- Blogg
Bestu dagsferðirnar frá Marrakesh
Bestu dagsferðirnar frá Marrakesh
Eru dagsferðir frá Marrakesh góð hugmynd? Þetta er ein af merkilegustu stórborgum heims, stútfull af litríkum ríads, spennandi tónlist, skemmtilegum verslunum, heillandi sögulegum og trúarlegum stöðum og svo margt, margt fleira. Það væri auðvelt að fljúga beint til Marrakesh og fara aldrei út fyrir borgarmörkin til að sjá meira af Marokkó, en að okkar mati væru það svokölluð byrjendamistök því það er svo margt að sjá og skoða í Marokkó og margar skemmtilegar dagsferðir sem hægt er að fara frá Marrakesh sem eru svo sannarlega þess virði.
Fjallganga. Fjórhjólaferð í eyðimörkinni. Synt í sjónum. Leiðsögn um frægt kvikmyndaver. Í aðeins nokkurra tíma fjarlægð frá Marrakesh má finna ævintýri fyrir alla aldurshópa og á hárréttu verði. Þessar dagsferðir eru auðveldar og aðgengilegar enda þaulskipulagðar og oftar en ekki eru máltíðir og leiðsögn innifalin í verðinu. Þeir sem vilja síður ferðast í hóp ættu að spyrja hótelið eða gestgjafann um einkabílstjóra sem er hagkvæmur kostur í Marokkó og frábær lausn fyrir þá sem vilja meira einrými og frelsi í dagsferðinni.
Hér eru sex vinsælar dagsferðir frá Marrakesh.
Ouzoud fossar
Í tveggja og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Marrakesh er hægt að komast að Atlasfjöllunum og þessum ótrúlegu 100 metra háu fossum en þeir eru jafnframt þeir stærstu í Norður-Afríku.
Hér má ganga niður að sundsvæði, stökkva af klettum út í vatnið, fara með litlum bát að fossinum, gefa öpunum á svæðinu að borða og auðvitað njóta óviðjafnanlegs útsýnisins. Aðgangur er ókeypis en hægt er að fá leiðsögn um svæðið við innganginn gegn gjaldi. Farið er í hópferðir frá Marrakesh að Ouzoud fossum og oftar en ekki er hádegisverður innifalinn.
Agafay eyðimörkin
Til að kynnast hinni víðfrægu eyðimörk Sahara fyrir alvöru þarf í raun þrjá daga. En á innan við klukkutíma frá Marrakesh er hægt að bruna um Agafay eyðimörkina á fjórhjólum.
Þetta hvíta klettaskorna landslag býður upp á ótrúlega magnað og framandi útsýni. Þeir sem vilja prófa að fara á úlfaldabak í Marokkó ættu alltaf að velja Agafay fram yfir Marrakesh sjálfa. Kvöldin eru síðan sérstaklega dásamleg hér og nánast ómögulegt að fylla ekki instagramið af töfrandi sólsetursmyndum.
Atlas Studios og Ait Benhaddou
Kvikmyndaáhugamenn geta fengið leiðsögn um sviðsmyndir sem voru varðveittar eftir að tökum lauk á fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda í Atlas Studios. Listinn er langur en vinsælustu sviðsmyndirnar eru án efa úr Gladiator, Game of Thrones og The Mummy.
Í þessari vinsælu dagsferð frá Marrakesh er oft stoppað í Ait Benhaddou. Þetta innmúraða þorp er fullt af fallegum byggingum og sögufrægum kasbah og hefur reglulega leikið aukahlutverk í Hollywood-bíómyndum, allt frá klassíska stórvirkinu Lawrence of Arabia.
Casablanca
Kvikmyndin Casablanca var víst ekki tekin upp í Marokkó en dagsferð til borgarinnar Casablanca er ekkert síðri upplifun þrátt fyrir það.
Hér má meðal annars sjá Hassan II moskuna en hún er önnur stærsta moska Afríku með 210 metra háum bænaturni. Byggingu moskunnar lauk árið 1993 og þetta er magnað nútímalegt mannvirki með íslömskum og márískum áhrifum. Staðsetning moskunnar við Atlantshafið eykur síðan aðeins á uppifunina. Þetta er líka eina moskan sem er opin öllum og við mælum sérstaklega með leiðsögn um bygginguna til að fá betri innsýn inn í söguna og fallegar skreytingarnar. Gönguferð meðfram sjónum í Casablanca er síðan ómissandi afþreying með skyldustoppi við El Hank vitann og fiskmarkaðinn á svæðinu.
Oualidia
Þetta er frábær afþreying úr alfaraleið fyrir þá sem ferðast á bíl og hafa tíma til að gista að minnsta kosti eina nótt. Þetta afslappaða sjávarþorp við fallegt lón er í um þriggja og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Marrakesh og er frábær staður til að komast í burtu og kjarna sig í rólegheitunum. Oualidia er oft kallað ostruhöfuðborg Marokkó en hér er líka nóg af útivist og afþreyingu svo sem fuglaskoðun (t.d. flamingóar á haustin) og brimbretti. Sultana Oualidia hótelið er frábær staður fyrir þá sem vilja gera vel við sig og njóta þess að fara í hefðbundið marokkóskt baðhús.
Fjallganga í Atlasfjöllum
Fyrir þá sem vilja útivist og hreyfingu er dagsferð upp í Atlasfjöll eina vitið.
Hægt er að bóka ferðir með leiðsögn í öllum erfiðleikastigum, allt frá auðveldum göngutúrum um lítil fjallaþorp yfir í dagleiðir á fjöllum. Toubkak fjall er í um tveggja tíma akstursfjarlægð frá Marrakesh en þetta er hæsti tindur Norður-Afríku og vinsæl tveggja daga ævintýraferð sem býður göngufólki upp á óviðjafnanlegt útsýni. Hvað sem verður fyrir valinu er þetta frábær leið til að kynnast hirðingjasamfélagi Berba yfir tebolla því það er að sjálfsögðu alltaf boðið upp á te í Marokkó.
Essaouira
Ef Marokkó telst vera „Kalifornía Afríku“ (eins og margir segja) þá er Essaouira í Marokkó eins og Venice Beach.
Afslöppuð bóhemastemningin innan borgarmúra Essaouira við hafið býður gestum að njóta þess að hanga, slaka á og gera sem minnst. Það er auðvelt að kíkja til Essaouira því almenningssamgöngur eru tíðar og þægilegar frá Marrakesh og leigubíllinn á milli er á ótrúlega góðu verði.
Það er ekkert mál að fylla daginn með því að slæpast um þessa dásamlegu borg en svo má alltaf finna sér eitthvað að gera ef afslöppunin reynist of mikil. Þá mælum við með hestaferð á ströndinni eða verslunarleiðangri um göngugötur medínunnar (sem er að sjálfsögðu á heimsminjaskrá UNESCO). Útsýnið yfir höfnina er dásamlegt en hér voru einmitt fjölmörg atriði úr Game of Thrones tekin upp og svo er ekki hægt að láta nýveitt sjávarfangið fram hjá sér fara. Dagsferðir frá Marrakesh til Essaouira eru vinsælar en flestir óska þess þó að hafa ekki gefið sér heila helgi á þessum yndislega stað. Þetta er afar rómantískur staður og þótt dagsferðin verði fyrir valinu er ekki hægt að missa af sólsetrinu í Essaouira.
Það þarf enginn að láta sér leiðast í Marokkó og við mælum svo sannarleg með því að fólk reyni að sjá meira en Marrakesh þótt það sé litrík og dásamleg borg full af ógleymanlegri afþreyingu. Gríptu beint flug til Marokkó á frábæru verði í dag og skelltu þér til Marrakesh með PLAY.