- Fréttir
Stærsti mánuður PLAY frá upphafi. Sætanýting 91% og yfir 191 þúsund farþegar.
Stærsti mánuður PLAY frá upphafi. Sætanýting 91% og yfir 191 þúsund farþegar.
Flugfélagið PLAY flutti 191.577 farþega í júlí sem er nýtt met í sögu flugfélagsins. Farþegafjöldinn er 19% meiri samanborið við júní þegar PLAY flutti 160.979 farþega, sem var einnig metmánuður.
PLAY bætti ekki aðeins eigið met í fjölda farþega í júlí, heldur líka eigið met í sætanýtingu í júlí en hún var 91,1%, sem gerir júlí 2023 að stærsta mánuði PLAY frá upphafi. Þrátt fyrir met mánuð í farþegafjölda og miklar annir á flugvöllum víðsvegar þá gekk flugrekstur vel þar sem stundvísi var 80,2% í júlí.
Af þeim farþegum sem PLAY flutti í júlí 2023 voru 26,8% sem ferðuðust frá Íslandi, 32,1% voru á leið til Íslands og 41,1% voru tengifarþegar (VIA farþegar).
Í þessum metmánuði mátti greina mikla eftirspurn eftir flugferðum í Norður-Ameríku þar sem tekjur á farþega eru mun hærri en í fyrra. Áfangastaðir PLAY í Norður-Ameríku voru með yfir 90% sætanýtingu í júlímánuði og er bókunarstaðan góð á þeim mörkuðum á komandi mánuðum. Einnig má sjá mikla eftirspurn frá áfangastöðum okkar í Evrópu á borð við Kaupmannahöfn, London, París og sólarlandaáfangastöðum sem voru með sætanýtingu vel yfir 90% í júlí.
Í júlí árið 2022 flutti PLAY 109,937 farþega, sem þýðir að aukningin á milli ára er 74% þegar kemur að farþegafjölda. Sætanýtingin jókst einnig á milli ára, úr 87,9% í júlí árið 2022 í 91,1% í júlí 2023.
PLAY hefur aukið markaðshlutdeild sína á Íslandi samhliða aukinni vitund um félagið og auknu trausti á markaði. Í júní 2023 völdu 54% allra Íslendinga sem ferðuðust frá Íslandi PLAY. Þetta er skýrt merki um að PLAY er á góðri leið með að verða fyrsta val Íslendinga.
Frá liðnu vori hefur PLAY bætt við sig 20 áfangastöðum, ýmist nýjum eða enduropnað þá sem voru einnig í leiðakerfi félagsins í fyrra.
Nýr áfangastaður og PLAY tilnefnt til bresku ferðaverðlaunanna
PLAY hóf miðasölu á áætlunarferðum til þýsku borgarinnar Frankfurt í júlí. Fyrsta flug PLAY til Frankfurt verður 14. desember næstkomandi en flogið verður fjórum til fimm sinnum í viku yfir veturinn. Frankfurt mun tengjast við tengiflug PLAY til Norður-Ameríku en borgin er fjórði áfangastaður félagsins í Þýskalandi ásamt Berlín, Düsseldorf og Hamborg.
PLAY hefur verið tilnefnt sem besta lággjaldaflugfélagið á bresku ferðaverðlaununum British Travel Awards. Það eru farþegar sem greiða atkvæði um hvaða lággjaldafélag er það besta. Það er mikil og góð viðurkenning fyrir PLAY að vera tilnefnt ásamt þekktum flugfélögum sem eiga sér á langa sögu, en PLAY hóf flugrekstur fyrir einungis tveimur árum..
Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:
„Í kjölfar góðrar niðurstöðu á öðrum ársfjórðungi þar sem við sáum 15 milljóna bandaríkjadala viðsnúning á rekstri PLAY úr rekstrartapi í rekstrarhagnað frá sama fjórðungi í fyrra, erum við ánægð að geta tilkynnt að liðinn júlímánuður voru enn ein tímamót í sögu flugfélagsins. Í fyrsta sinn fór sætanýting í 91.1% á einum mánuði og fjöldi farþega yfir 191 þúsund, sem er 74% aukning frá sama mánuði í fyrra. Sumarvertíðin, sem öllu máli skiptir á þriðja ársfjórðungi, lítur vel út með hækkandi tekjum og mikilli eftirspurn. Sem fyrr erum við afar stolt af markaðshlutdeildinni sem við höfum náð á Íslandi en 54% Íslendinga sem ferðuðust af landi brott í júní völdu PLAY. Það er mikið traust sem okkur er sýnt á okkar þriðja sumri í flugrekstri og skýrt merki um að við höfum áunnið okkur sess á þeim mikilvæga markaði sem Ísland er okkur. Það er frábær tilfinning að sjá rekstur PLAY vera kominn á beinu brautina og fylgjast með mínu frábæra samstarfsfólki sem á degi hverjum leggur sig allt fram við að þjónusta farþegana okkar sem best og sjá til þess að þeir komist öruggir á áfangstað á réttum tíma og á sem besta verði.”