarhagnað í lok fjórðungsins, einingakostnað á áætlun og heilbrigðra lausafjárstöðu.

 

Fjárhagsleg niðurstaða fór fram úr væntingum sem styður við fyrri spár um að ná rekstrarhagnaði á árinu 2023, sem er afrek fyrir ungt félag á sínu öðru heila starfsári.

 

Við höfum hafið áætlunarflug til þrettán nýrra áfangastaða í vor og áfangastaðir sem voru fyrir í leiðakerfinu hafa skilað betri niðurstöðu en í fyrra með frekari fótfestu PLAY á þeim mörkuðum. Við erum sérlega stolt af þeirri markaðshlutdeild sem við höfum náð á Íslandi þar sem 41% allra Íslendinga sem lögðu land undir fót frá Íslandi á öðrum ársfjórðungi völdu okkar flugfélag. PLAY er því sannarlega á góðri leið með að verða fyrsta val íslenskra ferðalanga.

 

Þessi árangur samræmist stefnu fyrirtækisins um að verða leiðandi í framboði á sumarleyfis- og frístundaáfangastöðum á íslenskum markaði. Þessi stefna nýtir lágan kostnaðargrunn PLAY sem gerir okkur kleift að bjóða upp á mjög samkeppnishæf verð á flugferðum til vinsælla sumarleyfisáfangastaða þar sem verðið stjórnar oft ferðinni. Þessu til viðbótar má nefna að 7% allra ferðamanna sem flugu til Íslands á öðrum ársfjórðungi völdu PLAY og við sjáum mikla eftirspurn eftir tengiflugi okkar í Norður-Ameríku þar sem meðaltekjur á farþega eru mun hærri en í fyrra. Styrkur viðskiptamódels okkar er að geta hagað seglum eftir vindi með því að breyta fjölda flugsæta eftir mörkuðum í samræmi við aðstæður og eftirspurn á hverjum tíma. Við munum halda áfram að nýta okkur þann sveigjanleika sem við höfum yfir að ráða á meðan við þróum leiðakerfi okkar. Hliðartekjur halda áfram að aukast á sama tíma og bókunarstaðan fyrir komandi mánuði er sterk.

 

Við stöndum nú á hápunkti sumarvertíðarinnar og það er sönn ánægja að fylgjast með frábæru starfsfólki PLAY leggja sig allt fram við að þjónusta farþega okkar og koma þeim á áfangastað stundvíslega og á góðu verði. Við erum stolt af niðurstöðu þessa ársfjórðungs og það er ljóst að þetta var aðeins mögulegt með frábæru framlagi allra starfsmanna PLAY sem hafa skilað framúrskarandi verki. Ég er í engum vafa um að við öll munum halda því áfram og ég vil af fullri einlægni þakka okkar einstaka teymi fyrir þeirra góðu vinnu.

Tvöföldun á farþegafjölda, auknar tekjur af tengifarþegum og stundvísari en samkeppnisaðilar

PLAY flaug til 34 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku á öðrum ársfjórðungi 2023. Framboð á sætiskílómetrum jókst um 99% á ársfjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra. PLAY bætti 12 áfangastöðum við leiðakerfi sitt á ársfjórðungnum: Álaborg, Amsterdam, Aþenu, Billund, Düsseldorf, Glasgow, Hamborg, Washington DC, Porto, Feneyjar, Varsjá og Toronto. Á sama tímabili hóf PLAY aftur áætlunarferðir til sumaráfangastaða sem voru einnig í leiðakerfi félagsins í fyrra. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu jókst sætanýting um tíu prósent, úr 75% á öðrum ársfjórðungi árið 2022 í 85% á öðrum ársfjórðungi í ár. PLAY flutti 392 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi 2023 en það eru rúmlega tvöfalt fleiri farþegar miðað við sama tímabil í fyrra þegar PLAY flutti 181 þúsund farþega.

Þessar framfarir á milli ára þegar litið er til sætanýtingar og farþegafjölda skýrist af nokkrum þáttum. Má þar nefna fleiri tengingar á milli áfangastaða í leiðakerfinu, aukin vitund um félagið á mörkuðum sem PLAY hóf að fljúga til árið 2022 og mikil eftirspurn eftir ferðum frá Norður-Ameríku. Sætanýting á áfangastöðum PLAY í Norður-Ameríku var meira en 87% á öðrum ársfjórðungi, sem er aukning um 15% frá sama tímabili í fyrra.

Af þeim sem flugu með PLAY á öðrum ársfjórðungi voru 30% að ferðast frá Íslandi, 27% til Íslands og 43% voru tengifarþegar (VIA farþegar). Þessi fjölgun tengifarþega, bæði þegar kemur að fjölda farþega og hlutfalli af heildarfjölda farþega, í samanburði við annan ársfjórðung 2022, skýrist af fjölgun tenginga innan leiðakerfisins, aukinni vitund um PLAY á erlendum mörkuðum og mikilli eftirspurn í Bandaríkjunum. Allir þessir þættir, og að hafa hafið sölu á fargjaldapökkum í febrúar, hefur leitt til aukningar á tekjum frá tengifarþegum í samanburði við annan ársfjórðung í fyrra.

Stundvísi PLAY var 84,3% á öðrum ársfjórðungi 2023 sem er talsvert betri stundvísi en hjá helstu samkeppnisaðilum. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að bætt hafi verið stórlega í leiðakerfið á fjórðungnum með tólf nýjum áfangastöðum. Er það merki um framúrskarandi vinnubrögð starfsmanna PLAY og samstarfsaðila.

Fjárhagsniðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2023

Veruleg aukning í afkastagetu, sölu og fjölgun áfangastaða, með áherslu á að halda kostnaði lágum, hefur orsakað viðsnúning í rekstri PLAY á öðrum ársfjórðungi 2023, samanborið við annan ársfjórðung í fyrra. PLAY skilaði rekstrarhagnaði upp á 0,4 milljónir bandaríkjadala (53 milljónir króna) og sterkri eiginfjárstöðu í lok júní. Þessi niðurstaða fór fram úr væntingum og lofar góðu sem byrjun á sumarvertíðinni.

 

Tekjugrunnur PLAY hélt áfram að batna á öðrum ársfjórðungi. Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2023 voru 73,1 milljón bandaríkjadala (9,7 milljarðar íslenskra króna), samanborið við tekjur upp á 32,5 milljónir bandaríkjadala (4,3 milljarðar íslenskra króna) á öðrum ársfjórðungi í fyrra.

 

PLAY hefur lagt ríka áherslu á að auka hliðartekjur félagsins með bættu vöruframboði á borð við ólíka pakka við bókun flugmiða ásamt öðrum hliðartekjuvörum. Afraksturinn hefur verið að hliðartekjur á hvern farþega á öðrum ársfjórðungi voru 51 bandaríkjadalur sem er aukning um 18% frá öðrum ársfjórðungi árið 2022 þegar hliðartekjur á hvern farþega voru 43 bandaríkjadalir.

 

Heildartekjur PLAY á hvern sætiskílómetra (TRASK) á öðrum ársfjórðungi jukust um 13% samanborið við annan ársfjórðung árið 2022.

 

Heildarrekstrargjöld, ásamt afskriftum, námu 72,7 milljónum bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi 2023 sem leiddi til þess að CASK (kostnaður á hvern sætiskílómetra) nam 3,5 dollarasentum án eldsneytiskostnaðar og 5,3 dollararsentum með eldsneytiskostnaði. CASK lækkaði um 22% samanborið við sama tímabil í fyrra og var í takt við væntingar. Lægri CASK er afrakstur af kostum tengiflugsleiðakerfis, m.a. aukin nýting á eignum félagsins, fjölgun sæta og lægra eldsneytisverð. PLAY býst við að einingakostnaður lækki enn frekar á meðan á sumarvertíðinni stendur.

 

Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru neikvæð á öðrum ársfjórðungi um 5,6 milljónir bandaríkjadala. Af því voru 4,3 milljónir bandaríkjadala vaxtagjöld vegna leiguskuldbindinga. Tap ársfjórðungsins nam 4,1 milljón bandaríkjadala, samanborið við tap upp á 14,3 milljónir bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi árið 2022.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var jákvæð á öðrum ársfjórðungi 2023 upp á 0,4 milljónir bandaríkjadala, (53 milljónir króna), samanborið við neikvæða niðurstöðu upp á 14,4 milljónir bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Niðurstaðan á öðrum ársfjórðungi 2023 er fram úr væntingum PLAY.

 

Heildareignir PLAY námu 528,1 milljón bandaríkjadala  í lok tímabilsins, samanborið við 331,5 milljónir dala í lok árs 2022. PLAY tók á móti og hóf rekstur á tveimur farþegaþotum á tímabilinu og var þá með tíu þotur í rekstri undir lok ársfjórðungsins. Viðskiptakröfur og aðrar kröfur námu 34,9 milljónum bandaríkjadala og eru að mestu leyti kröfur á færsluhirði félagsins vegna sölu flugmiða.

 

Undir lok ársfjórðungsins nam handbært fé og bundið fé félagsins 54,5 milljónir bandaríkjadala. Eigið fé í lok tímabilsins var 14,5 milljónir bandaríkjadala. Félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.

 

Nýr áfangastaður og PLAY valið besta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu

PLAY mun halda áfram að bæta við leiðakerfi sitt næsta vetur. Á öðrum ársfjórðungi bættust Verona og Fuerteventura við sem nýir áfangastaðir. Fyrsta flugið til Verona verður 20. janúar 2024. Verona bætist við þá áfangastaði sem heyra undir skíðaáfangastaði, en fyrir býður PLAY upp á ferðir til Salzburg og Genf. Fyrsta flug PLAY til Fuerteventura verður 20. desember næstkomandi en Fuerteventura verður þriðji áfangastaður PLAY á Kanaríeyjum og áttundi áfangastaðurinn á Spáni. Þessi viðbót styrkir stöðu PLAY sem leiðandi flugfélag á milli Íslands og Spánar.

 

Til viðbótar við fyrrgreinda staði tilkynnti PLAY Frankfurt sem sinn nýjasta áfangastað fyrr í dag. Fyrsta flug PLAY til Frankfurt verður 14. desember næstkomandi en flogið verður fjórum til fimm sinnum í viku yfir veturinn. Frankfurt (FRA) er einn af stærstu flugvöllum Evrópu og verður hluti af tengiflugsleiðakerfi PLAY yfir Atlantshafið. Frankfurt er fjórði áfangstaður PLAY í Þýskalandi, en fyrir flýgur PLAY til Berlínar, Düsseldorf og Hamborgar.

 

Á öðrum ársfjórðungi var PLAY valið fremsta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu samkvæmt árlegum lista World Airline Awards sem byggir á umsögnum flugfarþega. Aðeins tveimur árum eftir að PLAY hóf farþegaflug hefur félagið náð að gera sig gildandi á listum World Airline Awards. PLAY hafnaði jafnframt í tíunda sæti yfir bestu lággjaldaflugfélög Evrópu og komst þar að auki á lista yfir hundrað bestu flugfélög heims. PLAY var einnig það flugfélag sem tók mestum framförum í Evrópu á árinu 2023 því félagið fór úr 167. sæti listans yfir bestu flugfélög heims árið 2022 í 91. sæti árið 2023.

 

PLAY tók á móti tíundu farþegaþotu sinni á öðrum ársfjórðungi. Þotan er af gerðinni Airbus A321neo og var afhent ný úr Airbus verksmiðjunni í Hamborg í Þýskalandi. Með þessari nýjustu viðbót er PLAY með yngsta flota Evrópu, en meðalaldur farþegaþota PLAY er um tvö ár.

 

Þá fagnaði PLAY því á öðrum ársfjórðungi að tvö ár eru frá fyrsta farþegaflugi félagsins sem var til London 24. júní árið 2021. Til að fagna þessum tímamótum ákvað PLAY að bjóða tveimur gangandi vegfarendum af handahófi frá Washington DC í Bandaríkjunum að fljúga til Íslands nokkrum klukkustundum seinna og upplifa margt af því besta sem landið hefur upp á að bjóða. Þetta uppátæki var fest á filmu og úr varð myndband sem var notað í herferð á samfélagsmiðlum PLAY og hlaut góðar viðtökur. Þá var þessum tímamótum einnig fagnað með afmælisveislu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Horfur

PLAY býst við að flytja 1,5 til 1,7 milljónir farþega árið 2023 og að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á árinu. Þá gerir félagið ráð fyrir tekjum á bilinu 280 til 310 milljónir bandaríkjadala í ár. Spáin er í takt við þá spá sem var gefin út í uppgjöri félagsins á fyrsta ársfjórðungi.

 

PLAY vinnur að því að ljúka viðbótum við flota sinn fyrir næstu tvö ár. Flugfélagið er í undirbúningsviðræðum um að bæta við einni farþegaþotu fyrir sumarvertíðina 2024 og fjórum þotum árið 2025. Frekari viðbætur og þróun á flotanum eru einnig til skoðunar eftir árið 2025. PLAY mun kynna frekari upplýsingar um leið og viðræðum er lokið. 

 

Frekari upplýsingar:

Streymi frá fjárfestakynningu, 27. júlí 2023

PLAY mun kynna uppgjör sitt klukkan 16:15 þann 27. júlí 2023. Birgir Jónsson, forstjóri, og Ólafur Þór Jóhannesson, fjármálastjóri, kynna uppgjörið. Kynningunni verður streymt hér: https://www.flyplay.com/financial-reports-and-presentations.

 

Fjárhagsdagatal

  • Þriðji ársfjórðungur 2023 - 26. október 2023
  • Fjórði ársfjórðungur og ársreikningur 2023 - 8. febrúar 2024