Skoða efni
27. Jul 2023

PLAY stækkar tengiflugsleiðakerfið frekar með Frankfurt

Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til Frankfurt í Þýskalandi. Fyrsta flug PLAY til Frankfurt verður 14. desember og verður flogið að jafnaði fjórum til fimm sinnum í viku yfir veturinn.

 

Frankfurt mun tengjast við áfangastaði PLAY í Norður-Ameríku sem eru Boston, Baltimore, New York og Washington DC í Bandaríkjunum ásamt Toronto í Kanada. Frankfurt er fjórði áfangastaður PLAY í Þýskalandi en fyrir flýgur félagið allt árið um kring til Berlínar og er með áætlunarferðir til Düsseldorf og Hamborgar í sumar.

PLAY mun fljúga til Frankfurt alþjóðaflugvallarins (FRA) sem er í aðeins 20 mínútna fjarlægð frá borginni en hún er hvað þekktust fyrir framúrskarandi listsköpun, söfn, tilkomumikla skýjakljúfa og heillandi hverfi. 

 

„Það er frábært að geta bætt enn frekar við tengiflugsleiðakerfið okkar nú þegar eftirspurn í Norður-Ameríku eftir flugi yfir Atlantshafið er mikil. Tekjur af farþegum komandi frá Norður-Ameríku eru mun hærri en áður og þess vegna er þetta góður tími til að bæta enn frekar framboðið á þeim markaði. Með tíu farþegaþotur í yngsta flota Evrópu erum við vel í stakk búin til að stækka leiðakerfið okkar og skapa um leið tekjur í góðu jafnvægi við kostnað,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.