- Fréttir
PLAY bætir við sig portúgalskri perlu
PLAY bætir við sig portúgalskri perlu
Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarflugi til borgarinnar Faro í Portúgal. Fyrsta flugið verður laugardaginn 12. apríl, í tæka tíð fyrir páska á næsta ári. Flogið verður tvisvar í viku á laugardögum og miðvikudögum allt til 29. október.
Faro er höfuðborg Algarve-héraðs og er flugvöllurinn í um 15 mínútna fjarlægð frá borginni með bíl. Borgin er hvað þekktust fyrir nærliggjandi strandlengjuna, sjávarréttaveitingastaðina og aldagamla byggingarlist. Í nágrenni Faro má finna stórkostleg útivistarsvæði, mikilfenglegt landslag og einstakt dýra- og gróðurlíf. Næturlífið í Faro hefur einnig sinn sjarma og er það vel sótt af nemendum sem stunda háskólanám í borginni.
Faro er fjórði áfangastaður PLAY sem tilheyrir Portúgal. Fyrir flýgur Play til borganna Lissabon og Porto og mun hefja flug til portúgölsku eyjunnar Madeira í haust.
„Við erum með þá stefnu að vera leiðandi í flugi til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi og nýjasti áfangastaðurinn okkar Faro er enn ein viðbótin við þá glæsilegu áætlun sem við bjóðum til sólríkra landa í suðurhluta Evrópu. Íslendingar hafa tekið vel í sólarlandaflugin okkar og ég á ekki von á öðru en að ævintýralegt umhverfi Faro hljómi vel í eyrum veðurbarinna Íslendinga” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.