- Fréttir
PLAY valið besta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu
PLAY valið besta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu
Flugfélagið PLAY er fremsta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu samkvæmt árlegum lista World Airline Awards sem byggir á umsögnum flugfarþega. The World Airline Awards hafa verið veitt frá árinu 1999 og eiga sér því 24 ára sögu. Verðlaunin, sem jafnan eru kölluð Óskarsverðlaun fluggeirans, eru byggð á umsögnum farþega á síðunni Skytrax sem er gerð út frá London.
Ekki er krafist þess að flugfélög skrái sig til leiks til að eiga möguleika á verðlaunum hjá World Airline Awards, heldur er hægt að tilnefna hvaða flugfélag sem er.
Nú þegar rétt rúm tvö ár eru liðin frá því PLAY fór sitt fyrsta flug í sögu fyrirtækisins í júní 2021 hefur það náð að gera sig gildandi á lista World Airline Awards.
Samkvæmt World Airline Awards er PLAY besta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu. PLAY er í tíunda sæti yfir bestu lággjaldaflugfélög Evrópu og þar að auki það félag sem hefur tekið mestu framförum í Evrópu á árinu 2023 því félagið fór úr 167. sæti listans yfir World´s Best Airlines árið 2022 í 91. sæti árið 2023.
„Þetta er gífurlegur heiður sem okkur er sýndur þetta árið og mikil viðurkenning á því frábæra starfi sem samstarfsfólk mitt hjá PLAY er að vinna. Það sem skiptir mestu fyrir okkur er að þetta er byggt á umsögnum farþega, sem er sá mælikvarði sem varðar okkur mest enda leggjum við gífurlega áherslu á að upplifun farþega sé sem best. Hvert sem við fljúgum leggjum við áherslu á að bjóða upp á lægsta verðið samhliða frábærri þjónustu um borð. Þá er stundvísi eitt af grunngildum PLAY sem sýnir sig í frábærum tölum sem við höfum verið að skila um stundvísi okkar í brottförum og komum. Við státum einnig af yngsta flugflota Evrópu sem gerir rekstur okkar áreiðanlegan og skilar sér á endanum í ánægju farþega okkar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.