- Blogg
Frábærar dagsferðir frá Cardiff í Wales
Frábærar dagsferðir frá Cardiff í Wales
Þótt Cardiff, höfuðborg Wales, sé full af skemmtilegri afþreyingu og góðri stemningu er mikið af ómissandi áfangastöðum í næsta nágrenni sem vert er að skoða. Við mælum eindregið með því að ferðamenn gefi sér að minnsta kosti einn dag til að upplifa gullfallega náttúru Wales, ævintýralega kastalana, spennandi strendurnar og sjarmerandi þorpin sem leynast víða í velsku sveitinni. Hér förum við yfir nokkrar spennandi dagsferðir í þægilegri fjarlægð frá Cardiff.
Skoðaðu þjóðgarðinn Brecon Beacons
-Innan við klukkustund í bíl
Í þægilegri fjarlægð frá Cardiff er gullfallegur þjóðgarðurinn Brecon Beacons. Þetta er sannkölluð útivistarparadís og hér má finna fjölmörg tækifæri til að upplifa sín eigin ógleymanlegu ævintýri í náttúrunni. Göngufólk ætti að skoða fjallgöngur á tinda Pen y Fan og Corn Du þaðan sem útsýnið er stórbrotið yfir dalina og grænar hæðirnar allt í kring. Þeir sem kjósa að spara háfjallaorkuna geta notið sín við rölta um fallegar gönguleiðirnar þar sem fornar rústir og fallegir fossar bera reglulega við augu. Það jafnast fátt á við að verja deginum í fallegi umhverfi og þessi þjóðgarður svíkur engan náttúruunnanda.
Skoðaðu strandlengju Gower-skaga
-U.þ.b. 1 klst. og 20 mínútur í bíl
Rétt rúmri klukkustund til vesturs í bíl má finna skagann Gower sem er friðaður fyrir einstaka náttúrufegurð sína (Area of Outstanding Natural Beauty). Þar má finna gullnar strendur, ægifagra kletta og sjarmerandi sjávarþorp enda er Gower vinsælt afdrep borgarbúa sem þurfa að hlaða náttúrubatteríin og innri frið. Stingdu tánum í mjúkan sandinn í Rhossili Bay sem hefur komist á lista yfir bestu strendur í heimi. Eða skoðaðu fornar rústir Pennard kastala sem situr hátt yfir Three Cliffs Bay flóa. Hvort sem hugmyndin er að komast í sólkysstar strendur eða ganga með fram strandlengjunni og njóta útsýnisins ætti Gower-skagi að fara fram úr björtustu vonum.
Kynntu þér söguna í Caerphilly kastala
-U.þ.b. 30 mínútur í bíl
Ferðastu í tímavél til fortíðar í Caerphilly kastalaHlekkur opnast í nýjum flipa, einu stærsta og fallegast miðaldavirki í Evrópu. Þetta mikla virki stendur skammt frá Cardiff og veitir gestum og gangandi einstaka innsýn inn í Wales til forna. Hér má dást að ytra virkinu sem og ævintýralegum innviðunum. Við mælum sérstaklega með göngutúr um svæðið sem er ekki bara fullkominn bakgrunnur fyrir Instagram-stjörnurnar heldur er svæðið jafnfriðsælt og það er fallegt. Sögunördar, fagurkerar og menningarvitar fá allir eitthvað til að smjatta á í Caerphilly kastala.
Hugleiddu heillandi fegurð Tintern Abbey
-Tæp klukkustund í bíl
Það þarf ekki að keyra lengi út í velsku sveitina til að komast í ævintýralegar rústir Tintern AbbeyHlekkur opnast í nýjum flipa. Þetta stórvirki miðaldaarkitektúrs liggur í friðsælum Wye dalnum. Klaustrið var stofnað árið 1131 og hér má skyggnast inn í heillandi trúarsögu Wales ásamt því að dást að konfektkassamyndunum sem umkringja það við bakka árinnar Wye. Það má eyða öllum deginum í að ráfa um ævintýralegt póstkortið sem þetta klaustur virðist vera en í góðu veðri má kóróna slíkan dag með lautarferð við árbakkann. Við mælum sérstaklega með Tintern klaustri fyrir áhugafólk um sagnfræði, náttúruunnendur og þá sem gætu þegið örlitla kyrrð og ró.
Kynntu þér velska menningu á St Fagans Þjóðminjasafninu
-20 mínútur í bíl
Taktu fríið í Wales alla leið og kynntu þér ríkulega sögu þjóðarinnar og menningararfinn í þjóðminjasafninu St Fagans National Museum of HistoryHlekkur opnast í nýjum flipa, sem er steinsnar frá Cardiff. Þetta útisafn sýnir eins og best verður á kosið stórmerkilega sögu Wales með sögulegum byggingum sem hafa verið vandlega endurbyggðar á svæðinu og gefa þannig gestum áþreifanlega innsýn inn í löngu liðna fortíð. Hér má rölta á milli fallegra garða í sveitasælu en jafnframt kynnast fornum hefðum, gömlum búskaparháttum, kapellum og vinnusmiðjum og sjá þannig hversdagsleika fortíðarinnar.
Cardiff er bara byrjunin
Það þarf ekki að fara langt út úr Cardiff til að renna á ógleymanlega staði sem munu dvelja lengi í minningunni eftir að heim er komið. Ekki missa af ósnortinni náttúrufegurðinni í Brecon Beacons, magnaðri sögu Caerphilly kastala eða gullfallegu strandlengjunni á Gower. Leyfðu Cardiff að hleypa þér út að skoða Wales í allri sinni dýrð og mundu svo að stoppa á alvöru krá á leiðinni og njóta lífsins með vingjarnlegum heimamönnum í sjarmerandi smáþorpi.