- Blogg
Ævintýri og upplifun í Prag
Ævintýri og upplifun í Prag
Prag er töfrandi borg í miðri Evrópu sem á sér meira en þúsund ára sögu. Gullfalleg miðaldastræti borgarinnar, magnaðar kirkjur í barokkstíl, sögulegar brýr og ævintýralegir sjónásar laða til sín milljónir ferðamanna árlega og ekki að ástæðulausu.
Að ganga um stræti Prag er eins og að stíga inn í ævintýri en hápunkturinn á menningarlegri upplifun borgarinnar er þessi spennandi blanda af endurreisn og nýsköpun, klassík og nýjustu tísku.
Í Prag er að finna magnaðan arkitektúr á heimsmælikvarða en borginni tekst engu að síður að viðhalda sínum sérstaka sjarma. Við bakka Moldár er að finna mesta póstkortaútsýni Evrópu í allar áttir og það er hrein unun að einfaldlega líta í kringum sig á þessum slóðum. Þetta er borg þar sem fólk elskar að borða góðan mat og drekka góðan bjór og hér er hrein ofgnótt af menningarviðburðum og afþreyingu og fyrir vikið líður flestum eins og heima hjá sér í þessari borg sem virkar of góð til að vera sönn.
Það er nóg að sjá og gera (og borða og drekka) í Prag og auðvelt að tapa áttum. Við höfum því tekið saman lista yfir allt sem þú þarft að vita um þessa raunverulegu ævintýraborg.
Sögufrægir staðir
Listinn af sögulegum viðburðum sem hafa átt sér stað í Prag er ansi langur og það sama má segja um magnaða byggingarlistina. Eftirfarandi eru staðir sem þú mátt alls ekki láta fram hjá þér fara.
Prag kastali
Þessi magnaði kastali hefur hýst marga leiðtoga Tékklands og er í dag forsetabústaður landsins. Hann skiptist í marga hluta: Dómkirkja heilags Vitusar, gamla konungshöllin, Basilíka heilags Georgs, Daliborka-turn, Púðurturninn og Rosenborg-höllin. Kastalinn í Prag er stærsti forni kastali í heimi. Hann situr rétt fyrir ofan borgina og hér er öllu til tjaldað. Gotneskir spíralar, bogar, ufsagrýlur og tilheyrandi skreytingar ljá þessum kastala yfirburðastöðu sem stórbrotnasti miðaldakastali Evrópu.
Skemmtileg staðreynd: Kastalinn í Prag er á heimsminjaskrá UNESCO.
Stjörnuklukkan
Framan á gamla ráðhúsinu við aðaltorgið í gamla bænum er að finna þessa mögnuðu stjörnuklukku sem á rætur sínar að rekja aftur til 15. aldar. Klukkan sýnir vegfarendum stöðu himintunglanna, s.s. tunglganginn og jafndægur en hún er líka stórfenglegt listaverk í sjálfu sér. Þetta er heillandi gangvirki sem sýnir borgurum ýmis varnaðartákn fyrir þá sem stunda forboðinn lífsstíl, s.s. græðgi, hégóma og dauða í bland við gagnlegar upplýsingar. Klukkan er þó fyrst og fremst falleg og passar fullkomlega inn í þetta ævintýralega umhverfi gömlu borgarinnar. Tíma þínum er sannarlega vel varið í að skoða þessa stjörnuklukku og eitt frægasta kennileiti borgarinnar.
Skemmtileg staðreynd: Sagan segir að klukkusmiðurinn hafi verið blindaður af leiðtogum borgarinnar af ótta við að hann myndi endurgera klukkuna í öðrum borgum. Það reyndist þó léleg trygging því nákvæma eftirlíkingu klukkunnar má í dag finna í Suður-Kóreu.
Karlsbrúin
Það er eiginlega skyldumæting í göngu yfir Karlsbrúna fyrir alla sem heimsækja Prag. Brúin þverar Moldá og hún var 50 ár í byggingu. Heimsfrægir steinarnir sem mynda þessa brú eiga sér nærri 700 ára sögu og sjóaðir ferðalangar sem hafa oft komið til Prag neita sér ekki um að eiga stund með Karlsbrúni þrátt fyrir fjölda ferðamanna. Við mælum með því að fólk vakni snemma og gangi yfir brúna við sólarupprás til að upplifa eitthvert ævintýralegasta útsýni Evrópu með eigin augum.
Skemmtileg staðreynd: Það er töluverður draugagangur á Karlsbrú en sagan segir að hér sé um að ræða anda þeirra hvers höfuð enduðu á spjótum við brúna á blóðugri tíma í sögu Prag.
Josefov
Josefov-hverfið er oft kallað gyðingahverfi Prag en sorgleg saga þessa svæðis hófst á 13. öld þegar gyðingum var smalað saman með valdi á þetta eina svæði í Prag. Josefov liggur á milli Moldár og gömlu borgarinnar og þar er að finna elsta bænahús gyðinga í Evrópu sem er enn starfandi. Í gyðingakirkjugarðinum er að finna fleiri en 12.000 grafir en sumar þeirra liggja hver ofan of annarri. Þetta er elsti þekkti kirkjugarður sinnar tegundar og sorgleg áminning um erfiða sögu og þjáningu þessa jaðarsetta hóps.
Þjóðlegir réttir
Prag er kannski ekki þekktust fyrir matarlistina en hún á samt sína klassísku slagara. Heitir og heilnæmir þjóðlegir réttirnir geta lagað næstum allt og svo er það gúllasið. Ef eitthvað bjátar á og maturinn dugar ekki til, er alltaf nóg af bjór í boði.
Skemmtileg staðreynd: Prag er heimili pilsnersins og heimsmeistari í bjórdrykkju miðað við höfðatölu.
Svíčková
Þú þarft ekkert að læra framburðinn og láttu ritháttinn ekki hræða þig því þetta er ómissandi réttur fyrir alla sem heimsækja Prag. Nautaþynnur og nípu- og gulrótarsósa gerir þennan heimsfræga rétt að heilnæmri orkusprengju og fullkominn valkost fyrir fólk á ferðinni.
Grilované Klobásy
Hér er um að ræða eins konar bæjarins bestu Tékka. Þetta eru grillaðar pylsur í brauði með sinnepi og þær bragðast best með góðum pilsner. Þetta er besti götumatur Prag að okkar mati.
Gúllas
Tékkneskt gúllas er þykkur pottréttur með nautakjöti og grænmeti. Ungverska gúllasið er yfirleitt þynnra og líkist jafnvel súpu en gúllas-áhugamenn eru flestir hrifnari af því tékkneska. Það jafnast ekkert á við gúllas í Prag þegar heila á líkama og sál með einni góðri máltíð.
Chlebíčy
Chlebíčy eru eins konar smurbrauð eða opnar samlokur sem Tékkar borða í morgunmat, hádegismat, kvöldmat eða jafnvel til hátíðarbrigða. Það er alltaf viðgeigandi að fá sér chlebíčy og yfirleitt gríðarlegt úrval af áleggi fyrir þá allra kræsnustu.
Palačinky
Palačinky er tékkneskt sætabrauð sem líkist pönnukökum með áleggi að eigin vali. Algeng útgáfa er palačinky með ís, hnetum eða ávöxtum og þessi eftirréttur er í boði á flestum kaffihúsum og veitingastöðum. Á sumum stöðum er einnig hægt að fá ósætar útgáfur og þá er yfirleitt spínat, kjötálegg og ostur í boði.
Veitingastaðir
Það er nóg af metnaðarfullum veitingastöðum að velja úr í Prag. Sumir vilja fágaða stemningu, aðrir vilja heilnæma valkosti og enn aðrir vilja bara borða alvörumat eins og heimamenn.
U ParlamentuHlekkur opnast í nýjum flipa
Þeir sem vilja fágaða útgáfu af hefðbundnum tékkneskum mat ættu að fara beint á U Parlamentu. Hér er að finna lungnamjúkt kjöt, æðislegar sósur og vel útilátna skammta fyrir þá sem þurfa að hlaða batteríin. Það er ekki hægt að velja vitlaust af þessum matseðli, hér er allt gott. Þetta er mjög vinsæll staður svo það borgar sig að panta borð eða rækta þolinmæðina og matarlystina á meðan beðið er eftir borði.
Nase MasoHlekkur opnast í nýjum flipa
Kjötbúðin og veitingastaðurinn Nase Maso býður upp á eitt besta úrval af kjöti í Prag. Staðurinn er frægur fyrir safaríka hamborgara úr tékknesku nautakjöti og flestir geta ekki látið það á móti sér að kíkja aftur og jafnvel aftur á Nase Maso áður en þeir halda heim á leið. Matseðillinn tekur stöðugum breytingum en gæðin ekki.
Skemmtileg staðreynd: Grillaður beinmergur er ekki á matseðlinum en er yfirleitt fáanlegur. Hann er borinn fram með ristuðu brauði og steinseljusalati og þetta er rétturinn sem þú munt aldrei gleyma, löngu eftir að þú snýrð heim frá Prag.
KrcmaHlekkur opnast í nýjum flipa
Þetta er veitingastaður með hefðbundinn tékkneskan matseðil en það er ekkert hefðbundið við þessa stemningu. Í kjallara einum í gömlu borginni er að finna þennan sjarmerandi stað sem býður gestum upp á alvöru smábæjarbrag af bestu gerð í miðri borg. Hér er nóg af kjöti, brauði og dýrðlegum sósum og að sjálfsögðu er öllu skolað niður með góðum pilsner.
Falinn fjársjóður
Prag er töfrandi borg full af mögnuðum áfangastöðum og guðdómlegu útsýni. En hún leynir líka á sér. Ekki missa af þessum æðislegu „leynistöðum“ og minna þekktum fjársjóðum í Prag.
Karlovy Láznê
Karlovy Láznê er stærsti næturklúbbur Evrópu og hann er að finna í miðri Prag. Hér er um að ræða fimm hæðir, bari og dansgólf með þokuvélum og viðeigandi stemningu. Fáir skemmtistaðir komast með tærnar þar sem þessi hefur hælana. Hver hæð hefur sitt eigið þema og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi og tónlistarsmekk. Ef þú ert gömul sál sem hefur aldrei kunnað að meta klúbbastemningu kíktu þá á þriðju hæðina þar sem plötusnúðurinn reiðir fram gamla slagara langt fram á nótt.
John Lennon veggurinn
Þetta er einkennilegur áfangastaður en upprunalega var þetta andlitsmynd af John Lennon sem var máluð á vegg af aðgerðasinna eftir dauða Lennons árið 1980. Í dag er þessi andlitsmynd fyrir löngu orðin stærðarinnar listaverk í almannarými þar sem veggjalistin hefur eignað sér hugmyndina. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfirvalda til að hvítþvo vegginn hafa heimamenn og ferðamenn alltaf endurgert hann með líflegum myndum, textum og litum. Hér er sjón sannarlega sögu ríkari. Láttu þitt eftir liggja, fólk er hvatt til að bæta sínu handbragði við listaverkið.
Sigmund Freud styttan
Prag minnist eins frægasta íbúa Tékklands, sálgreinisins Sigmund Freud, á mjög sérstakan hátt. Minnisvarðinn er tveggja metra há stytta sem hefur verið hengd fyrir ofan byggingu í gömlu borginni. Hún hangir í málmbita yfir steini lögðu strætinu fyrir neðan. Það er vafalaust góð Freudísk skýring á þessum minnisvarða og staðsetningu hans en það þarf einhver annar að útskýra það.
Skemmtileg staðreynd: Styttan er svo raunveruleg að hún hefur oft orðið til þess að vegfarendur hringja á neyðarlínuna til að koma þessum manni til hjálpar.
Í hjarta Evrópu
Þessi klassíska tékknesa borg er heill heimur út af fyrir sig. Prag hefur bæði mikilfenglega ásýnd gamallar miðaldaborgar og rómantískan sjarma lítils sveitaþorps. Þessi sérstaka blanda er í raun einstök og lætur engan ósnortinn. Það er eitthvað við þessa borg sem er hreinlega ævintýralegt og töfrandi stemningin er hvarvetna áþreifanleg. Það er ekki að ástæðulausu sem margir kalla Prag „Disneyland fyrir fullorðna“.