- Blogg
Æðislegar eyjar nálægt Aþenu
Æðislegar eyjar nálægt Aþenu
Aþena sjálf er stórkostlegur áfangastaður en höfuðborg Grikklands er að sjálfsögðu stórborg. Fyrir þá sem fá nóg af borgarlífinu er stutt að fara til margra dásamlegra grískra eyja undan ströndinni. Það er þægilegt að taka ferju frá höfninni í Aþenu og þá er stutt að fara á margar nálægar eyjar, eða innan við tveir tímar í flestum tilfellum.
Æðislegar eyjar nálægt Aþenu
Sem dæmi um eyjar í þægilegri fjarlægð frá Aþenu má nefna Hringeyjarnar (Cyclades) Andros og Tinos og Saronic-eyjarnar Aegina og Hydra. Mun fleiri eyjar er síðan að finna í aðeins meiri fjarlægð en þá er ekkert mál að fljúga þangað í stuttu innanlandsflugi. Þeirra á meðal eru m.a. Santorini, Mykonos, Krít, Milos, Ródos, Skiathos og fleiri sem þekktar eru fyrir dásamlegt umhverfið og góða heimsborgarastemningu.
Þeir sem eru staddir í Aþenu ættu að gefa sér að minnsta kosti einn dag til að skoða eyjarnar sem eru í þægilegri siglingarfjarlægð frá borgarhöfninni Piraeus. Við höfum tekið saman helstu upplýsingar um nokkrar grískar paradísareyjar sem henta hvað best í dagsferð frá Aþenu.
1. Aegina
Af grísku eyjunum er Aegina næst höfuðborginni en siglingin þangað frá Piraeus-höfn tekur aðeins um 40 mínútur. Þessi eyja er full af stórbrotinni menningu og náttúru. Margir Aþenubúar eiga sumarbústaði hér og það er vinsælt meðal borgarbúa að fara í helgarferð til Aegina.
Þeir sem leggja leið sína til Aegina ættu ekki að láta eftirfarandi fram hjá sér fara:
· Hið forna Aphaia-hof sem var reist á árunum 500-490 f.Kr.
· Risastórt Agios Nektarios klaustrið, einn af mikilvægustu trúarlegu áfangastöðum Grikklands.
· Aegina-bærinn með sínum kræklóttu götum, litríku húsum, gamaldags krám og hestvögnum.
· Sögufræg Paleochora-borg frá miðöldum en þar er m.a. að finna 40 býsanskar kirkjur með vel varðveittum freskum og helgimyndum.
· Gullfallegi bærinn Perdika sem er þekktur fyrir hvítþvegin hús og magnað sólarlag.
· Moni, eyðieyjan á móti þorpinu Perdika sem er frábær áfangastaður fyrir þá sem vilja flýja aðeins út í friðsæla náttúruna.
Aegina er full af frábærum og vel útbúnum ströndum en við mælum sérstaklega með Agia Marina og Klima. Auk þeirra er mikið úrval af náttúrulegum ströndum og friðsælum víkum s.s. Kolona-strönd. Aegina er tilvalinn áfangastaður fyrir dagsferð út úr borginni en hér er líka auðveldlega hægt að verja heilu vikunum og hafa nóg fyrir stafni.
2. Agistri
Frá Aegina er stutt sigling yfir til litlu eyjunnar Agistri en ferjusigling þangað frá Piraeus-höfn í Aþenu tekur um klukkustund.
Þrátt fyrir þessa nálægð við stórborgina er Agistri þekkt fyrir einstaklega afslappað og friðsælt andrúmsloft Hér er að finna einhverjar bestu strendur svæðisins og þetta er frábær staður fyrir þá sem vilja slappa af og láta alla streitu líða úr sér.
En þótt þessi yndislega eyja sé eins og hönnuð til að gera sem minnst mælum við með eftirfarandi dagskrá ef leiðin liggur um Agistri:
· Veldu þér strönd til að flatmaga á, s.s. Aponisos, Mariza, Halikiada, og Dragonera.
· Leigðu þér hjól til að skoða eyjuna á eigin hraða.
· Veldu þér fallega gönguleið í skóglendinu.
· Fáðu þér dýrindis sjávarrétti á hafnarbakkanum í Scala og Megalochori.
Þeir sem vilja bara slappa af í náttúrunni og komast aðeins út úr borginni finna ekki betri áfangastað en Agistri. Þetta er yndislegur áfangastaður og tilvalinn fyrir dagsferð frá Aþenu en hér má að sjálfsögðu líka liggja í sólbaði dögum saman.
3. Poros
Poros-eyja í Saronic-eyjaklasanum er ekki langt frá Peloponnese-skaga á meginlandi Grikklands.
Poros er vinsæll viðkomustaður þegar farið er í dagsferðarsiglingar frá Aþenu til eyjanna Aegina og Hydra. Ef skipulagðar dagsferðir eru ekki á dagskrá má næla sér í far með Flying Dolphin bátunum til Poros en sú sigling tekur aðeins klukkutíma og korter frá Piraeus-höfn.
Við mælum sérstaklega með eftirfarandi dagskrá á Poros:
- Hafnarbærinn er frábær staður til að rölta um og skoða falleg og sjarmerandi húsin og gamla klukkuturninn.
- Fornminjasafn Poros er mjög fræðandi fyrir þá sem vilja vita meira um ríka og merkilega sögu eyjunnar.
- Rústir Póseidon-hofsins er stórbrotinn staður til að skoða.
- Gullfalleg málverkin í Dómkirkju heilags Georgs.
- Magnaða klaustrið Zoodochos Pigi.
Poros er sú eyja Saronic-eyjaklasans þar sem er að finna hvað mest af gróðri og því er auðvelt að finna sér skugga og skjól á dásamlegum baðströndunum. Ferðamenn sem hafa unun af útivist geta notið þess að hjóla, ganga og synda í dásamlegu umhverfi á þessari paradísareyju.
4. Spetses
Eyjan Spetses er líka góður valkostur fyrir þá sem vilja kynnast Saronic-flóa betur. Af þeim eyjum sem fjallað er um í þessu bloggi er Spetses fjærst Aþenu, en siglingin þangað tekur um tvo tíma og korter.
Fjölþjóðamenning eyjunnar hefur gert Spetses að vinsælum ferðamannastað. Vegna nálægðarinnar við Aþenu og góðra innviða slær Spetses iðulega í gegn meðal ferðamanna.
Á Spetses mælum við helst með eftirfarandi:
- Röltu um hafnarsvæðið og njóttu sögufrægs umhverfisins og sjarmerandi nýuppgerðra húsanna.
- Skoðaðu sýningar tileinkaðar heimsins fyrstu konu til að gegna stöðu aðmíráls, Laskarina Bouboulina á safninu í elsta hverfi borgarinnar, Kasteli.
- Slappaðu af á kaffihúsi eða á sjarmerandi krá í Dapia-hverfinu sem er í spennandi uppbyggingu.
- Njóttu alls konar útivistar svo sem að synda í sjónum, hjóla og fara á hestbak.
5. Hydra
Gríska eyjan Hydra er þekkt sem ein fjölbreyttasta og framsæknasta eyja Grikklands. Siglingin frá Piraeus-höfn í Aþenu tekur um einn og hálfan tíma og fyrir vikið er Hydra vinsæll áfangastaður fyrir helgarferðir Aþenubúa. Hydra er stórkostlegur áfangastaður fyrir þá sem vilja slaka á í rólegu umhverfi en fá á sama tíma menningarinnspýtingu úr umhverfinu. Hér bjó enda sjálfur Leonard Cohen ásamt Suzanne sem hann átti síðar eftir að skrifa gullfallegt lag um og hér er fjöldinn allur af fornum rústum og arkitektúr. Í ofanálag er dvöl á Hydru hálfgert tímaferðalag því á eyjunni eru engir bílar.
Á Hydru mælum við sérstaklega með:
- Húsaskoðun um sögufræg og virðuleg húsin og söfn eyjunnar.
- Gönguleiðir um hæðir og ólíkar strendur eyjunnar.
- Klaustur St. Eupraxia og samhliða klaustur spámannsins Elíasar
6. Andros
Rafina-höfn er að finna um klukkutíma fyrir utan miðborg Aþenu en þaðan er hægt að komast til eyjunnar Andros. Ferjur frá Rafina til Andros taka um klukkustund á hraðferð en tvær í hægari yfirferð.
Andros er næststærsta eyja Hringeyjanna á eftir Naxos. Þetta er sannkölluð náttúruparadís en hér er að finna fleiri en 170 gullfallegar strendur, sjarmerandi smábæi og hér er sannarlega nóg við að vera.
Í Andros ber helst að nefna:
· Feneyjarvirkið í Chora, stærstu borg Andros.
· Fornminjasafn Chora og nútímalistasafn borgarinnar.
· Ólífusafn Ano Pitrofos, safn sem er tileinkað ræktun ólífutrjáa og framleiðslu ólífuolíu.
· Fjölmargar og skemmtilegar gönguleiðir.
· Dýrðlegar víkur og strendur eyjunnar.
7. Kea
Hringeyjan Kea (eða Tzia) er mjög skammt undan ströndum Grikklands en siglingin þangað tekur um klukkutíma frá Lavrio-höfn sem er nálægt Sounion-höfða.
Kea er að mörgu leyti frábrugðin hinum Hringeyjunum. Hér eru engin dæmigerð hvítþvegin hús eða bláar kirkjur úr kunnuglegum póstkortum frá Grikklandi heldur brúnleit og gráleit steinhús en þeim fylgir annars konar sjarmi.
Á Kea mælum við sérstaklega með eftirfarandi:
- Ioulida, höfuðstaður Kea, er frábær áfangastaður og hér er eiginlega skyldumæting í skoðunarferð um kastalann og fornminjasafnið.
- Ein besta hlið Kea er að sjálfsögðu gullfalleg strandlengjan og þá mælum við sérstaklega með Korrisia, Koundouros og Gialiskari.
- Uppgröftinn við rústir Karthea.
- Fallegir bæir á borð við Otzias, Korissia og Vourkari.
Kea hefur tekist að viðhalda sérstökum og sögufrægum karakter sínum þrátt fyrir nálægðina við Aþenu og eyjan er því vinsæll áfangastaðir hvort sem fólk er á leið í dagsferð eða lengra frí.
Að lokum...
Aþena er stórfengleg stórborg og verðugur áfangastaða fyrir alla en þegar til Aþenu er komið er svo stutt að skoða hina hliðina á Grikklandi, paradísareyjurnar sem eru margar hverjar steinsnar frá höfuðborginni. Leyfðu þér í það minnsta dagsferð um þessa stórfenglegu stemningu og heimsfrægt afslappað andrúmsloftið á eyjunum undan ströndum Grikklands og njóttu vel.