- Fréttir
Ár mikilvægra fjárfestinga: PLAY velti 20 milljörðum í fyrra, afkoma var neikvæð en tekjuvöxtur öflugur
Ár mikilvægra fjárfestinga: PLAY velti 20 milljörðum í fyrra, afkoma var neikvæð en tekjuvöxtur öflugur
· PLAY flutti 241 þúsund farþega á fjórða ársfjórðungi árið 2022. Heildarfjöldi farþega árið 2022 var 789 þúsund.
· Sætanýting á fjórða ársfjórðungi var 80,3%. Sætanýting verður sífellt betri en hún var 79,7% fyrir allt árið 2022.
· Flugreksturinn gekk mjög vel á fjórða ársfjórðungi og stundvísi mældist 91%.
· Tekjur á fjórða ársfjórðungi námu 37,9 milljónum bandaríkjadala, samanborið við 9,7 milljónir bandaríkjadala á sama tímabili í fyrra. Tekjur árið 2022 námu 140 milljónum bandaríkjadala samanborið við 16 milljónir bandaríkjadala árið 2021.
· Hagfelld þróun í hliðartekjum á fjórða ársfjórðungi.
· Tap PLAY, vegna ófærðar á Reykjanesbrautinni í desember, er metið á 2,2 milljónir bandaríkjadala.
· Fjárhagsstaða félagsins er heilbrigð. Handbært og bundið fé þann 31. desember var 36,2 milljónir bandaríkjadala.
· Eiginfjárhlutfall var 11,6% og félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.
· Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var neikvæð árið 2022 um 44 milljónir dala, samanborið við 25 milljónir bandaríkjadala árið 2021.
· Heildartap ársins 2022 var 45,5 milljónir bandaríkjadala samanborið við 22,5 milljónir á árinu 2021.
· Hlutafé var aukið um 16 milljónir bandaríkjadala í fjórða ársfjórðungi 2022.
· PLAY náði markmiðum sínum um einingakostnað, að frátöldum eldsneytiskostnaði, upp á minna en fjögur bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi. Þetta er í samræmi við markmið fyrirtækisins.
· 36 áfangastaðir eru í sölu í dag.
· Miðasala árið 2023 hefur farið mjög vel af stað og sölumet var slegið í janúar.
Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:
„Það er gleðiefni að tilkynna auknar tekjur og sætanýtingu á fjórða ársfjórðungi 2022. Undanfarna mánuði höfum við náð betri sætanýtingu en flest önnur flugfélög sem við berum okkur saman við og á sama tíma mælist stundvísi okkar með því besta sem gerist í heiminum. Flugrekstur á ársfjórðungnum gekk sérlega vel en við flugum með um 250.000 farþega og meðalsætanýting mældist 80,3%. Þessar tölur staðfesta að okkur er tekið fagnandi á markaði sem fyllir okkur öll stolti. Fjárhagsstaða PLAY er heilbrigð og það sama má segja um lausafjárstöðu fyrirtækisins. Fyrirtækið var enn rekið með tapi árið 2022 sem var viðbúið í ljósi þess að við erum sprotafyrirtæki í miklum vexti að bæta við flugvélum, áfangastöðum og starfsfólki auk þess sem við höfum verið að kynna nýtt vörumerki á markaði sem kostar bæði tíma og fjármuni. Við sjáum hins vegar skýra og jákvæða þróun sem staðfestir að við erum á réttri leið og munum fljótlega sjá hagnað af fjárfestingunum eftir því sem við verðum sterkari á markaði. Okkur hefur tekist mjög vel að halda kostnaði í lágmarki og það er frábært að sjá tekjurnar byrja að aukast sem er hárrétt uppskrift að árangri. Við sáum mjög jákvæða þróun í hliðartekjum á ársfjórðungnum þar sem sala á flugvöllum hefur farið vaxandi, vel gekk að hefja sölu á vöruflutningum og nú er hafin sala á nýjum fargjöldum sem eru bæði bót á sölu- og þjónustustigi og eykur hliðartekjur. Árið hefst á mjög sterkri bókunarstöðu og auknum einingatekjum sem fyllir okkur trausti um að tekjugrunnur okkar sé að þroskast og þróast á jákvæðan hátt. Sætaframboð okkar sumarið 2023 mun aukast um nærri 77% miðað við sumarið 2022 og við bætum fjórum nýjum flugvélum við flotann auk þess að taka á móti um það bil 200 nýjum starfsmönnum. Það er sönn ánægja að sjá liðsheildina styrkjast og vinna hörðum höndum að markmiðum okkar á árinu. Við hefjum nýtt ár full af orku og metnaði til að ná settu marki. Ég er sannfærður um að heimurinn er rétt að byrja að sjá hvað býr í þessu frábæra liði PLAY og það er ekki annað hægt en að vera auðmjúkur og glaður yfir því að fá að vera hluti af svona frábæru liði.”
PLAY velti 20 milljörðum í fyrra, afkoma var neikvæð en tekjuvöxtur öflugur
Sætanýtingin efldist til muna og góður tekjuvöxtur einkenndi árið 2022 hjá PLAY. Sætanýtingin nam 79,7% á árinu í heild og 80,3% á síðasta ársfjórðungnum. Á árinu 2022 flutti PLAY 789 þúsund farþega. PLAY spáir því að farþegar verði á bilinu 1,5 – 1,7 milljónir á árinu 2023 og að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á árinu. Sú spá byggir á fjölþættum grunni; sífellt auknum straumi farþega og samhliða því betri sætanýtingu; sterkri bókunarstöðu fram undan; auknum hliðartekjum í hverjum mánuði; talsverðum vexti á sviði vöruflutninga og loks stöðugu olíuverði. Um leið er fyrirséð að PLAY muni hagnast sífellt á aukinni meðvitund um félagið og trausti í garð þess, nú þegar það hefur haslað sér völl í harðri samkeppni fluggeirans.
Rekstrarafgangur var neikvæður á fjórða ársfjórðungi árið 2022 sem nemur 17,6 milljónum bandaríkjadala og fyrir árið í heild nam tapið 44,1 milljónum dala. Félagið á 36,2 milljónir bandaríkjadala í handbæru fé, þar af eru 6,6 milljónir í bundnum bankainnstæðum. Eiginfjárhlutfallið stóð í 11,6% við árslok og félagið hefur engar vaxtaberandi skuldir.
Tekjur félagsins á síðasta ársfjórðungi ársins 2022 námu 37,9 milljónum bandaríkjadala, samanborið við 9,7 milljónir dala á sama ársfjórðungi 2021.
Sala PLAY á flugvöllum jókst um 53% og vöruflutningar komust á flug
Tekjuvöxtur hefur verið mjög jákvæður hjá PLAY á fjórða ársfjórðungi. Á sama tíma hefur sala á flugvöllum aukist um 53% á hvern farþega á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs. Sú þróun hefur haldið áfram á fyrstu mánuðum ársins 2023.
Á síðari helmingi ársins 2022 hóf PLAY vöruflutninga og þar jukust tekjurnar með hverjum mánuði sem leið. Heildartekjur af vöruflutningum á fjórða ársfjórðungi voru 700 þúsund bandaríkjadalir. Gera má ráð fyrir frekari aukningu á þessu sviði á næstu mánuðum eftir því sem félagið hefur innreið á nýja markaði og fjölgar flugferðum.
Í janúar á þessu ári hóf PLAY að bjóða upp á ólíka pakka við bókun miða og nú geta farþegar valið á milli PLAY basic, PLAY value og PLAY flex þegar miðar eru bókaðir. Ólíkir fargjaldapakkar fela í sér ólík fríðindi svo sem forgang um borð, sæti að eigin vali, meiri farangursheimild, aukinn sveigjanleika og fleira. Þetta fyrirkomulag mun auka hliðartekjur félagsins enn frekar og bæta þjónustu við farþega á netinu.
Markaðshlutdeild PLAY af farþegum sem heimsækja Ísland jókst eftir því sem árið 2022 leið. Bókunarflæðið frá farþegum almennt og erlendum ferðaskrifstofum sem skipuleggja ferðir til Íslands hefur verið mjög gott. Á sama tíma eru farþegar almennt að bóka ferðalögin sín lengra fram í tímann. Bæði er til marks um það að vitund og traust til vörumerkisins PLAY hefur aukist.
Í desember hafði slæmt óveður á Íslandi allmikil neikvæð áhrif á rekstur félagsins, eða sem nemur um það bil 2,2 milljónum bandaríkjadala í töpuðum tekjum og öðrum kostnaði.
Markmið um einingakostnað náðust
Rekstrargjöld á fjórða ársfjórðungi námu 46,2 milljónum bandaríkjadala. Félagið hefur náð góðum árangri við að halda kostnaði niðri og markmið um að einingakostnaður, að frátöldum eldsneytiskostnaði, væri undir fjórum bandaríkjasentum náðust. Sá kostnaður á fjórðungnum nam 3,9 sentum og 4 sentum fyrir allt árið 2022.
Verð á eldsneyti er áfram hátt og var 38,3% af heildar rekstrargjöldum. Fjármagnstekjur og gjöld voru neikvæð um 11,4 milljónir árið 2022, þar af 8,1 milljón vegna vaxtagjalda af leiguskuldbindingum. Tap á fjórða ársfjórðungi nam 17,1 milljón dala.
Heildareignir PLAY námu 331,5 milljónum bandaríkjadala í árslok samanborið við 204,1 milljón í árslok 2021. Félagið tók þrjár Airbus 320neo flugvélar í rekstur á árinu og var með sex vélar í rekstri í árslok 2022. Á fyrri helming ársins 2023 mun félagið bæta við fjórum vélum. Áætluð aukning í afnotarétt leigueigna og leiguskuldbindinga vegna vélanna fjögurra á fyrri helming ársins 2023 nemur 160-180 milljónum. Viðskiptakröfur og aðrar kröfur samanstanda að mestu leyti af kröfum á færsluhirða félagsins (20,2 milljónir bandaríkjadala). Í árslok var fé á bankareikningum og verðbréf á vörslureikningum 36,2 milljónir, að meðtöldu bundnu fé. Eigið fé í árslok nam 38,5 milljónum dala og eiginfjárhlutfall var 11,6%.
Í nóvember 2022 jók PLAY hlutafé sitt um 16,1 milljón bandaríkjadala. Viðhalds- og leiguskuldbindingar eru vegna leigusamninga sem félagið hefur gert, aðallega í tengslum við rekstur flugvéla. Félagið er ekki með neinar ytri vaxtaberandi skuldir.
Metsala í janúar 2023
Flugreksturinn gekk mjög vel á fjórða ársfjórðungi og stundvísi mældist 91% sem er meiriháttar árangur fyrir nýtt flugfélag í vetrarmánuði. Á fjórða ársfjórðungi flaug PLAY til 22 áfangastaða, beggja vegna Atlantshafsins. Árið 2023 mun PLAY fljúga til 36 áfangastaða með tíu flugvélar í rekstri.
PLAY er í góðri stöðu til að halda jákvæðum tekjuvexti á lofti og ná markmiðunum fyrir árið 2023. Flugmiðasala hefur verið einstaklega góð á fyrstu vikum ársins og sölumet var slegið í janúar.
Frekari upplýsingar:
Streymi frá fjárfestakynningu, 15. febrúar 2022
PLAY mun kynna uppgjör sitt klukkan 16:15 þann 15. febrúar 2023. Birgir Jónsson, forstjóri, og Ólafur Þór Jóhannesson, fjármálastjóri, kynna uppgjörið. Kynningunni verður streymt hér: https://www.flyplay.com/investor-relations.