Skoða efni
Beautiful golden beach with rocky facades and clear seas in Faro in Portugal
28. Aug 2024

Frábærar dagsferðir frá Faro - Það allra besta af Algarve

Faro er sjarmerandi og sólrík höfuðborg Algarve-héraðs í Portúgal. Borgin er þekkt fyrir sjarmerandi gamla bæinn, fallegar strendur, unaðslegt veðurfar og afslappað andrúmsloft. En utan borgarmarkanna leynist fjöldi áhugaverðra áfangastaða sem auka bara á upplifunina af þessu fjölbreytta héraði Algarve hvort sem það er með stórbrotnu landslaginu, ríkri sögu eða lifandi menningu. Í stuttum dagsferðum frá Faro má nefnilega finna einstakar náttúruperlur, heimsfræga golfvelli, lúxuslíf innan um snekkjurnar og meira að segja sjálfan hjara veraldar. Hér förum við yfir nokkrar fyrirtaksdagsferðir frá Faro.

Rómverska brúin í borginni Tavira í Portúgal

Albufeira - Sól, sandur og spennandi næturlíf

-45 mínútur í bíl

Borgin Albufeira er í aðeins 45 mínútna akstursfjarlægð frá Faro. Þessi sólríka borg er einn vinsælasti ferðamannastaður Algarve en hér má finna gylltar strendur, litríkt næturlíf og sjarmerandi gamla borgarmiðju. Hér ætti dagurinn að byrja í gamla bænum, nánar tiltekið með rólegum göngutúr um steini lögð stræti og hvítþvegin hús með hléum í sjarmerandi verslunum og vinalegum veitingastöðum. Andrúmsloftið er afslappað yfir daginn og þetta er tilvalinn staður til að vinna gómsætan hádegismat í rólegheitunum.

Að því loknu væri þjóðráð að fara á ströndina. Praia dos Pescadores eða „Veiðimannaströndin“ er frábær strönd í Albufeira þar sem bora má tánum í mjúkan sandinn, synda í tærun sjónum eða hanga bara á einhverjum strandbar með svalandi kokkteil í rólegheitunum. Fyrir þá sem kjósa frekar fámenni mælum við með Praia da Oura en sú strönd er minni, umkringd fallegum klettum og andrúmsloftið er kyrrlátara hér.

Þeir sem vilja hamast í alls konar vatnasporti þurfa sannarlega ekki að láta sér leiðast í Albufeira því hér er eiginlega allt í boði, hvort sem það er sækettir eða seglbretti og allt þar á milli. Þegar sólin fer að lækka á lofti er um að gera að kíkja á stemninguna í bænum. Þá er best að byrja á götunni „Strip“ sem er hlaðin börum, klúbbum og veitingastöðum og hér eru einfaldlega allir mættir til að skemmta sér vel.

Klettar, sjór og falleg borgin Albufeira í Portúgal

Tavira - Aftur til fortíðar

-U.þ.b. 30 mínútur í bíl

Dagsferð til Tavira er unun fyrir rólynda og vandláta. Þetta er gullfallegur bær í aðeins hálftíma akstursfjarlægð frá Faro en Tavira toppar oft lista yfir fallegustu bæi Algarve og ástæðan er augljós þegar á hólminn er komið. Hér ræður ríkjum arkitektúr sem er einhvers konar blanda frá tímum Mára og seinna endurreisnar og borgin lumar á urmul af þröngum strætum og sjarmerandi torgum sem ramma inn þennan sögufræga stað.

Dagurinn í Tavira ætti að byrja rómversku brúnni (Ponte Romana) sem þverar ána Gilão en þaðan er dásamlegt útsýni yfir bæinn. Frá brúnni er best að rölta um gamla bæinn og kíkja inn í einhverjar af mörgum gömlum kirkjunum sem þar er að finna. Ber þar helst að nefna kirkjuna Santa Maria do Castelo sem er byggð á rústum gamallar mosku. Ekki missa af kastala Tavira sem er í sjálfu sér einstaklega myndrænt gamalt borgarvirki en er líka frábær útsýnispallur yfir bæinn og sveitirnar í kring.

Eitt helsta kennileiti Tavira er þó líklega eldgamlar saltflatirnar sem hafa verið notaðar öldum saman til úrvinnslu sjávarsalts. Hér má fá innsýn inn í aldagamla hefð og við saltflatirnar má líka sjá einstakt dýralíf svæðisins, þar á meðal flamingóa og aðra framandi vaðfugla.

Eftir að búið er að skoða það helsta í bænum er skyldumæting út í eyjuna Ilha de Tavira þar sem er að finna einhverjar fallegustu strendur Algarve-héraðs. Ferja tengir eyjuna við meginlandið en þegar þangað er komið er að finna langa strandlengju með dúnmjúkum sandi og kristaltærum sjó og þetta er raunverulega fullkominn staður til að stranda á, synda eða bara liggja í sólbaði. Hér er líka að finna úrval af frábærum veitingastöðum og það jafnast fátt á við að njóta gómsætra sjávarrétta við sólarlag á ströndinni.

Götumynd með gróðri frá Tavira í Portúgal

Loulé - Markaðir, kastalar og menning

-U.þ.b. 20 mínútur í bíl

Aðeins 20 mínútum frá Faro er að finna bæinn og sjarmatröllið Loulé. Hér má njóta fullkominnar blöndu af menningu, sögu og sannkallaðri bragðlaukaveislu. Loulé er nefnilega frægur fyrir markaðina og hér má kynnast menningu héraðsins með öllum skynfærum og finna skemmtilega fjársjóði til að taka með heim í leiðinni.

Loulé-markaðurinn (Mercado Municipal de Loulé) er starfræktur í fallegri byggingu í márastíl í hjarta bæjarins. Hér er að finna óteljandi bása sem selja ferska matvöru, osta úr nærsveitum, hefðbundnar pylsur og þjóðlegt handverk. Þetta er hinn fullkomni staður til að bragða á því besta í Portúgal eða einfaldlega fylla á nestiskörfuna.

Eftir að hafa nartað þig í gegnum markaðinn er tilvalið að rölta um gamla bæinn en þar er meðal annars að finna Loulé-kastala. Þetta 12. aldar borgarvirki sem var byggt á tímum Mára veitir gestum og gangandi heillandi innsýn inn í sögu svæðisins. Turn kastalans og virki hans eru vel varðveitt og við mælum með litla safninu sem fer vel yfir sögu bæjarins.

Þeir sem eiga leið um Loulé á laugardegi ættu ekki að láta sígaunamarkaðinn rétt fyrir utan bæinn fram hjá sér fara. Þetta er lifandi og litríkur markaður þar sem hægt er að gera mjög góð kaup á handverki, textíl og öðrum einstökum munum og stemningin er bæði vinaleg og skemmtilega öðruvísi.

Vinsæli markaðurinn í bænum Loulé í nágrenni Faro í Algarve-héraði í Portúgal

Hljómar þetta ekki vel?

Fljúgðu til Faro

Skoða flug

Vilamoura – Lúxuslíf og paradís kylfinganna

-25 mínútur í bíl

Þeir sem vilja lifa í dálitlum lúxus og mögulega taka einn ógleymanleg golfhring á glæsilegum velli ætti dagsferð til Vilamoura að vera efst á lista. Það tekur aðeins um 25 mínútur að keyra til Vilamoura frá Faro en þetta er einn flottasti áfangastaður Algarve og hér er að finna stórbrotna smábátahöfn, heimsfræga golfvelli og lúxuslíf eins og það gerist best.

Byrjið daginn á smábátahöfninni, þeirri stærstu í Portúgal, og röltið á milli ótrúlegra lúxussnekkja, kíkið í betri merkjavörubúðirnar og fáið ykkur kaffi eða kokkteil á einhverjum óbærilega flottum stað við höfnina. Á smábátahöfninni má líka komast í alls kyns vatnasport, s.s. djúpsjávarveiði, siglingar og bátsferðir með fram ströndinni.

Kylfingar og áhangendur þeirra eru mættir í sannkallaða paradís í Vilamoura því hér er að finna nokkra heimsfræga golfvelli. Dom Pedro Victoria golfvöllurinn er þar fremstur meðal jafningja en portúgalska meistaramótið hefur oft verið haldið þar. Golfgoðsögnin Arnold Palmer hannaði völlinn en hér má finna krefjandi holur í æðislegu umhverfi fyrir öll getustig og útsýnið lætur sitt sannarlega ekki eftir liggja.

Ef golf er ekki þitt sport má auðvitað gullfallegur strendur í Vilamoura, s.s. Praia da Falésia, sem þekur marga kílómetra og er römmuð inn af rauðum klettunum. Hvort sem þú vilt njóta á ströndinni, skoða snekkjur í höfninni eða fara ógleymanlegan hring með kylfurnar er Vilamoura fullkomin af góðri skemmtun og góðri slökun.

Golf course with the beach and sea in foreground in Vilamoura in Portugal

Sagres og Cabo de São Vicente - Hjari veraldar

-1,5 klst í bíl

Það er ekki auðvelt að selja Íslendingum hugmynd um ógleymanlegt landslag því við fáum flest nóg af því heima hjá okkur. Að því sögðu ætlum við samt að mæla með dagsferð til Sagres og nærliggjandi höfðans Cabo de São Vicente.

Sagres er lítill og afslappaður bær með ríka siglingasögu. Við mælum með Sagres-virkinu sem lék lykilrullu á tímum landkönnuða og þar má nú fræðast um sögu bæjarins og fræga landkönnuði. Frá virkinu er magnað útsýni yfir óheflaða strandlengjuna og Atlantshafið.

Höfðinn Cabo de São Vicente er skammt frá Sagres og dramatískt klettabeltið, kröftugar öldurnar og fallegur vitinn sem þar stendur eru vel bílferðarinnar virði. Höfðinn er þekktur sem „Hjari veraldar“ en þetta er suðvestasti punktur meginlands Evrópu og frá honum er víðsýnt út yfir Atlantshafið. Þetta er dramatískur staður, meira að segja fyrir veðraða Íslendinga.

Sagres þykir algjör paradís fyrir brimbrettafólk því hér má finna einhverjar bestu öldur Algarve. Það má finna nóg af tækifærum og þjónustu fyrir öll getustig þessarar íþróttar en margir koma einfaldlega til að dást að atvinnumönnunum spreyta sig í briminu.

Viti á bjargbrún Cabo de São Vicente í Algarve-héraði í Portúgal

Að lokum

Staðsetning Faro í miðju Algarve-héraði gerir borgina að frábærum stað til að kanna þetta svæði með stuttum dagsferðum. Allt frá lifandi ströndum Albufeira til sögulegs sjarma Tavira, menningarauðæfa Loulé, golfparadísarinnar sem er Vilamoura og óheflaðrar náttúrufegurðar Sagres, það finna allir eitthvað við sitt hæfi í stuttum bíltúr frá Faro. Hvort sem hugmyndin um draumafríið er afslöppun, ævintýri, menning eða ógleymanleg bæting á forgjöfinni eru þessar dagsferðar fullkomin leið til að upplifa það besta í Algarve og möguleg Portúgal eins og það leggur sig. Pakkaðu kylfunum og sólgleraugunum en skildu eftir pláss fyrir allar gersemarnar sem þú færð á mörkuðunum og gríptu ódýrt flug til Faro í dag.

Gyllt strönd umkringd klettabelti með tærum sjó í Algarve-héraði í Portúgal

Hljómar vel?

Fljúgðu til Faro

Skoða flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Madeira, perla Atlantshafsins