- Blogg
Ódýra útgáfan af Stokkhólmi
Ódýra útgáfan af Stokkhólmi
Ef þig langar að skemmta þér vel í góðri borgarferð án þess að eyða aleigunni er Stokkhólmur tilvalinn áfangastaður. Höfuðborg Svíþjóðar er full af áhugaverðum stöðum og menningarlegri upplifun og það er nóg í boði á góðu verði.
Eftirfarandi eru nokkur góð ráð og skemmtilegar hugmyndir til að njóta lífsins í Stokkhólmi á ódýrari hátt.
Gakktu um þessa glæsilegu borg
Eitt af því besta við Stokkhólm er að sjálfsögðu útlitið og það er sannarlega ókeypis. Gakktu um Gamla Stan, gömlu miðborgina, eða skoðaðu þig um í almenningsgörðunum og fjölmörgum útivistarsvæðum þessarar fallegu borgar.
Nýttu þér ókeypis viðburði og afþreyingu
Allt árið má finna ókeypis viðburði og afþreyingu í Stokkhólmi. Á sumrin er mikið um útitónleika og útibíó í almenningsgörðum borgarinnar og yfir vetrarmánuðina má t.d. skella sér á skauta á fjölmörgum skautasvellum. Hér er líka nóg af útimörkuðum og götuhátíðum þar sem hægt er að leita að litlum fjársjóðum og grípa sér góðan götumat fyrir lítið.
Vertu úti
Stokkhólmur er umkringdur vatni og borgin og nánasta umhverfi hennar er sannkölluð útivistarparadís. Nýttu þér þessa vatnaveröld með því að taka ferju út í eina eyjuna, synda í stöðuvatni eða rölta bara eftir árbökkunum.
Sparaðu í matarinnkaupunum
Það getur verið dýrt að borða á sænsku veitingastöðunum í Stokkhólmi enda margir hverjir í hæsta gæðaflokki og rómaðir fyrir fágaða stemninguna. Þeir sem vilja draga úr útgjöldunum ættu að skoða alþjóðlegri veitingastaði sem bjóða oft dýrindismáltíð og æðislega upplifun á mun lægra verði. Þá er að sjálfsögðu ódýrara að versla í stórmörkuðum en á götuhornum og þar er oftar en ekki hægt að narta í ókeypis sýnishorn í leiðinni. Þeir sem gista á íbúðahóteli eða hosteli geta nýtt sér eldunaraðstöðuna en svo má alltaf fara í lautarferð með nesti í almenningsgarðana.
Drekktu eins og heimamenn
Næturlíf Stokkhólms er heimsfrægt en það getur orðið dýrt spaug að djamma ef ekki er varlega farið. Hægt er að spara við sig með því að halda sig við bjór og sterk vín eins og heimamenn gera gjarnan sem er mun ódýrari leið til að njóta kvöldsins heldur en að gera vel við sig í hanastélum og léttvíni. Þá er oftast hægt að finna góð tilboð á hefðundnum „happy hour“ á flestum stöðum.
Skoðaðu ódýr og ókeypis söfn og almenningsgarða
Einhver bestu söfn Norðurlandanna er að finna í Stokkhólmi og mörg þeirra eru ókeypis eða ódýrari á ákveðnum dögum eða ákveðnum tímum sólarhringsins. Þeir sem eru í Stokkhólmi að sumri til ættu að fylgjast vel með dagskrá útitónleika og útibíós en hvort tveggja er oft hægt að finna ókeypis í almenningsgörðum borgarinnar.
Helstu söfn Stokkhólms eru:
- Vasa-safnið: Hér má skoða Vasa, eina heillega 17. aldar skip í heimi.
- ABBA-safnið: Það dugar ekkert minna en heilt safn til að fagna menningarsólinni sem hljómsveitin ABBA er.
- Borgarminjasafnið Skansen: Árbæjarsafn Stokkhólms er skemmtilegur áfangastaður fyrir alla sem hafa áhuga á sænskri sögu.
- Borgarsögusafn Stokkhólms: Safnið er í gömlu fangelsi og þar er farið yfir sögu Stokkhólms allt frá miðöldum til samtímans.
Það má líka finna fullt af ókeypis eða ódýrri afþreyingu á fjölmörgum útivistarsvæðum Stokkhólms. Umhverfið er yfirleitt gullfallegt við vötn, árbakka og síki borgarinnar og almenningsgarðarnir eru metnaðarfull græn svæði. Njóttu þess að finna nýjar gönguleiðir, synda í stöðuvötnunum eða bara láta þig reka eftir götunum og leyfa Stokkhólmi að koma þér á óvart.
Skoðaðu eyjaklasann
Eyjaklasi StokkhólmsHlekkur opnast í nýjum flipa samanstendur af u.þ.b. 30.000 eyjum og skerjum og þetta ef frábær útivistarparadís. Hér má finna fjölda ferja sem ganga á milli eyjanna og flestar bjóða ferðir á afslætti fyrir nemendur og eldri borgara. Það er tilvalið að taka með sér tjald og fara í útilegu á einhverri eyjunni og spara þannig stórfé á gistingunni.
Dagsferðir frá Stokkhólmi eru frábær leið til að skoða eyjurnar ódýrt. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á siglingar sem stoppa á eyjunum og það er auðvelt að ná sér í afslátt eða finna ódýrt far ef bókað er með fyrirvara.
Notaðu afsláttarkortin
Þeir sem hafa í huga að skoða algengustu ferðamannastaði ættu að íhuga að kaupa sér ferðamannakort Stokkhólms en því fylgir ókeypis aðgangur eða afsláttur á fjölmörg söfn og aðra ferðamannastaði borgarinnar. Stokkhólmskortið er vinsælasti möguleikinn en því fylgir ókeypis aðgangur í almenningssamgöngur en fjölmargir valmöguleikar eru í boði sem hægt er að velja í samræmi við þarfir.
Farðu í lestarrúllettu
Alveg eins og íslenskir krakkar skemmta sér í strætórúllettu má kynnast Stokkhólmi í lestarrúllettu. Rúllettan fer þannig fram að stigið er inn í einhverja lest á lestarstöðinni og farið út á einhverri lestarstöð til að skoða sig um á nýjum og ókunnugum stað. Þetta heppnast best ef ferðalangarnir vita sem minnst og geta stigið upp úr lestarstöðinni eitt spurningarmerki sem er til í að láta koma sér á óvart. Það borgar sig að hafa símann vel hlaðinn því það eru allar líkur á að það þurfi að grípa í GPS og kort á einhverjum tímapunkti í þessum leiðangri. Það er síðan algjör bónus að neðanjarðarlestarkerfi Stokkhólms er eins og risavaxið listasafn því hver stöð er fagurlega skreytt listaverk og hægt að reka upp stór augu af hrifningu í hverju stoppi.
Fljúgðu ódýrt til Stokkhólms með PLAY
Hvort sem hugmyndin er að eyða sem minnstu á áfangastað eða ekki er alltaf góð hugmynd að spara á fluginu því áfangastaðurinn er sá sami hvað svo sem flugmiðinn kostaði og þá er PLAY frábær valkostur. Við bjóðum ódýrt flug til Stokkhólms og því er ekkert því til fyrirstöðu að skoða úrvalið í bókunarvélinni okkar, spara stórfé á flugmiðanum og njóta lífsins þeim mun betur á áfangastað.