- Fréttir
Salan er hafin hjá PLAY
Salan er hafin hjá PLAY
- Sjö áfangastaðir: Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn, London, París og Tenerife.
- 1.000 frí sæti falin á www.flyPLAY.com
- PLAY býður sveigjanlega bókunarskilmála vegna COVID-19
PLAY hóf sölu farmiða snemma í morgun og hefur aðsókn verið mikil á vefsíðu flugfélagsins. Fyrstu sjö áfangastaðir PLAY eru Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn, London, París og Tenerife. Núverandi flugáætlun gildir út apríl 2022. Fyrsta flug félagsins verður til London Stansted 24. júní.
Þess hefur verið beðið með eftirvæntingu að PLAY hefji sölu og að áfangastaðir flugfélagsins líti dagsins ljós. Félagið, sem er að verða tveggja ára gamalt, efndi gamalt loforð til þeirra sem höfðu skráð sig á póstlista PLAY en þeim var gefið forskot á sæluna og fengu fyrstir tækifæri til að næla sér í þau 1.000 fríu flugsæti sem eru falin á www.flyPLAY.com.
Enn er möguleiki á að bóka frítt flugsæti og þurfa áhugasamir að hafa hraðar hendur til þess að ganga frá bókun.
„Við erum auðvitað alsæl með að sala sé loksins hafin. Viðtökur hafa verið mjög góðar og við erum ánægð með þennan áhuga sem Íslendingar sýna nýju flugfélagi. Það má alltaf fagna samkeppni á íslenskum markaði“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.
Um helgina tilkynnti PLAY að félagið hefði fengið flugrekstrarleyfi en þar kom fram að fyrstu flugvélar félagsins eru nýlegar, hagkvæmar og öruggar Airbus A321NEO.
PLAY býður upp á sveigjanlega skilmála vegna COVID-19 þar sem aðstæður geta skiljanlega breyst og það getur verið stressandi að skipuleggja ferðalög í heimsfaraldri. Með sérstökum sveigjanlegum skilmálum er reynt að tryggja eftir fremsta megni að ferðaupplifunin sé góð og að fólk geti bókað áhyggjulaust flug í fríið.