- Blogg
Gamalt og gott hjarta Vilníus
Gamalt og gott hjarta Vilníus
Höfuðborgin Vilníus er í miðri Litháen en þessi gamla borg er full af sögu, menningu og sjarma af gamla skólanum. Í elsta borgarhlutanum, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, er að finna steini lögð stræti, byggingarlist frá miðöldum og lifandi götulíf. Fyrir vikið ætti þessi sérstaki staður að vera efst á lista allra yfir góða afþreyingu í Litháen. Leyfðu þér að villast og lifðu þig inn í hressandi götulíf og samtímamenningu á þessi eldgamla sögusviði. Við förum yfir helstu ómissandi atriði þessa elsta borgarhluta Vilníus sem er ógleymanlegur staður heim að sækja.
Veisluborð fyrir öll skynfærin
Að rölta um gamla bæ Vilníus er eins og að fara í tímaferðalag á fæti. Þröngar göturnar eru rammaðar inn af litríkum byggingum sem sumar hverjar eiga sér ævaforna sögu. Krúttleg kaffihús og skemmtilegar búðir bjóða alla velkomna og gera upplifunina þægilega. Það er mjög áhugavert að fá leiðsögn frá fagmanni um þennan borgarhluta en svo má alltaf lesa sér til um söguna á fjölmörgum upplýsingaskiltum á leiðinni. Hér er tilvalið að villast í eins og einn eftirmiðdag og njóta alls sem fyrir augu, eyru og bragðlaukana ber.
Gotneskur arkitektúr Kirkju heilagrar Önnu
Eitt helsta kennileiti Vilníus er Kirkja heilagrar Önnu (Šv. Onos bažnyčia) en byggingin þykir meistaraverk í gotneskum byggingastíl. Rauður múrsteinninn og höggmyndir með ótrúlegum smáatriðum hafa heillað gesti og gangandi öldum saman enda er kirkja talin ein sú fallegasta í Evrópu. Innandyra má finna ríkulega skreytt altari, fallegaða glugga með steindu gleri og áhrifamikla þakboga sem sýna vel hvers konar byggingameistarar voru hér að verki. Þessi kaþólska kirkja á rætur sínar að rekja til 15. aldar en hefur að sjálfsögðu margoft gengið í endurnýjun lífdaga.
Vertu fróðari um Háskóla Vilníus
Háskóli Vilníus var stofnaður á 16. öld. Hann er einn elsti starfandi háskóli í Mið-Evrópu og til marks um ríka og langa sögu borgarinnar og vísindasamfélags hennar. Þegar ys og þys borgarinnar fer að segja til sín, mælum við sérstaklega með afslöppuðum göngutúr um háskólasvæðið þar sem barokkbyggingar og fallegir gamlir garðar mætast í friðsælu umhverfi. Þá er sérstaklega áhugavert að heimsækja metnaðarfullt bókasafn háskólans en þar er að finna fjölmörg sjaldgæf handrit og muni sem veita innsýn inn í ríka menningarsögu Litháen.
Kannaðu Uzupis: „Kristjaníu Vilníus“
Í hluta gamla bæjarins er að finna stórskrítna og skemmtilega hverfið Uzupis sem er stundum kallað lýðveldi. Þetta sjálfskipaða fríríki er einskonar Kristjanía Litháa og stemningin er í þeim anda. Hér má finna hugsjónafólk, hipstera, bóhema, listaspírur og litríka götulist. Röltu um þessar vinalegu götur og njóttu þess að uppgötva nýjar hugmyndir, veggmyndir, höggmyndir og kaffihús og láttu þig dreyma um að gerast listamaður í fríríki eins og allir sem gengu þessar götur á undan þér.
Láttu allt eftir þér á mörkuðunum
Í göngutúr um gamla bæinn er nánast óhjákvæmilegt að rekast á markað. Það er nánast skylda allra ferðamanna að stoppa á mörkuðunum og bragða á lostætinu, skoða handverkið og uppgötva eitthvað alveg nýtt sem þú vissir bara ekki að þig vantaði. Við mælum sérstaklega með Hales Turgus markaði til að bragða á ljúffengum ostum og heimabökuðu bakkelsi og Pilies-götu til að finna minjagripi, textílvörur og litháenskt handverk.
Sjáðu heiminn úr Gediminas-turni
Stundum borgar sig að taka skref aftur á bak til að sjá stóru myndina. Það á sérstaklega við um heimsókn í Gediminas-turn sem trónir yfir gamla hluta Vilníus, uppi á fallegri skógi vaxinni hlíð. Náðu skrefafjöldanum upp með tröppuþreki upp í topp og njóttu verðlaunanna sem eru magnað útsýni yfir gömlu þökin, líðandi árfarvegina og græna garðana sem einkenna sjónásinn yfir Vilníus. Ekki gleyma að kíkja á safnið í turninum sem veitir gestum og gangandi aukna innsýn inn í ríka menningarsögu Litháen.
Að lokum
Þegar búið er að rölta um sjarmerandi strætin, læra meira um sögu Eystrasaltsríkjanna, finna gersemar í litlum búðum og bragða á áður óþekktu lostæti stendur líka ein einstök afþreying eftir. Vilníus er eina höfuðborg Evrópu sem leyfir lofbelgjaflug yfir borginni og þetta er jafnævintýraleg skemmtun og það hljómar. Leyfðu þér litríka flugferð yfir þessa glæsilegu borg og njóttu þess besta sem Litháen hefur upp á að bjóða.