Skoða efni
17. Feb 2025

FLY Play hf.: Uppgjör 2024

Red PLAY aircraft flying over the black sands of Iceland
  • Samkomulag er í höfn um leigu þriggja véla frá og með næstkomandi vori til ársloka 2027 sem færir félaginu mikinn fyrirsjáanleika í rekstrinum.  
  • Skýr merki eru í uppgjöri fjórða ársfjórðungs um að nýtt viðskiptalíkan sé farið að skila bættum árangri.
  • Íslendingar velja PLAY í auknum mæli en 477 þúsund farþegar flugu frá Íslandi með félaginu í fyrra, sem er 17,1% aukning milli ára.
  • Tekjur jukust um 4% á milli ára og voru 292 milljónir Bandaríkjadollara árið 2024.
  • Farþegatekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) á fjórða ársfjórðungi jukust um 17% á milli ára, vegna hærra meðalverðs og betri sætanýtingar.* 
  • Sætanýting á fjórða ársfjórðungi jókst á milli ára um 4,2 prósentustig, úr 78,3% árið 2023 í 82,5% árið 2024, þrátt fyrir minna framboð.
  • Sætanýting árið 2024 jókst á milli ára, úr 83.4% í 85.3%.
  • Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) fyrir árið 2024 var neikvæð um 30,5 milljónir Bandaríkjadala, sem rakið er til örlítið lægri einingatekna.
  • EBIT batnaði um 4,7 milljónir Bandaríkjadollara á milli ára í fjórða ársfjórðungi, sem rakið er til hærri meðaltekna, betri sætanýtingar og aðhaldsaðgerða.  
  • PLAY flutti 1,6 milljónir farþega á árinu 2024, af þeim voru 336 þúsund á fjórða ársfjórðungi. 
  • Stundvísi á fjórða ársfjórðungi var 82,7% en 87,5% á árinu 2024.
  • PLAY var með tíu farþegaþotur í flota sínum og 42 áfangastaði í leiðakerfinu á árinu 2024. 
  • Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) jókst um 2,1% á milli ára á fjórða ársfjórðungi, úr 6,0 Bandaríkjasentum í 6,1 Bandaríkjasent. CASK á árinu 2024 stóð í stað frá fyrra ári, 5,6 Bandaríkjasent.*
  • Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra utan eldsneytis (Ex-Fuel CASK) árið 2024 jókst um 4,7%, úr 3,8 í 4,0. Ex-Fuel Cask var 4,4 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi 2024 en 4,2 Bandaríkjasent á sama tíma í fyrra.*

Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY:

Breytingar á viðskiptalíkani PLAY eru að verða sýnilegri og áhrifanna gætir í uppgjöri fjórða ársfjórðungs. Þótt rekstrarniðurstaðan hafi ekki verið í takt við væntingar urðu miklar framfarir á fjórða ársfjórðungi. Breyttar áherslur í leiðakerfinu eru farnar að skila hærri tekjum og farið er að bera á lækkun kostnaðar. Við væntum áframhaldandi bættrar afkomu á árinu 2025. 

Enn er ekki hægt að taka jákvæð áhrif nýs viðskiptalíkans með í reikninginn við endurskoðun á ársreikningi PLAY. Í ábendingu endurskoðanda um rekstrarhæfi félagsins í þó fyrirvaralausri áritun á ársreikningi ber því að hafa í huga að þar eru þau áhrif ekki komin fram. Við trúum því hins vegar staðfastlega að breytingarnar muni bæta fjárhag félagsins til muna á árinu 2025. Lausafjárstaðan hefur styrkst frá sama tíma á síðasta ári og miklar framfarir orðið í rekstrarhorfum PLAY. Þó er ekki hægt að útiloka að markaðsaðstæður breytist og að til álita komi að auka hlutafé. 

Heildartap félagsins á árinu 2024 er mun hærra en rekstrartapið. Þetta er vegna afskriftar á skattainneign upp á 24,1 milljónir Bandaríkjadollara, sem er einungis bókhaldslegs eðlis og hefur engin áhrif á lausafjárstöðu félagsins. Þetta er varfærin nálgun af hálfu PLAY.

Íslendingar velja PLAY í auknum mæli en 477 þúsund farþegar flugu frá Íslandi í fyrra með félaginu, sem er 17,1% aukning á milli ára eða um 70 þúsund fleiri farþegar. Áhersla okkar á sólarlandaáfangastaði hefur skilað góðum árangri en félagið hefur aukið sölu til þeirra áfangastaða um 18,4%. Allt er þetta til marks um að PLAY er orðið flugfélagið sem Íslendingar leita til þegar þeir vilja komast í sólarlandafrí. Þá er ljóst að fjöldi Íslendinga ferðaðist oftar en einu sinni með PLAY í fyrra. 

Við vinnum áfram ötullega að nýju rekstrarlíkani okkar, þar sem áherslan er á vinsæla áfangastaði sem gefa vel af sér og um leið eru sótt ný verkefni fyrir flotann. Samkomulag er í höfn um leigu þriggja véla frá og með næstkomandi vori til ársloka 2027. Verkefnið mun skila PLAY arðsemi í samræmi við það sem félagið hefur áður gefið til kynna og færir félaginu afar stöðugan og jákvæðan rekstur af þessum hluta starfseminnar

Við munum leitast við að draga úr kostnaði á árinu og höfum þegar gripið til aðgerða sem stefnt er að skili 15 – 20% hagræðingu í yfirbyggingu á yfirstandandi ári. Við höldum áfram að leita nýrra leiða til að bæta þjónustu okkar og veita aðhald á kostnaðarhliðinni. Með hærri tekjur og lægri kostnað sjáum við fram á mikinn rekstrarbata. 

Ég er þakklátur samstarfsfólki mínu hjá PLAY fyrir þeirra mikla framlag. Hverri áskorun er mætt af mikilli fagmennsku og fólk lagar sig fljótt að breyttum aðstæðum, sem skiptir miklu máli á umbreytingartímum. Stefnan verður sú sama og undanfarin ár, að halda stundvísi félagsins á heimsmælikvarða og bjóða farþegum okkar frábæra þjónustu á góðu verði.”

Farþegatölur

PLAY flutti 336 þúsund farþega á fjórða ársfjórðungi 2024. Sætanýting félagsins á ársfjórðungnum var 82,5%, samanborið við 78,3% í fjórða ársfjórðungi í fyrra. PLAY flutti 1,6 milljónir farþega á árinu 2024 með sætanýtingu upp á 85,3%. Stundvísi PLAY á fjórða ársfjórðungi var 82,7% en 87,5% á árinu 2024. 

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY á fjórða ársfjórðungi voru 31,8% á leið frá Íslandi, 37,8% voru á leið til Íslands og 30,4% voru tengifarþegar (VIA). Á árinu 2024 voru 29% á leið frá Íslandi, 32% voru á leið til Íslands og 39% voru tengifarþegar (VIA). Lægra hlutfall tengifarþega er í takt við breyttar áherslur félagsins. 

PLAY bætti nýjum áfangstöðum við leiðakerfið sitt á árinu 2024 en þeir eru Marrakesh, Madeira, Vilníus, Split, Faro, Álaborg, Cardiff, Antalya og Pula. 

Ánægja viðskiptavina jókst verulega á árinu 2024, eða um 27% frá fyrra ári. Það má þakka viðvarandi vinnu starfsmanna PLAY við að bæta þjónustu sem veitt er viðskiptavinum. 

Fjármál

Heildartekjur á fjórða ársfjórðungi voru 59,0 milljónir Bandaríkjadollara samanborið við 65,7 milljónir Bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi 2023. Tekjur drógust saman á milli ára á fjórða ársfjórðungi um 10,2% vegna minna framboðs og leiðakerfisbreytinga.

Heildartekjur á árinu 2024 voru 292,2 milljónir Bandaríkjadollara, samanborið við 281,8 milljónir Bandaríkjadollara 2023. Þessi aukning er einkum tilkomin vegna aukins sætaframboðs á árinu. Hliðartekjur á árinu 2024 voru 90,3 milljónir Bandaríkjadollara, borið saman við 82,6 milljónir Bandaríkjadollara árið 2023. 

Farþegatekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) á fjórða ársfjórðungi jukust um 17% á milli ára, úr 4,1 Bandaríkjasenti í 4,8 Bandaríkjasent, sem er vegna hærra meðalverðs og betri sætanýtingar. RASK fyrir árið 2024 var 4,9 Bandaríkjasent, borið saman við 5,0 Bandaríkjasent árið 2023.*

Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) var 6,1 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi, borið saman við 6,0 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi í fyrra. CASK á árinu 2024 var 5,6 Bandaríkjasent, og stóð í stað frá fyrra ári. 

Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra án eldsneytis (Ex-Fuel CASK) var 4,4 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi 2024, samanborið við 4,2 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Ex-Fuel CASK fyrir árið 2024 var 4,0 Bandaríkjasent samanborið við 3,8 Bandaríkjasent árið á undan.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var neikvæð um 15,3 milljónir Bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi 2024, borið saman við neikvæðar 19,9 milljónir Bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi 2023. Rekstrarniðurstaðan er því betri sem nemur 4,7 milljónum Bandaríkjadollara, sem rekja má til hærri meðaltekna, betri sætanýtingar og aðhaldsaðgerða.

Rekstrarniðurstaðan fyrir árið 2024 var neikvæð um 30,5 milljónir Bandaríkjadollara, borið saman við 23,0 milljóna Bandaríkjadollara rekstrartap árið 2023, einkum vegna örlítið lægri einingatekna. 

Heildartap á fjórða ársfjórðungi nam 39,8 milljónum Bandaríkjadollara. Bókfært heildartap fyrir árið 2024 var 66,0 milljónir Bandaríkjadollara, þar af eru 24,1 milljón Bandaríkjadollara vegna niðurfærslu á yfirfæranlegu skattalegu tapi. 

Í ljósi umfangsmikilla breytinga á viðskiptalíkani félagsins og í samræmi við endurskoðunarstaðalinn IAS 12 ákváðu stjórnendur að taka varfærna ákvörðun um viðurkenningu á frestuðum skatteignum tengdum yfirfæranlegu skattalegu tapi. Þrátt fyrir að félagið hafi áfram umtalsvert skattalegt tap til nýtingar, og sé sannfært um að það verði nýtt í framtíðinni, hefur umrædd skattaeign verið færð niður vegna óvissu m að skattalegt tap félagsins verði nýtt að fullu á móti hagnaði næstu ára. 

Þessi niðurfærsla hefur veruleg áhrif á eigið fé félagsins sem var í lok árs 2024 neikvætt um 33,1 milljón Bandaríkjadollara, en þar af eru 24,1 milljón vegna niðurfærslunnar. Hins vegar er mikilvægt að undirstrika að þessi reikningsskilaleiðrétting hefur engin áhrif á raunverulega skattalega eign félagsins eða getu þess til að nýta yfirfæranlegt skattalegt tap þegar nægjanlegur skattskyldur hagnaður myndast. Niðurfærslan er reikningsskilaaðgerð byggð á kröfum IAS 12, en ekki vísbending um raunverulegt tap á efnahagslegum ávinningi skattalegrar eignar. Þessi aðgerð hefur engin áhrif á rekstur félagsins, fjárhagsstöðu eða langtímahorfur. Staða félagsins er sterk og þessi aðgerð er einungis til marks um varfærið og ábyrgt uppgjör. 

Þess ber að geta að algengt er að flugfélög séu með neikvætt eigið fé, t.d. hafa flugfélög á borð við Wizzair, American Airlines, Delta og Air Canada öll á síðustu árum verið með neikvætt eigið fé en engu að síður staðið undir stöðugum flugrekstri. 

Lausafjárstaða félagsins við lok árs 2024 var 23,6 milljónir Bandaríkjadollara, borið saman við 21,6 milljónir Bandaríkjadollara árið 2023. Lausfjárstaðan er því betri en árið á undan og rekstrarhorfur að sama skapi betri. Félagið leitar ávallt leiða til að tryggja lausafjárstöðu félagsins sem best, meðal annars með hagræðingu á veltufé en ef markaðsaðstæður breytast kemur til greina að auka hlutafé í félaginu eða dótturfélagi þess.

Líkt og í fyrra hafa endurskoðendur félagsins gefið út fyrirvaralausa áritun í ársreikningi en þó komið með ábendingu um rekstrarhæfi félagsins. Í þessari ábendingu er ekki gert ráð fyrir jákvæðum áhrifum nýs viðskiptalíkans á rekstur PLAY en eins og áður hefur verið greint frá mun útleiga á farþegaþotum félagsins auka arðsemi þess og þannig tryggja mikinn fyrirsjáanleika í rekstri. 

Horfur

Einingatekjur félagsins hafa undanfarna fimm mánuði verið hærri borið saman við fyrra ár. Félagið gerir ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á árinu 2025. Ástæðan er einkum aukin áhersla félagsins á sólarlandaáfangastaði sem skila hærra meðalverði. Félagið mun áfram á árinu 2025 leggja ríka áherslu á fjölbreytt úrval áfangastaða. 

Samkomulag um leigu þriggja véla frá og með næstkomandi vori mun skila PLAY bættri arðsemi í samræmi við áður útgefið efni og umfram fyrri ár. Þessir leigusamningar mun tryggja mikinn fyrirsjáanleika í rekstri PLAY. 

Á árinu 2025 verður leitast við að draga úr kostnaði og þegar hefur verið gripið til aðgerða sem stefnt er að skili 15 – 20% hagræðingu í yfirbyggingu, m.a. með minna leiðakerfi og færri tækninýjungum. Þá mun PLAY hafa undir höndum betri samninga við birgja og mun starfsemi í Vilníus einnig lækka kostnað. 

Búist er við að fjárhagsniðurstaða fyrsta ársfjórðungs verði svipuð og í fyrra, þrátt fyrir að páskarnir séu að þessu sinni í öðrum ársfjórðungi. Reiknað er með betri rekstrarniðurstöðu á öllum öðrum ársfjórðungum. 

Nánari upplýsingar

Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY mun fara yfir niðurstöður félagsins þriðjudaginn 18. febrúar klukkan 09. Kynningin verður á ensku í vefstreymi á eftirfarandi slóð: https://www.flyplay.com/en/financial-reports-and-presentationsHlekkur opnast í nýjum flipa.