Skoða efni
Blár himinn, pálmatré og lítill turn í Marrakesh
5. Mar 2024

Uppgötvaðu heillandi töfra Marrakesh

Kíktu á líflega markaði, sjáðu fallegar fornar hallir og umvefðu þig þeirri einstöku orku sem er að finna í „rauðu borginni" Marrakesh í Marokkó.

Veisla fyrir skynfærin

Marrakesh er töfrandi borg þar sem gamli tíminn og nútíminn mætast. Þar geta ferðalangar auðveldlega gleymt sér á lifandi mörkuðum, eða innan um stórfenglega byggingarlist. Marrakesh er ein fjögurra keisaraborga Marakkó og höfuðborg Marrakesh-Safi svæðisins. Þessi stórbrotna borg er staðsett við rætur hinna frægu Atlasfjalla. Borgin er oft kölluð rauða borgin vegna rauðs sandsteins sem áður fyrr var notaður sem byggingarefni og setur enn svip sinn á Marrakesh. Með tímanum hefur borgin vaxið og orðið að sankallaðri menningar-, trúar- og viðskiptamiðstöð Marokkó.

 

Þegar gengið er um litríka markaði Marrakesh fer lyktin af framandi kryddum og gómsætum matvælum ekki fram hjá neinum. Þá eru gríðarlegt framboð á mörkuðunum af handunnum teppum, einstökum ljósakrónum og luktum, vönduðum leðurvörum og það er ekki verra að verða svangur í verslunarleiðangrinum því hér er götumaturinn ómótstæðilegur.

 

Þá má lengi dást að marglitum flísum og mósaík ásamt háum bænaturni Koutoubia-moskunnar, sem er frægt kennileiti og tákn um ríkulega íslamska arfleifð Marrakesh.

Fjölfarinn og litríkur markaður í Marrakesh í Marokkó

Upplifðu Marrakesh eins og heimamaður

Gamli víggirti borgarhluti Marrakesh er fullur af götusölum og skemmtilegum sölubásum þeirra. Þetta svæði kallast Medina-hverfið og er á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta er ein af fjölförnustu borgum Afríku og torgið Jemaa el-Fnaa sem er hjarta svæðisins er fjölfarnasta torg heimsálfunnar. Þetta er mikilvægt efnahagssvæði en einnig mjög vinsæll ferðamannastaður. Þar sem mikill uppgangur hefur orðið á fasteigna- og hótelviðskiptum í Marrakesh undanfarið hefur borgin orðið gríðarlega vinsæl meðal ferðamanna en einnig hefur færst mikið í aukana að útlendingar fjárfesti í sínu eigin heimili í þessari heillandi borg. Marrakesh státar einnig af stærsta souk-markaðinum í Marokkó, með alls 18 souk. Margir heimamenn selja handverk sín á souk-mörkuðunum og þar má finna ótrúlegustu gersemar á slikk enda eru þetta mjög vinsælir ferðamannastaðir.

 

Farðu aftur í tímann í Bahia-höll sem er meistaraverk marokkóskrar byggingarlistar þar sem gróskumiklir húsgarðar eru fagurlega skreyttir mósaík-myndum. Týndu þér í heillandi Majorelle-garðinum innan um aragrúa af kaktusum og framandi plöntum í kóngabláum tónum. Þessi víðfrægi garður var eitt sinn var í eigu fatahönnuðarins Yves Saint Laurent og er fyrir löngu orðinn ómissandi viðkomustaður allra sem heimsækja Marrakesh. Því næst er tilvalið að bragða á gómsætu tagine og þjóðardrykknum myntutei í hefðbundnu riad í nágrenninu.

Litrík mynd af tjörn með bláum stepytum köntum í litlum skógi í Marrakesh

Ævintýri handan borgarinnar

Farðu í spennandi úlfaldaferð í gegnum þyrpingar pálmatrjáa í Palmeraie sem er kyrrlátur griðarstaður í þægilegri fjarlægð frá ys og þys borgarinnar. Ferðastu síðan til hinna tignarlegu Atlasfjalla, þar sem Berberaþorpin leynast víða í hlíðum fjallana og stórkostlegar gönguleiðir leiða göngufólk að fallegum fossum. Skrepptu til strandbæjarins Essaouira sem er þekktur fyrir fallegar strendur, ferskt sjávarfang og afslappað andrúmsloft.

 

PLAY flýgur til Menara-alþjóðaflugvallar sem er í aðeins 15 mínútna akstursfjarlægð frá miðborg Marrakesh. Þá er mjög þægilegt að ferðast um Marokkó frá Marrakesh með lest.

Tvö kameldýr með reiðtygi í Marokkó

Spennandi?

Skoðaðu flug til Marrakesh

Finna flug

Loftslagið í Marrakesh

Veðurfarið í Marrakesh gæti varla verið ólíkara því sem Íslendingar eiga að venjast. Loftslagið er þurrt og sumrin, sem eru mjög löng, geta orðið gríðarlega heit á meðan veturinn þykir stuttur og mildur. Meðalhiti á daginn í Marrakesh yfir veturinn er 20°C.

Einstakar upplifanir

Marrakesh er iðandi af menningu og það er vissulega dásamleg upplifun að skella sér í leikhús, á danssýningu eða tónleika, jafnvel þótt að tungumálið og tjáningin sé framandi.

Handverk er þó líklega það sem flestir ferðamenn eru hvað sólgnastir í (fyrir utan matinn) og það má skemmta sér vikum saman við að skoða og versla marrokkóska listmuni og handverk í Marrakesh. Gullfallegar skreytingarnar sem sjá má á teppum sem og vefnaðarvöru, keramiki og tréverki eru jú eitt af sérkennum Marokkó. Teppin og vefnaðarvörurnar eru gríðarlega vandlega ofin, saumuð eða útsaumuð og oft eru þetta tilvalin efni til bólstrunar. Annað vinsælt handverk í Marrakesh er keramik, tréhandverk og málmsmíði.

 

Síðast en ekki síst, má njóta þess að blanda geði við vingjarnlega heimamenn á einhverri af fjölmörgum hátíðum Marrakesh. Menningarhátíðir eins og þjóðsagnahátíðin, hátíð dægurlista, þjóðsagnadagar í Marrakesh og Berberhátíðin eru allar þess virði að sjá og upplifa.

Geitur í tré í eyðimörkinni í Marokkó

Af hverju að heimsækja Marrakesh?

Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að allir ættu að íhuga Marrakesh þegar velja á áfangastað fyrir fríið:

  • Menningarleg upplifun: Marokkó er framandi, öðruvísi og spennandi en umfram allt þykir borgin mjög öruggur staður að vera á.
  • Veisla fyrir skynfærin: Marrakesh hefur yfirleitt varanleg áhrif á þá sem hana sækja heim. Búðu þig undir að elda eintóma gómsæta tagine-rétti mánuðum saman eftir að heim er komið og að svara endalausum spurningum um nýja ilminn þinn, guðdómlegu teppin og fallegu skartgripina.
  • Ævintýraleg umhverfið: Marrakesh er fullkomin byrjun að dagsferðum eða lengri ferðum til að skoða fjölbreytt landslag Marokkó, allt frá Atlasfjöllunum til Sahara eyðimerkurinnar og yndislegra strandbæja.
  • Verðið: Ekki bara bjóðum við flug á frábæru verði til Marokkó heldur er ótrúlega hagstætt að lifa í Marrakesh. Farðu út að borða í öll mál og keyptu eitthvað fallegt fyrir allan afganginn.
Gömul bygging í Marrakesh með stórri sundlaug fyrir framan.

Skipuleggðu Marrakesh fríið þitt

Besti tími til að heimsækja

Marrakesh er yndislegt allt árið um kring en vor- og haustmánuðir eru hvað vinsælastir þar sem veðrið er þægilega heitt.

 

Að ferðast um

Gamla hluta borgarinnar í Marrakesh er best að kanna fótgangandi, en leigubílar og caleches eða hestvagnar standa einnig til boða.

Gisting

Þú getur valið á milli hefðbundinna riad-húsa í eldri hluta borgarinnar eða hvaða lúxusdvalarstaða sem er með sundlaugar og heilsulindir fyrir utan borgarmúranna.

Spennandi?

Skoðaðu beint flug til Marrakesh

Finna flug
The turquoise waters off the shore of a beautiful Adriatic beach near Split in Croatia
NÆST Á DAGSKRÁ

Stórfenglegar strendur Split í Króatíu