Skoða efni
25. Jul 2024

Aukning í tekjum og traust lausafjárstaða

PLAY aircraft with blue sky in background
  • - PLAY flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi 2024, sem er 13% aukning frá öðrum ársfjórðungi 2023 þegar félagið flutti 392 þúsund farþega.. 
  • - Lausafjárstaða félagsins var 51,4 milljónir bandaríkjadollara, 7 milljarðar íslenskra króna, við lok annars ársfjórðungs.
  • - Sætanýting í fjórðungnum var 86%, samanborið við 85% í fyrra.
  • - Stundvísi PLAY var 89% á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 84% í fyrra.
  • - Tekjur jukust um 7% milli ára, úr 73,1 milljón bandaríkjadollara á öðrum ársfjórðungi í fyrra í 78,3 milljónir bandaríkjadollara á öðrum ársfjórðungi 2024. 
  • - Hliðartekjur á farþega jukust um 8% á milli ára, úr 51 bandaríkjadollar á öðrum ársfjórðungi í fyrra í 55 bandaríkjadollara á öðrum ársfjórðungi í ár. 
  • - Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á öðrum ársfjórðungi 2024 var neikvæð um 4,5 milljónir bandaríkjadollara. Aukið framboð á beinu flugi yfir Atlantshafið og markaðssókn nágrannaþjóða til að laða að ferðamenn hafði neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna.
  • - Áætlanir gera ráð fyrir miklum framförum á rekstrarniðurstöðu fyrir 2024, samanborið við  2023. 
  • - Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) var 5,4 bandaríkjasent á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 5,2 bandaríkjasent í fyrra. Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) var 3,8 bandaríkjasent samanborið við 3,5 bandaríkjasent á sama tíma í fyrra. Einingakostnaður hækkaði aðallega vegna viðhalds og aðlögunar á framboði.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri


Annar ársfjórðungur var sá stærsti í rekstri PLAY sem flutti 442 þúsund farþega, sem er 13% aukning frá fyrra ári, 7% aukning varð á heildartekjum og 8% aukning í hliðartekjum. Á sama tíma jókst sætanýting um 1 prósentustig meðfram 12% aukningu í framboðnum sætiskílómetrum. Meðfram allri þessari aukningu var stundvísi PLAY 89%, sem gerir okkur að stundvísasta flugfélaginu með brottfarir frá Keflavíkurflugvelli. Það er frábær niðurstaða hjá samstarfsfólki mínu og sýnir þá miklu fagmennsku sem býr í teyminu okkar. 

Rekstrarniðurstaða annars ársfjórðungs var lituð af lakari frammistöðu í tengifluginu yfir Atlantshafið. Þar á stærstan þátt umtalsverður vöxtur í framboði á beinu flugi yfir Atlantshafið. Flugfélög hafa hins vegar dregið úr framboði fyrir haustið og veturinn, sem mun draga úr vextinum ef tekið er mið af útgefnum áætlunum. Árstíðarsveiflur í eftirspurn eru mun meiri nú en fyrir heimsfaraldurinn vegna þess að vinnutengd ferðalög hafa ekki náð sömu tíðni og áður. 

Sökum þess hefur PLAY aðlagað áætlun sína til Norður-Ameríku fyrir haustið og veturinn til að koma betur til móts við árstíðarbundnar sveiflur í eftirspurn. Á sama tíma höfum við ákveðið að auka framboð á sætum til núverandi og nýrra sólarlandaáfangastaða í Evrópu og Afríku sem eru arðsamari. 

Við fundum ennþá fyrir áhrifum sem jarðhræringar og eldgos höfðu á eftirspurn eftir flugi til landsins á öðrum ársfjórðungi og þá litaði það einnig niðurstöðu annars ársfjórðungs að páskarnir voru á fyrsta ársfjórðungi 2024 en ekki í apríl eins og í fyrra. 

Þá höfum við einnig þurft að eiga við fækkun ferðamanna á Íslandi, sem er að okkar mati bein afleiðing öflugs markaðsstarfs nágrannaþjóða okkar við að laða ferðamenn til sín. Þessar þjóðir vörðu 21 milljón evra í markaðssetningu til ferðamanna, og var 92% af því fjármagni frá hinu opinbera. Ísland þarf á stóru markaðsátaki að halda til að laða ferðamenn til landsins og ég trúi því að það sé hægt með samhentum aðgerðum íslensku ferðaþjónustunnar og yfirvalda. 

Við það má bæta að öryggi spilar stórt hlutverk þegar kemur að vali ferðamanna á næsta áfangastað. Borið hefur á þeim misskilningi erlendis að Ísland sé ekki öruggur áfangastaður vegna jarðhræringa og eldgosa. Það þarf að vinna bug á þessum misskilningi sem er vel hægt að gera með öflugri herferð. 

Þrátt fyrir að niðurstaða fyrstu sex mánaða þessa árs hefði mátt vera betri, þá lítum við björtum augum á það sem eftir lifir árs. Við höfum aðlagað áætlun okkar að árstíðarsveiflum og vinnum stöðugt að því að halda kostnaði okkar eins lágum og mögulegt er og höfum því gripið til aðgerða til að draga úr kostnaði fyrirtækisins. Þá er bókunarstaða okkar sterk inn á fjórða ársfjórðung. 

Sjóðsstreymi í öðrum ársfjórðungi var minna en á sama tíma í fyrra, að mestu vegna þess að vöxtur okkar var minni milli fjórðunga í ár og einnig vegna ögn verri fjárhagsniðurstöðu. 

Staða okkar er mjög traust, við höfum stöðugt bætt reksturinn á hverju ári og munum halda því áfram, og munum hér eftir sem áður bjóða fólki upp á flug á frábæru verði til spennandi áfangastaða.

13% aukning í farþegatölu og framúrskarandi stundvísi

PLAY flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi 2024, sem er 13% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar PLAY flutti 392 þúsund farþega. Þessi aukning er eftirtektarverð þegar litið er til þess að sætanýting jókst úr 85% í 86% á milli ára en þar að auki jukust framboðnir sætiskílómetrar (ASK) um 12% á milli ára. 

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY á öðrum ársfjórðungi var 31% í leið frá Íslandi, 25% voru á leið til Íslands og 44% voru tengifarþegar (VIA).

Flugrekstur gekk vel á ársfjórðungnum, en stundvísi PLAY var 89%, sem er langt yfir ársmarkmiðinu um 85% stundvísi. 

PLAY var með 10 farþegaþotur í rekstri á ársfjórðungnum, samanborið við 9 á sama tíma í fyrra. PLAY flaug til 36 áfangastaða, samanborið við 34 á sama tíma í fyrra. PLAY hóf flugáætlun sína til Vilníus í Litháen og Split í Króatíu á ársfjórðungnum og hóf aftur árstíðabundna flugáætlun til margra sólarlandaáfangastaða. 

PLAY hefur einnig aukið samstarf sitt við ferðatæknifyrirtækið Dohop, svo nú er hægt að bóka tengiflug í gegnum eina bókun í PLAY Connect. Þetta þýðir að fjöldi nýrra áfangastaða stendur nú farþegum PLAY til boða víðsvegar um heiminn í samstarfi við önnur flugfélög. Frá því um miðjan maí hafa farþegar getað bókað tengingar til áfangastaða á borð Texas og Kýpur frá Íslandi. 

Þar að auki tilkynnti PLAY um samstarf við GO7 sem fjölgar dreifingarmöguleikum félagsins. Flugferðir á vegum PLAY standa nú til boða í gegnum dreifikerfið GDSs (Global Distribution Systems) sem gerir ferðaskrifstofum um allan heim kleift að bóka flug með PLAY á auðveldan hátt, sem er afar mikilvægt á mörkuðum þar sem GDS er ráðandi.  

Þá var PLAY valið fremsta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu annað árið í röð, samkvæmt árlegum lista World Airline Awards sem byggir á umsögnum flugfarþega. Þá hækkaði flugfélagið sig um fjögur sæti á lista yfir 100 bestu flugfélög heimsins, fór úr 91. sæti árið 2023 í 87. sæti árið 2024.  

The World Airline Awards hafa verið veitt frá árinu 1999 og eiga sér því 24 ára sögu. Verðlaunin eru byggð á umsögnum farþega á síðunni Skytrax sem er gerð út frá London. Þá var PLAY í þriðja sæti yfir þau flugfélög í heiminum sem höfðu tekið mestum framförum.

Fjárhagsstaða

Heildartekjur á öðrum ársfjórðungi voru 78,3 milljónir bandaríkjadollara, sem er 7,1% aukning frá sama tíma í fyrra þegar heildartekjur voru 73,1 milljón bandaríkjadollara. Aukning á framboðnum sætiskílómetrum (ASK) á milli ára var 12%. Hliðartekjur jukust sömuleiðis um 18% á milli ára, úr 20,6 milljónum bandaríkjadollara á öðrum ársfjórðungi 2023 í 24,3 milljónir bandaríkjadollara á öðrum ársfjórðungi 2024. 

Kostnaður á hvern sætiskílómetra (CASK) hækkaði um 3% á milli ára, úr 5,23 bandaríkjasentum í 5,37 bandaríkjasent. Kostnaður á hvern sætiskílómetra að undanskildu eldsneyti (Ex-fuel CASK) hækkaði um 8% á milli ára, úr 3,50 bandaríkjasentum í 3,78 bandaríkjasent. Nokkrir þættir stuðla að hærri einingakostnaði. Dregið var úr framboði í apríl í kjölfar mikilla anna í kringum páska sem hækkaði einingakostnaðinn í apríl. Viðhaldskostnaður var hærri í ár vegna skipulagðs viðhalds á hreyflum sem krafðist leigu á varahreyflum. Þá hækkaði flugvallakostnaður vegna þess að hvatar fyrir nýjar flugleiðir voru ekki lengur til staðar á sumum flugvöllum ásamt hækkunum á gjöldum á Keflavíkurflugvelli. Þá var kostnaður hærri vegna markaðssetningar til að stemma stigum við mikilli samkeppni á flugi yfir Atlantshafið og viðvarandi neikvæðra áhrifa vegna jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesskaga. 

Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) var 5,1 bandaríkjasent, samanborið við 5,3 bandaríkjasent á sama tíma í fyrra. Einingatekjur urðu fyrir áhrifum af því að páskar komu upp á fyrsta ársfjórðungi í ár, en ekki í öðrum ársfjórðungi eins og í fyrra, og aukinni samkeppni í flugi yfir Atlantshafið sem leiddi til lægri verða, og einnig minni eftirspurnar eftir flugi til Íslands. Einingatekjur lækkuðu því um 4% frá fyrra ári. Evrópumarkaðurinn sýndi framfarir á milli ára en hins vegar var Norður-Ameríkumarkaðurinn lakari borið saman við fyrra ár. 

Rekstrarniðurstaðan (EBIT) var neikvæð um 4,5 milljónir bandaríkjadollara á öðrum ársfjórðungi, samanborið við neikvæða niðurstöðu um 0,9 milljónir bandaríkjadollara á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það voru jákvæð teikn í liðnum ársfjórðungi þar sem bæði maí og sérstaklega júní skiluðu betri fjárhagsniðurstöðu í ár en í fyrra. 

Lausafjárstaða PLAY í lok annars ársfjórðungs var 51,4 milljónir bandaríkjadollara, að meðtöldum bundnum bankainnistæðum. Sjóðstreymi var jákvætt um 5,7 milljónir bandaríkjadollara. PLAY hefur engar vaxtaberandi skuldir. 

Horfur

PLAY mun ekki veita leiðsögn um horfur í rekstri fyrir 2024 en hefur sagt í fyrri tilkynningum að rekstrarniðurstaða verði mun betri en í fyrra. 

Frekari upplýsingar:

Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY, mun fara yfir niðurstöður félagsins fimmtudaginn 25. júlí klukkan 16:15. Mun kynningin verða á ensku í vefstreymi á eftirfarandi slóð: https://www.flyplay.com/financial-reports-and-presentationsHlekkur opnast í nýjum flipa


Fjárhagsdagatal

Q3 2023 24. október 2024

Q4 2023 7. febrúar 2025